Ekkert pláss fyrir okkur á hjúkrunarheimilunum?

Pétur Magnússon

Pétur Magnússon

Mikil fjölgun aldraðra á næstu áratugum þýðir að byggja þarf fleiri hjúkrunarrými. Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistuheimilanna segir að það vanti mikið uppá að bygging hjúkrunarrýma síðustu ár hafi verið næg og lýsir eftir stefnu hér á landi í málefnum veikasta hópsins meðal aldraðra. Hann segir að á tímabilinu 2006-2011 hafi rýmum fyrir aldraða fækkað um 10% á meðan fjölgunin í elsta aldurshópnum hafi verið 10%, en þessar tölur koma fram í skýrslu ríkisendurskoðunar

Úrræði skortir

Hann segir að til að viðhalda núverandi ástandi hefði þurft að bæta við 30-50 hjúkrunarrýmum á ári frá 2006-2011, en það hafi ekki verið gert. Á árabilinu frá 2011 til 2016 hafi þurft að fjölga um 200-300 rými en innan við 100 hafi bæst við eins og staðan sé nú. „Aldraðir sem eru mikið veikir verða stöðugt stærri hópur í heilbrigðisþjónustunni og á spítölunum“ segir hann. „Með óbreyttri stefnu magnast þetta og okkur skortir úrræði til að bæta þarna úr“.

Tvöfalda þarf fjölda rýma

Pétur segir að rekstur hjúkrunarrýma kosti 24 milljarða á árinu 2015 samkvæmt fjárlögum. Hann segir að á árunum 2030-2035 hafi fjöldi aldraðra tvöfaldast frá því sem nú er og verði fjöldi hjúkrunarrýma tvöfaldaður til samræmis við það, muni reksturinn vera farinn að kosta 48 milljarða króna á ári, sem samfélagið hefur varla efni á. „Ef það verður ekki gert þarf að finna aðrar lausnir“, segir hann. „Sumir vilja búa heima eins lengi og kostur er, en aðrir vilja búa innanum annað fólk og hafa félagsskap. Við megum ekki gleyma að gefa fólki val“.

Hjúkrunarrými og heimaþjónusta geta kostað það sama

Hann bendir á að þurfi þeir sem búa einir að fá heimsókn oftar en þrisvar á dag frá heimahjúkrun, kosti það svipað og rými á hjúkrunarheimili. „Ef við viljum að fólk sem þarf mikla þjónustu búi heima kostar það líka fyrir samfélagið. Hvað viljum við í þessum efnum? Stjórnvöld þurfa að setja fram markvissa stefnu um skipan þessara mála og einnig um forvarnir og mikilvægi þess að fólk sé meðvitað um ábyrgð á eigin heilsu “, segir Pétur að lokum.

Ritstjórn júní 10, 2015 13:50