Lífeyrisgreiðslur óbreyttar meðan aðrir hækka

Kristján Möller

Kristján Möller

Kristján Möller þingmaður Samfylkingarinnar kvadd sér hljóðs í fyrirspurnartíma á Alþingi á þriðjudag og spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um hvort aldraðir og öryrkjar fengju ekki örugglega sömu hækkanir og aðilar vinnumarkaðarins náðu samkomulagi um í síðustu viku. Svo kallað Salek samkomulag sem fól í sér almenna hækkun launa um 6,2 prósent frá áramótum. Kristján sagði hart hefði verið deilt um kjör aldraðra og öryrkja í lok haustþings. Eftir hækkanir um áramótin fengju þessir hópar um 186 þúsund krónur eftir skatt og það lifði enginn mannsæmandi lífi á þeirri upphæð.

Óvenju miklar hækkanir

Forsætisráðherra ítrekaði að kaupmáttur þessara hópa hefði aukist mikið á síðasta ári. Greiðslur hefðu hækkað mikið í prósentum vegna samninga á vinnumarkaði og verðlagsbreytinga. „Þetta var gert upp fyrir árið 2015 við síðustu áramót og þar af leiðandi, vegna þess að miklar kauphækkanir höfðu orðið á því ári, var óvenjuhá prósentuhækkun lífeyrisgreiðslna um síðustu áramót. Nú lítur út fyrir að þegar þetta ár verði gert upp verði einnig mjög umtalsverðar hækkanir lífeyris vegna þess að laun fólks munu þróast með þeim hætti, þau munu hækka það mikið, að uppfærslan, til að gera upp árið 2016, verður þeim mun hærri hvað varðar örorku- og ellilífeyrisgreiðslur,“ sagði forsætisráðherra.

Bíða í heilt ár

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Kristján sagði að ef hann skildi ráðherrann rétt myndu aldraðir og öryrkjar bíða í tólf mánuði eftir hækkunum. „Ég trúi því ekki að forsætisráðherra ætli að skilja þennan hóp einan eftir óbættan. Hefur ríkisstjórnin þar fundið breiðu bökin til að jafna ríkisreikning og fjárlagahalla eða koma í veg fyrir fjárlagahalla? Ég spyr. Afraksturinn er nú ekkert mjög mikill í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það var tæplega 3.500 kr. hækkun eftir skatt sem fór með matarskattinum og svo 11.000 kr. núna. Þessar lágmarksbætur eru 186.000 kr. í dag og eiga þá að vera út þetta ár ef forsætisráðherra ætlar ekki að beita sér fyrir þessari lagfæringu, sagði Kristján.

Tilraun til popúlisma

Forsætisráðherra sagði ummæli Kristjáns auma tilraun til popúlisma. Hann ætti að vita að lífeyrisgreiðslur séu hækkaðar um áramót. „Ég væri alveg opinn fyrir því að skoða það að hækka þessar greiðslur oftar eða tengja það við það þegar sem flest stéttarfélög eru að semja. Það er allt í lagi að skoða það,“ sagði Sigmundur Davíð og bætti við að þessir hópar hefðu hagnast á því að þetta skuli gert upp um áramót því þá sé allt árið skoðað í heild. „Þá er það allt tekið með í reikninginn, verðlagshækkanir, launahækkanir og gert upp um áramótin.“ Ef þessi leið hefði ekki verið farin á síðustu árum hefðu kjör eldri borgara ekki batnað jafnmikið og þau hafa gert með núverandi fyrirkomulagi.

Ritstjórn janúar 27, 2016 12:38