Eldri Danir stunda kynlíf og nota klám og víbratora

Ef einhver trúir því að öllu kynlífi sé lokið þegar komið er á eftirlaunaaldur, getur sá hinn sami hugsað sig tvisvar um.  Í Danmörku er það jafn stór hluti fólks 65 ára og eldra, og allra annarra, sem upplifir kynlíf sem stóran og þýðingarmikinn hluta af lífinu.  Fólk elskast á milli laka, stundar sjálfsfróun, horfir á klám og leikur sér með kynlífsleikföng langt fram eftir aldri.  Þetta kemur fram í risastórri nýútkomni könnun um kynlíf danskra eldri borgara.  Könnunin er sú stærsta af sinni tegund í heiminum.  62.000 manneskjur á aldrinum 15-89 ára tóku þátt henni og var hún unnin af Háskólanum í Álaborg og stofnun sem heitir Statens Serum Institut.

„Eldri manneskjur eru jafn mismunandi og allir aðrir.  Kynlífsáhuginn hverfur ekki einungis vegna þess að þú verður eldri“,  segir á heimasíðunni sundhead.dk.

Sáttir við kynlífið.

Um helmingur eldri borgara segist í könnuninni lifa góðu eða mjög góðu kynlífi, ef þeir horfa til baka síðasta árið.  Þessi jákvæða upplifun á við um aðeins fleiri konur en karlmenn.  Næstum þriðji hver Dani, karlar og konur, í aldurshópnum 65-74 ára segja að kynlífsþörfum þeirra sé mætt að öllu eða lang mestu leyti.  Það sama gildir um fjórða hvern einstakling yfir 75 ára aldri.  Í aldurshópnum 65-75 ára, höfðu 34% karla og 25% kvenna stundað kynlíf í síðustu viku. Það á einnig við um 19% karla og 12% kvenna í aldurshópnum 75 ára og eldri.

Risvandamál og gervilimir

Ef það á að krydda aðeins upp á heimaleikfimina, eru gevilimir, vibratorar eða önnur kynlífsleikföng oft tekin með í leikinn.  15% af hópnum 65-75 ára segjast hafa prufað einhver erótísk leikföng síðasta árið.  Í hópnum 75 ára og eldri eru 6% sem leika sér til dæmis með gervilimi og vibratora.  Þegar vandmál gera vart við sig í kynlífi eldri borgara er það oft vegna risvandamála hjá karlmönnunum, sem aukast þegar karlarnir komast yfir 75 ára aldurinn. Hjá konum eru helstu vandamálin, meðal annars þurrkur í leggöngum.

Taka til sinna ráða ef kynlíf er ekkert

61% kvenna og 43% karla í  hópnum 75 ára og eldri, segjast ekki hafa stundað kynlíf með aðila af gagnkvæmu kyni síðasta árið.  Í hópnum 65-74 sögðust 25% karla og 40% kvenna, ekki hafa gert það.  Fólk deyr þó ekki ráðalaust og sumir taka málin í eigin hendur samkvæmt könnuninni.  Þriðji hver karl á aldrinum 65-75 ára stundar sjálfsfróun að minnsta kosti einu sinni í viku og það sama á við um áttundu hverja konu. Fyrir fólk eldra en 75 ára eru sambærilegar tölur fimmti hver karl og þrettánda hver kona.

Eldri konur ekki fyrir klám.

Karlmennirnir horfa á klám. Fjórði hver karl á aldrinum 65-75 ára horfir á klám einu sinni eða oftar í viku og áttundi hver karl á aldrinum 75 ára og eldri.  En samkvæmt könnuninni virðist klámið ekki höfða til kvenna.  Minna en 1% kvenna, 65 ára og eldri, hefur áhuga á að fylgjast með öðru fólki stunda kynlíf.

Ritstjórn nóvember 28, 2019 07:36