Margir halda að þeir sem eru orðnir 70 eða 75 ára og eldri fái ekki að taka þátt í skoðanakönnunum. Það er hins vegar ekki rétt. Fyrirtækin Gallup og MMR sem gera reglulega kannanir á fylgi flokka, afstöðu til ríkisstjórna, stjórnmálamanna og málefna líðandi stundar hafa engin efri aldursmörk. Slíkar kannanir taka einfaldlega til átján ára og eldri. Matthías Þorvaldsson hjá Gallup, upplýsti Lifðu núna um að fyrir fimm til sex árum hafi Gallup borist kvartanir vegna þess að eldri en 75 ára áttu ekki möguleika á að vera með í þjóðmálakönnunum og þá hafi verið brugðist við með því að breyta úrtakinu í 18 ára og eldri. Ásgrímur Tryggvason hjá MMR segir að það sé löngu hætt að vera með einhver efri aldursmörk í þjóðmálakönnunum. Það séu ár og dagur síðan því var hætt.
Keyptar kannanir
Allt öðru máli gegnir um kannanir sem eru keyptar af stjórnmálflokkum, fyrirtækjum og öðrum. Sá sem kaupir könnunina ákveður þá að hverju á að spyrja og líka á hvaða aldri þeir sem taka þátt í könnuninni eru. Kaupandinn ákveður þá til dæmis að hann vilji láta spyrja fólk á aldrinum 20 til 40 ára eða 30 til 50 ára um afstöðu til ákveðinnar vöru eða þjónustu.
Þúsundir í viðhorfahópum
Bæði Gallup og MMR eru með viðhorfahópa og í þeim eru mörg þúsund manns. Þeir sem eru í viðhorfahópunum eru valdir með tilviljunaraðferð úr þjóðskrá. Það getur enginn hringt og boðið sig fram eða skráð sig sjálfur heldur þarf fólk að fá beiðni um að vera með og samþykkja hana. Viðhorfahóparnir eru valdir með það leiðarljós að þeir endurspegli viðhorf þjóðarinnar og aldursdreifingu. Það á því að vera hægt að alhæfa út frá svörunum. Þeir sem eru í viðhorfahópunum fá senda spurningalista í tölvupósti til að svara og stundum er hringt í fólk. Að sögn Ásgríms svara þeir sem eldri eru alveg jafnvel og þeir sem yngri eru. Hann segir að til að mynda sé ein 92 ára kona í þeirra viðhorfahópi og hún svari reglulega könnunum. Í sama streng tekur Matthías hjá Gallup, eldra fólk sé duglegt að taka þátt í könnunum.