„Þessi aðgerð er enn eitt dæmi þess að þegar ríkið þarf að finna tekjustofna þá er seilst í vasa aldraðra og öryrkja vegna þess að þeir eiga svo erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér,“ segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara.Ein af breytingartillögum meirihluta fjáralganefndar Alþingis er að lækka framlag til almannatrygginga og fleiri þátta um nærri 500 milljónir króna. Verði það samþykkt hækka bætur um 3 prósent en ekki 3,5 prósent eins og gert hafði verið ráð fyrir.
Bætur fylgi launavísitölu
Lækkunin er lögð til vegna breytinga á verðlagshorfum. Nú er spáð 2,8 prósenta verðbólgu á næsta ári en þegar verið var að semja fjárlagafrumvarpið var verðbólguspáin 3,5 prósent. Jóna Valgerður segir að vitnað sé til þess að bætur hafi hækkað meira á yfirstandandi ári en samið var um í kjarasamningum í lok desember í fyrra. Stjórnvöld haldi því fram að laun hafi hækkað um 2,8 prósent, það hafi hins gleymst að taka með í reikninginn 9.700 króna hækkun lægstu launa.„Raunhækkun lægstu launa hafi því numið 5,6 prósentum en bætur almannatrygginga hafi á sama tíma hækkað um 3,6 prósent. Bætur hafa því ekki haldið í við verðlag launavísitölu,“ segir hún.
Brot á lögum um almannatryggingar
Jóna Valgerður segir að þegar stjórnvöld hafi kynnt Landssambandi eldri borgara að bætur myndu hækka um 3,5 prósent hafi LEB gert athugasemdir og bent á að hækkunin ætti að vera í samræmi við launavísitöluna. Hún segir að verði þessi breytingatillaga fjárlaganefndar samþykkt sé hún skýrt brot á 69. grein laga um almannatryggingar því þar segi að bætur eigi að breytast í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skuli taka mið af launaþróun þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.