Konur gegn aldursfordómum

Ashton Applewhite

Bandaríska baráttukonan Ashton Applewhite skrifaði þessa athyglisverðu – og löngu grein um konur og aldur, sem birtist í New York Times fyrir nokkrum vikum og kemur hér í lauslegri þýðingu.

Fyrir nokkrum árum laust hugmynd niður í höfuðið á mér. Það er fjöldi kvenna sem litar á sér hárið til að fela að þær eru að verða gráhærðar. Mörgum þeirra gremst fyrirhöfnin og kostnaðurinn. Þar að auki er þetta er stór liður í því að gera okkur eldri konur ósýnilegar. Þegar ákveðinn hópur fólks verður ósýnilegur, þá gildir það líka um málefnin sem varða hann. Hugsa sér að heimurinn sæi, hvað við erum margar og hvað við erum flottar, hugsaði ég angurvær. Hugsa sér ef við sýndum hver annarri samstöðu. Ár gráa hársins!! Það myndi valda byltingu.

Ég setti þessa hugmynd inná Facebooksíðuna This Chair Rocks. Ég fékk blendin viðbrögð. Ég átti þau skilið. Eitt kommentið hljóðaði þannig „Byrja þú á að láta gráa hárið vaxa fram“. Ég gerði það og lýsti allt hárið. Ég hélt hluta af því hvítu, að hluta vegna þess að ég vildi sýna að ég tæki afstöðu með gráa hárinu og að hluta vegna þess að ég held að það trúi því enginn að brúni liturinn sé ekta. En aðallega kenndi þetta mér eitt. Hvað átti ég með að segja öðrum konum hvernig þær ættu að líta út og hvað þær ættu að gera? Við verðum allar að fá að eldast hver á sinn hátt og á þann veg sem okkur hentar best.

Það er eitt sem við getum allar verið sammála um? Það er erfiðara fyrir konur að eldast en karla. Við berum hitann og þungann af aldrinum og setjum samasem merki milli fegurðar og æsku og æsku og valda – þessi tvöfaldi skammtur af aldursfordómum og kynjafordómum. Við spreðum peningum í yngingarmeðul ýmiss konar. Við reynum að fela aldurinn. Við förum í megrun, líkamsrækt, látum pumpa okkur upp og lyfta ákveðnum líkamshlutum en hylja aðra.

Þetta getur borið góðan árangur. Ég skil vel að svo margar okkar standi í þessu. Ég dæmi engan, ég sver það. En að reyna stöðugt að sýnast yngri er svipað því að samkynhneigð manneskja færi að reyna að sýnast gagnkynhneigð og manneskja sem er dökk á hörund myndi reyna að sýnast hvít. Slík hegðun á rætur að rekja til þess að menn skammast sín fyrir eitthvað sem er ekkert til að skammast sín fyrir. Og hún samþykkir líka þá mismunun sem er undirliggjandi og gerir það að verkum að menn grípa til þessara ráða.

Útlit skiptir máli. Skartgripir skipta máli. En þráhyggja samfélagsins varðandi útlit kvenna, snýst minna um fegurð en um hlýðni við ákveðnar staðalímyndir – og völd. Þegar konur keppast við að halda sér ungum, þá vinna þær í leyni að eigin valdaleysi. Þegar við skilgreinum aðrar konur eftir aldri, þá erum við að viðhalda aldursfordómum, kynjafordómum, útlitsdýrkun og feðraveldinu. Hvað annað getum við verið sammála um? Þetta er slæmur kostur, hann veldur því að okkur mistekst og að við snúumst hver gegn annarri. Það er ástæða þess að þeir fátækustu af öllum fátæklingum heimsins eru eldri konur dökkar á hörund.

En hvað geta konur gert? Sameinast gegn kynjafordómum eins og þær sameinuðust gegn misrétti kynjanna á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Til að hópar eða hreyfingar nái að hafa áhrif, verða þeir sem tilheyra þeim, að ganga gegn straumnum og fagna þeim eiginleikum sem aðrir líta niður á.  Hvort sem það er dökkur húðlitur, samkynhneigð, eða hár aldur. Það þýðir að menn þurfa að breyta viðhorfi sínu til efri áranna og taka aldurinn í sátt í stað þess að neita að horfast í augu við hann.

Þetta er stórt verkefni. Það er hægt að taka hvaða kvennatímarit sem er og hundruð auglýsinga hrópa að okkur. „Hvernig getur þú vænst þess að einhver hafi áhuga á þér, ef þú hættir alveg að hugsa um þig?“  Ekkert af þessari orðræðu er „eðlilegt“,ekkert af henni er óumbreytanlegt og hlutirnir eru að breytast. Bandaríska tískublaðið Allure magazine, bannaði í ágúst orðalagið „anti-aging“ á síðum sínum og mælir með að konur fagni því að þær eldist – hrukkum og öllu sem því fylgir. Ef tískuiðnaðurinn getur gert þetta, þá getum við það. Við getum breytt því hvernig við lítum á okkur sjálfar, hver aðra og lært að meta það sem við sjáum.

Það er hægt að byrja á eftirfarandi:

SKOÐA ÞAÐ SEM VIÐ VITUM: ALDURINN BÆTIR LÍFSGÆÐIN. Hvaða kona heldur virkilega að hún sé verri útgáfa af sjálfri sér þegar hún eldist? Sé ekki áhugaverð, verri í rúminu og skipti ekki lengur máli? Ef eldri konum finnst þetta, hvaðan koma þessar hugmyndir og hvaða tilgangi þjóna þær? Auðvitað missum við snerpu með aldrinum, en aldurinn færir okkur ýmislegt annað svo sem áreiðanleika, sjálfsöryggi, víðsýni og við verðum meðvitaðri um okkur sjálfar. Forgangsröðunin verður skýrari, það verður auðveldara að ráða við tilfinningarnar. Við verðum nægjusamari. Okkur verður meira sama um hvað öðru fólki finnst, sem er mjög frelsandi. Fyrir margar konur eru eftir árin, bestu ár lífsins.

TEMJA SÉR UMBURÐARLYNDI GAGNVART SJÁLFUM SÉR OG ÖÐRUM. Það er gott að minna sig á það góða sem hefur gerst í lífinu, þegar litið er í spegil, í stað þess að tuldra framan í andlitið í speglinum. „Hvað gerðist eiginlega?“.  Það hefur nefnilega margt frábært gerst á þessum tíma. Þessi hrukka frá nefinu niður að efri vörinni? Leikkonan Frances McDormand hlær þegar hún þakkar syni sínum Pedro fyrir hrukkuna vinstra megin í andlitinu, sem myndaðist af því hún sagði svo oft  „Wow“ og „Guð minn góður“. Hún líkir andliti sínu við landakort og neitar að fara í aðgerðir sem myndu þurrka sögu hennar út. Það er óánægja sem heldur milljarða fegrunariðnaði og megrunariðnaði gangandi. Trúnaður örvar kynhvötina. Hvaða vinir þínir eru enn virkir í kynlífinu? Ekki endilega þeir sem eru laglegastir, grennstir eða yngstir, heldur þeir sem þekkja maka sinn og eru heppnir.

HAFNAÐU HGMYNDINNI UM GAMALT FÓLK OG UNGT.  Fordómar etja okkur gegn hver annarri. Mæður sem eru útivinnandi deila um það við mæður sem eru heima, hvor sé betra foreldri í stað þess að taka höndum saman um að útrýma launamisrétti. Ein af ástæðum þess að konur leggja svo hart að sér á vinnustöðum, er sú að það virðast svo fáar stöður vera í boði fyrir þær. Það er ekki fyrir það að konur séu of margar á vinnumarkaðinum, heldur eru stöðurnar of fáar vegna kynja- og kynþáttamisréttis.  Þetta viðheldur valdakerfinu í atvinnulífinu og gerir það erfiðara fyrir konur að vera örlátar og opnar fyrir nýjum hugmyndum.

FÓLK Á ÖLLUM ALDRI KOMI SAMAN TIL AÐ RÆÐA MÁLIN. Hver kynslóð þarf að finna hversu tilgangslaust og skaðlegt það er að óttast það að eldast. Hversu stórum hluta af lífinu verjum við eiginlega í að hafa áhyggjur af því að við séum að eldast? Hvers vegna göngumst við inná það að besta kaflanum í lífinu sé lokið um leið og blæðingunum lýkur, ef ekki bara fyrr? Þegar það er ótalmargt sem sannar hið gagnstæða. Það er auðveldara að hætta að hugsa um aldurinn, deila áhrifum og hugsa jákvætt um það að eldast, ef við eigum vini á ýmsum aldri.

Við eigum val. Við gerum grafið okkur dýpra niður í aldurspælingarnar, eða við getum hent skóflunni. Við getum komist áfram veginn frá samkeppnishugsun til samvinnu, ef við höfum viljann, löngunina og sýnina til þess. Við getum snúið umræðunni um skort og missi yfir í umræðu um valdeflingu og jöfnuð. Og við getum tileinkað okkur þessa aðferðafræði í lífinu. Kvennahreyfingin kenndi okkur að krefjast valds og Hreyfing eldra fólks mun kenna okkur að halda því.

Ashton Applewhite is höfundur „This Chair Rocks: A Manifesto Against Ageism“ og talsmaður hreyfingar gegn aldursmisrétti.

Ritstjórn nóvember 7, 2017 10:14