Niko heimilt að nota vörumerkið Ferðaskrifstofa eldri borgara.

Upp kom deila fyrr í vetur á milli Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og fyrirtækisins Niko sem rekur Ferðaskrifstofu eldri borgara. Félag eldri borgara taldi notkun ferðaskrifstofunnar á heitinu Ferðaskrifstofa eldri borgara og merki sem líktist mjög merki félagsins, til þess fallið að valda ruglingi hjá eldra fólki.  Ferðaskrifstofan sagðist hins vegar lengi hafa boðið ferðir fyrir eldri borgara og benti á að starfsemi þessara aðila væri gerólík, félagið hefði til að mynda ekki leyfi til reksturs ferðaskrifstofu.  Neytendastofa hefur nú úrskurðað í málnu. Hún telur ljóst að þessir aðilar séu ekki keppinautar á markaði enda sé aðalstarfsemi Niko sala á pakkaferðum og ferðatengdri þjónustu og félagið hafi ferðaskrifstofuleyfi frá þar til bæru yfirvaldi, sem FEB eða Ferðaklúbbur FEB hafi ekki. Síðan segir orðrétt í úrskurðinum.

Að mati Neytendastofu eru nokkur líkindi með heitunum en stofnunin getur ekki fallist á að líkindi með myndmerkjum þeirra séu svo mikil að hætta sé á ruglingi milli þeirra. Þá verður ekki framhjá því litið að heiti beggja aðila eru afar almenn og lýsandi fyrir starfsemi þeirra, hvort sem litið er til einstakra orða í heitunum eða samsettra heita.

Neytendastofa sér ekki ástæðu til frekari aðgerða í þessu máli, en hægt er að áfrýja því til úrskurðarnefndar neytendamála eða höfða dómsmál, sé Félag eldri borgara ósátt við niðurstöðuna.

 

Ritstjórn júní 15, 2020 09:04