Fjölgun eldra fólks er ein stærsta samfélagsbreyting sem Íslendingar munu standa frammi fyrir á næstu árum og áratugum. Á Umræðunni á vef Landsbankans fjallar Ari Skúlason í fimm greinum um áhrifin sem þetta mun hafa á samfélagið og á einstaklinga og um möguleg viðbrögð við þessum miklu breytingum. Við grípum hér niður i eina grein Ara þar sem hann fjallar um þátttöku eldra fólks á vinnumarkaði. Greinin ber yfirskriftina Vinnumarkaðurinn hefur ekki brugðist við lengri lífaldri
Lífeyristökualdur hefur lítið breyst á síðustu áratugum. Hefð er fyrir því að líta á virk eftirlaunaár sem stutt skeið frá því að fólk hættir að vinna fram til þess að heilsan fer að gefa eftir. Nú er þetta tímaskeið að verða jafn langt og æskuárin eða sá tími sem fólk er á virkum vinnualdri – í raun einn þriðji af ævinni. Hjá þeim sem eru við góða heilsu er þetta tímabil því langt og fólk vil skipuleggja þennan tíma öðruvísi en áður var og lifa öðruvísi lífi en hefð er fyrir. Það er því þörf á gagngerri endurskoðun á viðhorfum til öldrunar og lífs eftir 65 ára aldur.
Eldra fólk hefur meiri vinnugetu en áður var og getur því skilað meiru. Sumir þurfa að vinna lengur vegna fjárhagsstöðu, en hjá öðrum stendur hugurinn einfaldlega til þess. Síðan eru þeir auðvitað til sem ekki geta hugsað sér að vera áfram á vinnumarkaði eftir að eftirlaunaaldri er náð. Þarna er við ramman reip að draga. Hefðbundin skipting fullorðinsáranna í menntun, vinnu og eftirlaunaár er mjög rótgróin í hugsunarhætti okkar.
Hefðbundinn hugsunarháttur er þannig að eftir að fólk kemst á eftirlaunaaldur hætti það að skila nokkru til samfélagsins og fari í stað þess að fá bætur frá því, sbr. orðin eftirlaunaþegi eða lífeyrisþegi sem eru heiti sem samfélagið gefur þessu fólki. Haldi fólk hins vegar áfram að vera virkt á vinnumarkaði með einhverjum hætti verða þessi skil ekki eins skýr og verið hefur. Eins og umræðan hér á landi gengur út á er besta leiðin til þess að eldra fólk geti örugglega séð fyrir sér eftir að vinnualdri lýkur að vinna lengur, hugsanlega í hlutastörfum. En leiðin að fjárhagslegu öryggi í ellinni getur líka legið í gegnum bættar aðferðir á fjármála- og tryggingamarkaði til þess að skapa fólki tekjustreymi, en meira um það síðar.
Viðhorfin varðandi vinnualdur hafa verið mismunandi. Á eftirstríðsárunum var eldra fólk hvatt til aukinnar vinnu vegna þess að uppbyggingin krafðist margra handa. Á áttunda áratugnum, á tímum olíukreppu og atvinnuleysis, var eldra fólk hvatt til þess að hætta störfum snemma til þess að búa til rými fyrir yngri kynslóðir. Þá hættu margir að vinna fyrr en ella til þess að hleypa yngra fólki að.
Það er erfitt að dæma um hvort eldri einstaklingar séu lakari starfsmenn en þeir sem yngri eru. Svarið er nokkuð augljóst þegar um er að ræða líkamlega erfið störf, þar hafa þeir yngri örugglega vinninginn. En á mörgum sviðum minnkar getan ekki með aldrinum og reynsla verður seint metin til fjár. Eldra fólk vinnur stundum hægar, en á móti gerir það mögulega færri mistök. Getan til vélrænna starfa minnkar eflaust með aldrinum, en þegar störfin krefjast félagslegra hæfileika, t.d. í fjármálaráðgjöf, er ekki ólíklegt að getan aukist með aldrinum.
Ísland er með mikla sérstöðu hvað atvinnuþátttöku varðar, en Íslendingar byrja að vinna fyrr á ævinni og hætta mun seinna. Sé t.d. litið á samanburð á atvinnuþátttöku 65 ára og eldri innan OECD sést að sérstaða okkar er mikil. Yfir 40% fólks eldra en 65 var á vinnumarkaði hér á landi 2016. Næst mesta atvinnuþátttakan var í S-Kóreu og Kólumbíu þar sem hún var í kringum 30%, en þar er efnahagsleg staða fólks mun verri en í Evrópu. Atvinnuþátttaka eldra fólks á hinum Norðurlöndunum er verulega minni en hér, hæst í Noregi um 19%. Þrátt fyrir þessa stöðu hér á landi, sem einhvern veginn er nátengd þjóðarsálinni, er sífellt uppi umræða meðal eldri aldurshópa um aukna möguleika til vinnu.
Skiptihagerfið hefur víða aukið möguleika eldra fólks til þátttöku á vinnumarkaði, oft á eigin vegum eins og að keyra leigubíl hjá Uber eða vinna ýmis þjónustustörf. Vinnuveitendur gamla hagkerfisins hafa hins vegar verið seinir á sér að aðlagast því að fólk hefur yfirleitt getu og vilja til þess að vinna lengur. Þarna vinna hefðir og venjur innan fyrirtækja á móti. Margir eru á því að meiri blöndun eftir aldri í hópum sé heppilegri en að byggja einungis á einni kynslóð. Ýmis fyrirtæki telja sig hafa notið góðs af þessu. Hér á landi er góð reynsla af slíkri blöndun hjá Byko og erlendis hjá t.d. Deutsche Bank.
Umræða um þessi mál hefur aukist hér á landi og má í því sambandi nefna Gráa herinn sem starfar á vettvangi Félags eldri borgara.