Saga Elfu Gísla er merkileg og óvenjuleg. Eftir að hafa upplifað bæði sorgir og sigra á Íslandi yfirgaf hún landið og hefur búið erlendis í 30 ár. En nú er Elfa á leiðinni
heim og núverandi eiginmaður hennar með henni. Elfa missti fyrsta eiginmann sinn og barnsföður, Kristján Víkingsson lækni 1982. Elfa var þá 26 ára gömul og áttu þau saman einn son, Karl Axel sem var þá 3 ára. Hún er núna gift Thomas Richardson en hann starfar hjá slökkviliði Seattleborgar, er „battalion chief in Seattle fire department”. Hann er einnig meðlimur í FEMA ‘Fedral Emergency Management Agency´ og er kallaður til um öll Bandaríkin þegar meiriháttar hörmungar eiga sér stað. Elfa hefur því tvisvar verið gift mönnum sem starfa við að bjarga lífum fólks. Í millitíðinni giftist hún Jóni Óttari Ragnarssyni en það hjónaband stóð stutt. Elfa tók samt þátt í stofnun og uppbyggingu Stöðvar 2 en eftir skilnaðinn við Jón flutti hún af landi brott.
Hitti yndislegt fólk í Kanada
Elfa fór til Kanada þegar hún ákvað að hún þyrfti á tilbreytingu að halda og þar kynntist hún félagsskap sem hún segir að hafi hjálpað sér upp úr þyngslum sem hún var sokkin ofan í. Starfið í þessum félagsskap gekk út á að meðlimirnir nýttu hvern annan til að skilja tilfinningar sínar, vinna úr þeim og skilja af hverju vanlíðan stafaði. Margir úr þessum hópi eru enn hennar bestu vinir. Núverandi eiginmanni sínum kynntist Elfa aftur á móti þegar hún fór yfir til Bandaríkjanna sem hún þurfti að gera á meðan hún var að bíða eftir landvistarleyfinu til Kanada. Hún er með græna kortið í Bandaríkjunum eftir að hafa búið þar með móður sinni sem barn. Svo
þegar hún fór yfir til Seattle kynntist hún Thomas Richardson. Þau voru góðir vinir í 8 ár en þá var komið að kaflaskilum. Þau giftust fyrir 20 árum og nú er Tom tilbúinn að flytja með Elfu til Íslands.
Stofnaði skemmtistað í litlum bæ
Elfa og Tom búa í litlum bæ norður af Seattle sem nefnist Conway. Þar stofnuðu þau skemmtistað sem þau nefndu The Conway Muse en hægt er að sjá heimasíðu skemmtistaðar Elfu hér: https://conwaymuse.com/. Hún hefur nú rekið staðinn í 15 ár í gamalli hlöðu sem hún og Tom gerðu upp. Á skemmtistaðnum eru fjögur svið og veitingastaður. Þarna eru haldnir tónleikar, myndlistarsýningar, leiksýningar, brúðkaup og fleira.
„Þetta er búinn að vera geysilega gefandi tími en óskaplega annasamur. En af því það er svo gefandi að vinna með skapandi fólki þá kvarta ég ekki,” segir Elfa og brosir. „Ég og Stella, besta vinkona mín, fluttumst saman frá Kanada 1995 og stofnuðum „Murder mystery dinner theater” Við kölluðum okkur ‘The Murder Mistresses”, skrifuðum sjö leikrit með mismunandi tema og ferðuðumst út um allt fylkið með þessar sýningar. Við stofnuðum líka barnaleikhús og settum upp marga fræga söngleiki með eins mörgum
börnum og við gátum. Þar fyrir utan setti ég upp margar vinsælar Kabarett sýningar, kenndi leiklist, vann við kvikmyndagerð og sat í stjórn ýmsa listamannahópa.
Kom auga á gamla hlöðu
Svo kom Elfa auga á gamla hlöðu í niðurníðslu og sá strax að þetta væri algerlega fullkomið fyrir leikhúsin þeirra. „Ég fór strax á flug og byrjaði að gera hlöðuna upp. Þetta tók auðvitað allt of langan tíma og kostaði
allt of mikinn pening eins og vill verða og margir héldu að ég væri orðin kolklikkuð að gera þetta,” segir Elfa hlæjandi og bætir við að þeir hafi kannski haft rétt fyrir sér. Mesta vinnan var nú samt veitingahúsið því ég þurfti auðvitað að hlaupa í skarðið í öll störf ef urðu forföll. Við vorum með allskonar veislur og sýningar en þó mest tónleika. Ég hélt utan um allt saman og því lítill tími til að vera með leikhúsin okkar. Ég studdi samt allar listir eins og ég gat og er þakklát fyrir að hafa getað gert það í eins miklum mæli og raun varð. En svo kom covid og þá fann ég vel hvað ég var orðin langþreytt eftir öll þessi ár. Við keyptum fallegt sumarhús við sjóinn við hliðina á bestu vinkonu minni Stellu og ég fór þangað í einangrun. Þetta reyndist verða rólegur og gefandi tími svo ég kvarta ekki yfir covid,“ segir Elfa.
Léttirinn mikill að koma til Íslands
„Ástandið úti í Bandaríkjunum er búið að vera svakalegt undanfarið, bæði forsetakosningar og covid svo léttirinn við að koma til Íslands er óumræðilega mikill. Ísland er í mínum huga „besta land í heimi” og mér hugnast vel að flytja heim,” segir Elfa og brosir.
Keyptu íbúð í Kópavogi
„Við komum heim í nóvember í afmæli Kristjáns, fyrsta barnabarnsins míns og svo fæddist Elvar, annað barnabarnið í byrjun janúar. Við Tom keyptum þá litla íbúð í Kópavogi en hann þurfti að fara aftur út til að vinna, og svo þurfum við að ganga frá lausum endum. Covid hefur breytt ástandinu þannig að nú er margt óljóst í bili. Eins og er sé ég fyrir mér að vera bæði á Íslandi og Bandaríkjunum á meðan hann þarf að vinna.“
Var í leiklistarskólanum með skemmtilegum hópi
Elfa segir að hún hafi alltaf vitað að hana langaði að koma heim til Íslands, bæði þegar hún var unglingur og svo núna. Leiklistin togaði alltaf í hana og hún fór í Leiklistarskóla leikhúsanna sem varð síðar Leiklistarskóli Íslands. Hópurinn hefur farið tvisvar saman í heimsókn til Elfu til Bandaríkjanna og síðast til að setja upp gamanleikrit í Conway Muse.
Áður en Elfa fór til Kanada hafði hún leikið bæði í Þjóðleikhúsinu og Iðnó. „Ég hafði líka verið í bíómyndum og sjónvarpsþáttum, leikstýrt, skrifað tvær barnabækur Sollu Bollu og Támínu og á Stöð 2 var ég m.a. að kaupa inn barna-, fjölskyldu- og tónlistarefni og það skemmtilegasta var að leika Beggu Frænku sem tók við af Afa þegar hann fór í frí. Mér þótti líka mjög gaman að talsetja teiknimyndirnar en bekkjarsystir mín úr leiklistarskólanum Guðrún Þórðardóttir sá um innlenda
efnið. En svo þótti mér gott að fara bara af landinu og byrja upp á nýtt annars staðar,” segir Elfa. Hún segir að það sé óskaplega gaman að sjá alla hæfileikaríku listamenn sem eru á Íslandi. Og ef gæfan verður henni hliðholl ætlar Elfa að setja upp kabarett sýningar og „Murder mystery dinner theatre” og hvern langar ekki að prófa slíka kvöldstund!
Kom rótlaus inn í fullorðinsárin
Elfa lenti í því sem barn að þurfa að flytja oft og kom því svolítið rótlaus inn í fullorðinsárin. Móðir hennar giftist Bandaríkjamanni og fluttist út með honum þegar Elfa var fimm ára. Hún fór þá til föðurömmu sinnar og -afa sem bjuggu í Keflavík sem hún segir að hafi verið óskaplega góð við sig. Blóðfaðir Elfu er Gísli Alfreðsson leikari og fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri. Fimm ára gömul missti hún því um leið móður sína, 2 yngri hálfbræður og fósturföður sem hún kallaði alltaf pabba. Hún fluttist svo til móður sinnar í Bandaríkjunum níu ára gömul. Þar eignaðist hún fjögur systkni í viðbót sem nú búa öll hamingjusöm á Íslandi.
Skemmtilegur aldur
Tom er átta árum yngri en Elfa og henni þótti fráleitt til að byrja með að giftast honum. „Þetta átti aldrei að verða neitt. Mér þótti hann vera mjög góður „drengur” á sínum tíma og þótti gott að vera vinkona hans.
Svo var hann líka myndarlegur en mér þótti hann allt of barnalegur,” segir Elfa og hlær. „En svo kom hann einn daginn með hring og ég féll kylliflöt. Síðan höfum við verið hjón og gert ótrúlega skemmtilega hluti saman og nú er hann að flytja með mér til Íslands.”
Elfa segir að hún sé að upplifa mjög sterkt hvað það er skemmtilegt að vera á þessum aldri sem hún er nú á. „Ef við höldum heilsu og höfum borið gæfu til að sættast við fortíðina þá eru tækifærin svo mörg. Við þurfum bara að koma auga á þau,” segir Elfa og brosir og hlakkar til framtíðarinnar á Íslandi.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.