Ellilífeyrir hækkaði um 3,5% um áramót

Fjárhæðir greiðslna TR hækkuðu um 3,5% um áramótin, eða 1.janúar 2020. Ellilífeyrir verður að hámarki  tæpar 256.800 kr. á mánuði. Ríflega 33 þúsund manns fá greiddan „ellilífeyri“ frá Tryggingastofnun, eins og það heitir í lögunum. Samkvæmt ársskýslu stofnunarinnar frá 2018 koma um 45% tekna „ellilífeyrisþega“ frá TR en um 35% frá lífeyrissjóðum.  Þeir sem eru 65 ára og eldri rétt á greiðslum frá TR að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Á heimasíðu Tryggingastofnunar segir meðal annars.

Ellilífeyrir

  • Ellilífeyrir er að hámarki 256.789 kr. á mánuði.
  • Heimilisuppbót er að hámarki 64.889 kr. á mánuði.
  • Ellilífeyrir og tengdar greiðslur eru að hámarki 321.678 kr. á mánuði hjá þeim sem búa einir (með heimilisuppbót).
  • Almennt frítekjumark skattskyldra tekna er 25.000 kr. á mánuði.
  • Sérstakt frítekjumark atvinnutekna er 100.000 kr. á mánuði.

Þeir sem eru 65 ára og eldri og hafa búið á Íslandi í minnst þrjú ár eiga einhvern rétt á ellilífeyri. Í reiknivél er hægt að slá inn mismunandi forsendur og sjá niðurstöðu. Þeir sem eru að hefja töku ellilífeyris eru hvattir til að kynna sér vel þá kosti sem í boði eru.

Fylgiskjöl með umsókn 

Þegar sótt er um ellilífeyri þarf að skila inn umsókn en auk þess þarf að skila inn eftirtöldum gögnum:

  • Staðfesting á að sótt hafi verið um hjá lífeyrissjóði
  • Tekjuáætlun
  • Upplýsingar um nýtingu skattkorts

Hægt er að skila inn öllum gögnum í gegnum Mínar síður.

Ritstjórn janúar 2, 2020 16:58