ELSKU HJARTANS VINUR MINN!

Í setningunni “Elsku hjartans vinur minn” felst mikil hlýja. Af þessum fjórum orðum er orðið “hjartans” líklega atkvæðamest. Sé það tekið út úr setningunni stendur eftir falleg setning en með orðinu verður til annað. Þannig tölum við gjarnan við börn af því okkur þykir svo undurvænt um þau.

Þeir, sem hafa fengið tækifæri til að sjá hjarta sitt slá, t.d. í ómskoðun, hafa orðið vitni að elju þessa líffæris. Dugnaðurinn og krafturinn er ómældur þegar það dælir blóði okkar til annarra líffæra sem öll vinna sitt mikilvæga verk en án hjartans geta þau ekkert. Mikilvægi “hjartans” er ómælt og það er okkar besti vinur.

Rannsóknin nær yfir 30 ár

Nýverið fór fram umfangsmikil hóprannsókn á fólki sem náð hefur miðjum aldri og yfir með tilliti til hjarta- og æðasjúkdóma og áhættuþátta þeirra. Sjúkdómar tengdir hjartanu eru algengasta dánarorsök á Íslandi en af því áhættuþættirnir eru svo margir getum við áhrif á þá. Og af því við getum haft þessi áhrif sjálf er svo sérkennilegt að allir skuli ekki einmitt gera það. En rannsóknin leiddi í ljós að það er öðru nær.

Í rannsókn Hjartaverndar var hægt að meta áhrif hreyfingar og kyrrsetu hjá þversniði þjóðarinnar í meira en þrjátíu ár. Dánarorsök var skoðuð og áhrif hreyfingar metin.

Hagnaðarvon

Áhættuþættir eins og  reykingar og kyrrseta eru algerlega ókeypis og meira að segja er í því fjárhagsleg hagnaðarvon. Það er eiginlega spaugilegt að hugsa til þess að bara það að hætta að kaupa tóbak og fara í göngutúra reynist fólki erfitt þegar heilsufarslegi hagnaðurinn er eins og að vinna í happdrætti, svo litla vinnu þurfum við að framkvæma.

Orkuþörf

Orkuþörf miðaldra karlmanns sem vegur 70 kg og er í kyrrsetustarfi, ekur í bíl allra sinna erinda og ver kvöldunum fyrir framan sjónvarp, er um 2300 kkal á dag. 30 mín. röskleg ganga eykur brennslu þessa manns um 150 kkal á dag. Bara þessi daglega aukahreyfing jafngildir 7.8 kílóum á ári.

Þeir sem átta sig á að hægt er að græja sig með útbúnað til að geta hlustað á útvarp eða skemmtilega sögu verða brátt háðir því að fara út að ganga því fyrir utan hversu skemmtilegt það reynist er heilsufarslegi ávinningurinn ótvíræður. Fjárfestingin í slíkum útbúnaði margborgar sig.

Skilgreining á hreyfingu

Í gögnum Hjartaverndar var spurt um reglubundna líkamlega áreynslu sem stunduð var í frítíma.

Kyrrsetufólk: Þeir sem sögðust hreyfa sig minna en 1 klst. á viku.

Ástundun hreyfingar: Þeir sem sögðust hreyfa sig 1-5 klst. á  viku.

Rannsóknir Hjartaverndar benda til verulega  jákvæðra tengsla reglubundinnar frítímahreyfingar og færri dauðsfalla vegna kransæðastíflu. Áhrif á heildardánarlíkur eru því veruleg. Nú þarf ekki lengur  vitnanna við?

 

Þeir sem vilja kynna sér niðurstöður úr rannsóknum Hjartaverndar geta farið inn á þessa slóð:

https://hjarta.is/wp-content/uploads/2019/03/Hreyfdu_Thig.pdf

 

Heimildir fengnar úr bæklingi Hjartaverndar: Hreyfðu þig fyrir hjartað

 

 

 

Ritstjórn ágúst 13, 2020 10:44