Engar uppákomur, engar veislur

Ellert B. Schram

Jólahugleiðing

Ég sit við tölvuna á annan sunnudag í aðventu og út um gluggann sé ég fólk á göngu með börnin sín og hundana. Veðrið er dásamlegt, stillt, kalt og sjórinn lygn. Hvít fjöllin blasa við mér og hvað mig langar á skíði núna.

Ástandið er undarlegt, engar uppákomur, engar veislur, engin mannamót og maður getur meira að segja ekki sótt jarðafarir. Og svo er maður með tusku fyrir andlitinu þegar börnin og barnabörnin, vinir og kunningjar líta við.

Í Melabúðinni eru allir með tusku fyrir andlitinu líka og ég er hættur að þekkja nokkurn mann. Ég sit fundi og aðrar uppákomur og samræður við tölvuskjáinn. Ég sem hef verið fundaglaður maður alla mína ævi og lifi og hrærist í samskiptum manna á milli.

Já, þetta eru erfiðir dagar. En við skulum samt ekki gefast upp. Hristum af okkur einangrunina, áður en yfir lýkur. Við eigum enn eftir dýrmætan tíma, við njótum jólanna og næstu ára, þegar bóluefni hjálpar öllum heiminum við að tortíma veirunni, og við getum kysst og klappað fólkinu okkar, vinum okkar og börnum.

Við höldum jól og fögnum nýju ári. Við, sem eru komin til ára okkar gefumst ekki upp. Við lifum núna og áfram.

Gleðileg jól og gott nýtt ár, þið öll sem þessa kveðju lesa.

Stöndum saman.

Kveðja

Ellert B Schram

 

Ellert B. Schram desember 23, 2020 14:30