Örlagaríkir dagar

Ellert B. Schram

Ellert B Schram formaður Félags eldri borgara í Rvík og nágrenni skrifar:

Þegar þetta er skrifað eru ýmsar örlagaríkar ákvarðanir í loftinu, sem kunna að vera mikilvægar, hvað eldri borgara snertir. Verkalýðshreyfingin hefur sýnt á sín spil og verkföllum er hótað, ef ekki verður komið til móts við kröfur hennar. Hækkanir á launum bankastjóra hafa ekki hjálpað til, sem og launahækkanir kjararáðs til háttsettra starfsmanna hjá ríkinu. Alþýðufólk hefur skrifað upp á kröfur verkalýðsforystunnar og verkföllum er hótað, nema kröfur nái fram. Auk hækkana á launagreiðslum  hafa verið lagðar fram tillögur um skattalækkanir sem ekki hafa fallið í jákvæðan jarðveg.

Staðan er sú að að miðað við þann ellilífeyri sem öldruðum stendur til boða og 4.3% hækkun á 139.500 kr, samkvæmt fjárlögum fyrir næsta ár. Og ekki gert ráð fyrir neinum hækkunum miðað við fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar. Jú, starfshópurinn sem skipaður var að beiðni Félags eldri borgara hefur skilað skýrslu, sem komst að þeirri niðurstöðu að þrjú til fjögur þúsund eldri borgarar séu vel undir fátæktarmörkum, án þess þó að taka fram, hvenær og hvernig komið verður til móts við þann hóp aldraðra sem verst stendur.

Félag eldri borgara í Reykjavík hefur gengið á fund VR, Eflingar og ASÍ, og beðið um að kjör eldri borgara verði með í þeim kröfum sem verkalýðshreyfingin leggur fram. Okkur hefur verið vel tekið í þeim samtölum. Einnig bendi ég á, að á aðalfundi Félags eldri borgara í Rvík í lok febrúar var samþykkt fimm hundruð þúsund króna framlag til Gráa Hersins, til að geta unnið að og undirbúið málaferli, sem byggð yrði á þeirri forsendu að lög og reglur hafi verið brotin af hálfu ríkisins gagnvart högum eldri borgara. Þannig er staðan núna.

Ég minni á að þegar ég fékk tækifæri á alþingi til að ræða og benda á aðstöðu þeirra eldri borgara, sem minnst hafa á milli handanna, og búa við hungurlús, langt neðan við framfærslumið, fékk ég klapp  og jákvæð viðbrögð utan úr sal. En þau voru loðnari þegar ég fékk andsvör úr sama ræðustól.

Þar fékk ég meðal annars þau skilaboð í ræðu fjármálaráðherra „að þessi hópur (starfshópurinn) er að störfum til að fara yfir það hvar við getum gert breytingar sem kemur að notum í anda þess sem hv. þingmaður er hér að telja fram og um það snýst vinnan. Fjármálaáætlun lýsir því síðan hvert svigrúmið er til framtíðar“.

Svarið var því miður ekki beinskeytt. Enda úr og í. Það er eins og hagur eldri borgara snúist um það hvort og hvernig ríkið eigi að hafa efni á að hækka ellilíeyrisgreiðslur. Fyrst að skoða eitthvað annað en svo að athuga hvort eitthvað sé eftir í pottinum. Við skulum gera eitthvað ef við höfum efni á því, segja stjórnvöld. Ríkið hefur væntanlega nóg fyrir embættismennina, bankastjóranna og alþingismennina, rétt eins og velríkir hafi forgang að þeim peningum sem ríkið fær frá samfélaginu í sköttum og aðgönguverði, tollum og gjöldum. Gamlingjarnir fá það sem eftir er. Gamla fólkið er á botninum í ruslatunnunni. Það fer sem sagt allt eftir svigrúminu. Ef ég skil þetta rétt.

Ellert B. Schram mars 11, 2019 07:56