Hvernig Gulli stal stöðunni

Ellert B. Schram

Ellert B Schram Formaður félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni skrifar:

Ég var að lesa viðtal við Gunnleif Gunnleifsson, markvörð í Kópavogi sem er orðinn 44 ára, og þykir gamall í fótbolta. Gunnleifur hefur leikið 294 leiki í efstu deild. Hann er enn og aftur búinn að semja við félag sitt um áframhald í markinu hjá Breiðablik. Hann hefur gaman að þessu og hann getur enn þá varið í markinu, í toppslagnum í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. „Ég geri mér grein fyrir því að ég er ekki að fara að spila að eilífu, en ég er hins vegar einbeittur á líðandi stund og hlakka bara til að spila næsta leik. Það getur ýmislegt gerst í lífinu og af hverju ekki að njóta alls þess, á meðan maður getur“, segir Gunnleifur, í samtali við Morgunblaðið.

Gætum við ekki fleiri, haft Gunnleif að fyrirmynd? Láta ekki aldurinn draga úr okkur kjarkinn, meðan við höfum heilsu, getu og ánægju, að sinna því starfi sem við elskum. Því ekki það? Til þess er lífið, til að njóta þess. Sinna því sem maður getur. Gera það sem maður nýtur og kann.

Í starfi mínu hjá eldri borgurum hef ég stundum stungið inn hausnum til að fylgjast með því sem félagsvinir og meðlimir sækjast eftir, í leik, söng, fræðslu, dansi,  skákinni og spilunum. Það eru sífelldar heimsóknir í Stangarhyl af fólki, sem nýtur þess sem boðið er upp á. Og þeim fjölgar með hverju árinu sem sækjast eftir ferðalögum innanlands og utan. Eru með og taka þátt.

Mér finnst eins og eldri borgarar nú seinni tíð, átti sig betur á því að lífsgangan er ekki eilíf. Okkur, gamla fólkinu, hefur verið boðið upp á margvíslega tilvist, lengri en hjá fyrri kynslóðum og ævinni er ekki lokið, þótt þú verðir áttræður eða níræður. Nema þú gefist upp. Vegna heilsuleysis og fátæktar. Gamla fólkið er ekki og á ekki að vera neinn baggi á samfélaginu né á sjálfu sér. Við eigum að geta haldið áfram að njóta lífsins og standa áfram í markinu, eins og Gunnleifur. Er eins og er.

Eftir að hafa haft samskipti við eldri borgara í gegnum starf mitt að undanförnu, gleðst ég í yfir því hvað fólk á þessum aldri kann að nýta sér „frelsið“ og forgjöfina og taka sér fyrir hendur að læra, keppa, ferðast, lesa, hjálpa og láta til sín taka, í víðfeðmum verkefnum. Það er ekki bara sér sjálfu og okkur til ánægju, heldur til örvunar og gleðinnar og framtaksins í þágu samfélagsins og umhverfisins. Kannski get ég líka sjálfur, minnst á þá forvera mína í formannsstóli FEB, sem voru tilbúnir i slaginn, fyrir hönd eldri borgara  og vekja athygli á getu þeirra og tilveru. Þeir vissu hvað þeir voru að gera. Því geri ég að umtalsefni ákvörðun markmannsins í Kópavogi, Gulla, vinar míns. Hann heldur áfram. Tíu árum eftir að hann á að vera hættur. Það er það sem við eigum að gera, kæru jafnaldrar. Halda áfram.

Lífið felst í því að vera með. Taka stöðuna, ef hún býðst.

Ellert B. Schram júlí 22, 2019 07:38