Milli lífs og dauða

Ellert B. Schram

Ellert B. Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni skrifar

Tvennt hefur undanfarið sumar og haust, sett svip sinn á líf mitt og viðfangsefni. Annarsvegar að taka þátt í björgun Félags eldri borgara í Reykjavík frá gjaldþroti vegna mistaka á verðlagi íbúða sem félagið stóð fyrir, og svo hitt að mæta í jarðaförum látinna vina minna, síðustu dagana og vikurnar. Fólk sem var jafngamalt mér og jafnvel yngra. Það var líka meining mín, í upphafi ársins að skrifa bók endurminninga, um ævi mína. Allt hefur þetta rekist hvert á annað og útgáfa bókarinnar dregst vegna anna. Svo hafa veikindi í fjölskyldunni, tekið sinn tíma og seinkað frágangi ævisögunnar.

Var það ekki Mac Kaine sem sagði: tvær leiðir koma til greina: „að hrökkva upp af , eða lifa lengur“. Á örfáum vikum, nú í haust, hef ég farið í fimm jarðafarir, fólks sem var á mínum aldri og jafnvel yngra. Skólabræðurnir og íþróttavinirnir, Friðjón Friðjónsson, Elías Hergeirsson, Sigurður Dagsson, Atli Eðvaldsson og svo hún  Sonja Backmann, eiginkona Birgis Ísleifs fyrrum leiðtoga sjálfstæðismanna hér í borginni. Andlát þeirra og annara, sem eru jafnvel enn yngri, segir okkur að það er ekkert sjálfsagt að við lifum lengi. Hvað mig varðar náði ég því í þessum mánuði að halda upp á áttræðisafmæli mitt og er bæði þakklátur og glaður með þá hamingju og heppni að njóta ennþá lífsins og góðrar heilsu. Það er ekki sjálfsagt.

Ég hef, þessi síðustu ár, sem formaður félags eldri borgara, lagt mig fram,  staðið fyrir og tekið þátt í margvíslegri þjónustu og uppákomum, í þágu eldri borgara, sem vel hefur að mörgu leyti tekist. Ennfremur hef ég lagt mig fram um að stjórnvöld stígi skref um hækkun á ellilífeyri Almannatrygginga, til handa eldri borgurum, sem búa við fátækt á efri árum.  Það hefur ekki tekist sem skildi og eru kannske mestu vonbrigðin í viðleitni minni til að koma til móts við aldraða og þá sem berjast milli lífs og dauða.  Við ráðum því ekki  sjálf hvað við endumst í árum og lífið er stundum stutt og dapurt. En til hvers erum við, sem lifum lengur, til annars, en að hjálpa þeim sem illa standa. Það er hlutverk okkar og skylda.  Það er baráttan um lífið eða dauðann.

 

 

 

 

 

Ellert B. Schram október 20, 2019 23:57