Er frelsið fólgið í að einhver þarfnist manns?

Nokkrum árum eftir að faðir minn lést fékk móðir mín sér hund. Fremur smávaxinn, feitan, brúnan og hvítan hund af Corgi kyni, skrifar Martha Slaugter á vefinn Considerable.com.

Hundurinn var kallaður Snati þegar móðir mín eignaðist hann en hún ákvað að nefna hann Tomma. Tommi var erfiður viðureignar. Hann gekk um hús móður minnar eins og herforingi. Hún var sú eina sem hann hlýddi, ef aðrir nálguðust hann urraði hann og glefsaði í fólk. Þeir sem elska hunda myndu segja að hann hafi verið að vernda móður mína en þeir sem þola þá ekki  hefðu beðið hana um að loka hann inni væru þeir að koma í heimsókn.  Mamma hefði sagt: Tommi, ég veit að þú ert slæmur hundur, en þú ert hundurinn minn og einskis annars. Síðan hefði hún klappað honum blíðlega.  Tommi og mamma voru alltaf saman. Hann fór allt með henni. Hann elskar að fara í bíltúr, sagði mamma. Saman fóru þau í matvöruverslanir, á markaði, í gróðrarstöðina og í klippingu.  Þau fóru reglulega á hamborgarastað. Hún fékk sér kjúklingasamloku en Tommi fékk hamborgara. Ég veit að hann er feitur, sagði hún en hann elskar hamborgara. Þegar móðir mín varð níræð, var hún svipt ökuréttindum og það reitti hana til reiði.  Þú veist ekki hvernig það er að vera bíllaus, sagði hún við mig. Maður er sviptur frelsinu. Ég bauð henni að skutla henni hvert á land sem væri og þar með hófst nýr kafli í lífi mínu. Ég var sjálf að eldast og það fór í taugarnar á mér að  að eyða tímanum í að borða kjúklingasamloku með móður minni og Tomma þegar ég hafði ætlað mér að gera eitthvað allt annað.  Eftir að mamma var komin á tíræðisaldurinn gamlaðist hún hratt. Hún varð sjóndöpur og heyrði illa. Hún endurtók í sífellu sömu hlutina og týndi hlutum. Þegar ég kom í heimsókn til hennar stóðu hún og Tommi hlið við hlið í dyragættinni þegar ég kvaddi og horfðu á mig fara mína leið. Ég man í eitt að síðustu skiptunum sem ég heimsótti móður mína eldaði ég kvöldverð fyrir hana. Fyrr um daginn höfðum við farið í göngutúr, á flóamarkað, til læknis, í klippingu og í matvöruverslun. Við höfðum gert allt sem hún hafði beðið mig um að gera.  Þegar ég fór kallaði ég, sjáumst á morgun í kveðjuskyni og bar þá von í brjósti að það léti mömmu líða betur. Ég fékk sektartilfinningu þegar ég fór. Daginn eftir bauð ég mömmu að dvelja hjá mér í nokkra daga. Ég annaðist hana en á sama tíma minnkaði ég samskipti mín við annað fólk. Aðfinnslur hennar fóru í taugarnar á mér. Til dæmis þegar hún sagðist ekki skilja hvers vegna ég væri ekki með gluggatjöld í eldhúsinu. Þegar hún minnti mig á að það þyrfti að fægja silfrið og sópa gólfið. Þrátt fyrir aðfinnslur hennar fann ég að hún var ánægð. Hún var örugg og ekki einmana.  Tommi var sömuleiðis hamingjusamur hundur. Ég teppalagði stigann svo hann ætti auðveldra með að komast milli hæða á sínum stuttu digru löppum.  Ég sá hversu slæmt það var að verða gamall og hrumur og fann til með móður minni. Ég reyndi hvað ég gat að vera þolinmóð gagnvart henni og var henni eins góð og ég gat. Ég taldi mér trú um að ef ég væri henni góð yrði einhver mér góður þegar ég yrði gömul.

Tommi svaf undir rúminu hjá henni en að fjórtán dögum liðnum fór hún aftur til síns heima. Þau stóðu í dyragættinni og horfðu á mig setjast upp í bílinn og aka í burtu. Ef ég hefði vitað að móðir mín væri að deyja hefi ég ekki farið, ég hefði tekið hana til mín. Viku síðar var hún öll.  Hún var gömul en hún var nokkuð sterk. Ég sá dauða hennar ekki fyrir og ég fékk samviskubit yfir því að hafa ekki verið tilbúin til að búa með móður minni.  Ég hafði ætlað mér að finna einhvern til að dvelja hjá henni. Henni líkaði hugmyndin illa en féllst samt sem áður á hana. Ég sagði henni að við myndum hittast daglega.  Þá kom reiðarslagið hún gat allt í einu ekki staðið upp. Hún var flutt á sjúkrahús og þar uppgötvaðist að hún var með æxli við mænuna. Mamma vildi fara heim af sjúkrahúsinu og tveimur dögum síðar var hún látin. Hún vildi ekki vera öðrum til ama.  Ég saknaði hennar -en samt ekki. Mér fannst ég hafa öðlast frelsi upp á nýtt -eða hvað. Móðir mín sagði alltaf að ef manni þætti vænt um einhvern væri frelsið tálsýn. Ég tók Tomma til mín. Hann gætir ekki neins lengur. Hann er hættur að urra og glefsa í fólk. Ég má klóra honum á bak við eyrun og hann sefur nú undir rúminu mínu.  Þar liggur hann og hrýtur klukkutímunum saman. Hann er heyrnarlaus og sér illa.  Við útbjuggum ramp fyrir hann svo hann kemst inn í bílinn því hann hefur enn gaman að því að fara í bíltúr. Hann þarfnast mín. Er frelsið kannski fólgið í því að einhver þarfnist manns. Ég veit það hreinlega ekki, segir Slaugter að lokum.

Ritstjórn júní 27, 2019 08:27