Að vera ungur í anda

Hefurðu heyrt setninguna „Þú ert eins gömul og þú lítur út fyrir að vera?  Ef við höfum í huga hversu mikil sala er í alls kyns andlits- og hrukkukremum er ljóst, að  mörg okkar reyna að líta út fyrir að vera yngri en við erum. En sannleikurinn er sá að það er hægt að orða þetta mun betur með því að segja. „Þú ert eins gömul og þér finnst þú vera“.

Þannig hljómar upphaf greinar á vefnum Sixtyandme, sem fer hér á eftir í lauslegri þýðingu og endursögn Lifðu núna, en hún fjallar um hversu gott það er að vera ungur í anda. Greinin fer hér á eftir í lauslegri þýðingu.

Nýlegar rannsóknir sýna að aldur okkar, hversu ung eða gömul við upplifum okkur, hefur mikið að segja til um hversu vel við eldumst. Þær sýna einnig að fólk sem upplifir sig 10 eða 15 árum yngra en líffræðilegur aldur þeirra segir til um, er yfirleitt hraustara og lifir lengur en þeir sem upplifa sig á sama aldri og þeir eru.

Fjölbreytt viðfangsefni

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Jú, það þýðir að einstaklingar sem upplifa að þeir séu yngri en árin segja til um, taka gjarnan þátt í öflugri og mikillib líkamsþjálfun. Og fjölbreytt þjálfun, bæði andleg og líkamleg er það sem hjálpar fólki að halda sér ungu í anda.

Einstaklingar sem finnst þeir vera ungir, eru viljugri að drífa sig í að prófa eitthvað nýtt, hvort sem það reynir á líkama eða sál. Að læra eitthvað nýtt er einmitt það mikilvægasta sem fólk gerir til að halda sér ungu í hugsun. Einstaklingar sem upplifa sig yngri, halda áfram að stofna til nýrra kynna við aðra og taka þátt í samfélaginu og  halda sér betur bæði andlega og líkamlega þegar til lengri tíma er litið.

En hvernig höldum við okkur ungum í hugsun? Þegar þú lítur í spegilinn og sérð aragrúa af hrukkum í andlitinu, finnur til í hnénu, eða horfir á eftir enn einum félaga þínum yfir móðuna miklu, hvernig getur þér fundist þú vera ungur í anda?

Viðhorf þitt skiptir öllu

Það hvernig þú hugsar um sjálfan þig og aðra, endurspeglast í því hvernig þú talar.  Ef þú hugsar: „Ég er að verða gömul“, þegar þú lítur í  spegil, eða „Ég þoli ekki að eldast“, þegar þú finnur verki í liðunum og ferð í jarðarför og hugsar „Ég er að missa alla vini mína“, þá ertu bókstaflega að að þjálfa heilann, og þar með hverja einustu frumu líkamans, í að finnast hann vera gamall. Þar með upplifir hann, og þú,  erfiðleikana sem þú tengir því  að eldast.

Ef þú segir við sjálfan þig í hvert sinn sem þú horfir á hrukkurnar í andlitinu „Reynslulínur“ eða „Vá hvað ég brosi ennþá fallega“, ertu að sannfæra þig um að þú sért ung/ur í anda.  Þegar þú finnur fyrir stirðleika í liðunum, minntu þig á þegar þú varst um fertugt og fannst fyrir verkjum eftir líkamrsræktina.  Óþægindin tengjast ekki endilega aldri, sársauki er stundum bara sársauki. Við höfum fundið fyrir stirðleika og sársauka á öllum aldri, hvers vegna haldið þið að ungbörn gráti?  Það er líka staðreynd að fólk fellur frá á öllum aldri, þannig að það þarf ekki endilega að tengja það aldrinum, þó við missum vini okkar. Best er að  leitast við að eignast vini á öllum aldri.

Hægt að setja sér það markmið að kljást við flókin og margvísleg viðfangsefni

Það má taka Lornu Prendergast sem dæmi, að sögn greinarhöfundar. Þegar hún var níræð útskrifaðist hún með masterspróf frá Háskólanum í Melbourne. Hún stundaði námið að mestu á netinu, svo maður tali nú um að reyna á heilann. Hún réðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og ákvað að stúdera flókið efni –  Áhrif tónlistar á Alzheimer og skylda sjúkdóma, í gegnum miðla sem voru ekki einu sinni til, mest alla hennar ævi og nota aðferðir sem voru hreinlega ekki kenndar þegar hún var að alast upp. Svo sem kennsla í gegnum netið og umræðuhópar á netinu.

Og hún er ekki hætt. Lorna er að nota menntun sína til að deila þekkingu sinni þangað sem hún kemur að bestum notum. Ég get ekki beðið með að sjá hvað hún verður að gera þegar hún verður 100 ára!

Þið eruð jafn gömul og ykkur finnst þið vera. Það er ekki bara innantómur frasi. Það er satt. Þið skuluð því vanda ykkur þegar þið hugsið um ykkur sjálf og hvað ykkur finnst um aðra sem eru á sama aldri. Verið jákvæð og ung í anda. Ef Lorna og margir fleiri geta gert það sem þeir gera, þá getið þið það líka, þrátt fyrir hrukkurnar, gigtina,verkina og stirðu hnén!

Ritstjórn apríl 25, 2022 12:30