Viljum byggja íbúðir fyrir eldra fólk

„VR er virkt í réttindabaráttu fyrir eldri borgara. Við höfum verið að ræða við fulltrúa þeirra og lýst vilja okkar til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum okkar og þeirra. Að mínu mati á það að vera eitt að baráttumálum stéttarfélaganna að berjast fyrir aldraða og öryrkja,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.

Ragnar segir að félagið beiti sér fyrir hagsmunum þeirra sem eru að hverfa af vinnumarkaði vegna aldurs. VR haldi námskeið sem undirbúi fólk undir starfslokin. „Fólk er að fara inn í ákveðin kerfi sem eru flókin, eins og lífeyriskerfið. Það þarf að vita hvaða rétt það á og þekkja samspil lífeyrissjóða og almannatryggingakerfisins. Fólk þarf líka upplýsingar um allskonar skerðingar sem eru í kerfinu. Það er að mörgu að hyggja áður en fólk fer á eftirlaun,“ segir Ragnar.

Eitt af því sem VR hefur haft til skoðunar síðustu mánuði er framtíðarlausnir í húsnæðismálum og húsbyggingar á vegum stéttarfélaganna.„Það er búið að vinna mikla hugmyndavinnu og hugmyndirnar eru róttækar. Við leggjum mikla áherslu á að það verði byggðar íbúðir fyrir fólk á öllum aldri, sérstaklega eldra fólk. Það er mikilvægt að það bíði okkar hentugt húsnæði þegar við eldumst. Það stuðlar líka að því að leysa húsnæðisvanda yngra fólks því um leið og eldra fólk á þess kost að komast í minni íbúðir losnar húsnæði sem hentar yngra fjölskyldufólki. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á húsnæði fyrir eldra fólk.  Ég man alltaf eftir því þegar amma mín þurfti að komast á Grund. Hún átti íbúð sem varð að selja til að þoka henni ofar á biðlista eftir herbergi. Í millitíðinni varð hún að búa í ár hjá dóttur sinni áður en hún fékk lítið herbergi á Grund en þangað vildi hún fara því þar hafði hún unnið allan sinn starfsaldur. Þetta er ekki sú framtíðarsýn sem mér hugnast fyrir fólkið sem byggði upp fyrir kynslóðirnar sem á eftir komu. Í dag er staðan þannig að þegar fólk missir heilsuna og þarf að komast inn á öldrunar- eða hjúkrunarheimili þá þarf það að bíða allt of lengi. Það þarf að hafa í huga að þegar fólk byrjar að veikjast á efri árum, missir það heilsuna oft mjög hratt. Það getur ekki beðið mánuðum og árum saman eftir einhverjum úrræðum. Það ætti að vera forgangsverkefni að leysa þessi mál.“

VR hefur líka verið með herferðir í fjölmiðlum til að vekja athygli á stöðu fólks á miðjum aldri á vinnumarkaði. „Á einum mesta uppgangstíma í sögu þjóðarinnar á fólk sem orðið er 55 ára og eldra undir högg að sækja á vinnumarkaði. Missi fólk vinnuna á það erfitt með að fá nýja vinnu. Við sjáum þetta til dæmis í atvinnuleysistölum Vinnumálastofnunar, fólk sem komið er yfir miðjan aldur er stór hópur langtímaatvinnulausra. Það eru ríkjandi ákveðnir aldursfordómar í garð þessa hóps. Okkar hlutverk er að vekja athygli á stöðu hópsins og skoða hvaða nálgun við getum notað til að breyta þessu.  Þetta fólk er oft á tíðum harðduglegt og fylgist vel með nýjungum. En það er eitthvað í vinnustaðamenningunni sem gerir það að verkum að þessi hópur á erfiðara uppdráttar. Ef til vill er skýringin að stjórnendur eru orðnir yngri og vilja frekar ráða yngra fólk sem er nær þeim í aldri. En við verðum að berjast gegn þessum kúltur og finna leiðir sem virka til að berjast á móti þessu. Við eigum að hafa fjölbreytileikann að leiðarljósi,“ segir Ragnar og bætir við: „VR á að vera í forystu þegar kemur að réttindabaráttu eldra fólks. Innan okkar vébanda er starfandi öldungaráð sem  starfar með stjórn félagsins. Við viljum vera í forystu, setja okkur markmið og leggja línur þegar kemur að réttindabaráttu bæði aldraðra og öryrkja.“

Ritstjórn október 11, 2018 11:55