Fyrirhuguð er fundarröð á vegum Háskóla Íslands og Landspítala sem er ætlað að svara einmitt þessari spurningu og ótal öðrum. Fyrsti fundurinn verður haldinn föstudaginn 23. maí næstkomandi í hringsal Landspítalans og stendur frá kl. 11.30-13. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.
Heilsan okkar – fundaröð: Að eldast á Íslandi
Heilsan okkar er ný fundaröð Háskóla Íslands og Landspítala sem hefur það að markmiði að varpa ljósi á áríðandi mál líðandi stundar er varða heilsu og heilbrigðisþjónustu. Þessir mánaðarlegu upplýsingafundir eru öllum opnir. Umsjón og ritstjórn með þessum fundi í fundaröðinni hefur Margrét Guðnadóttir, forstöðumaður miðstöðvar í öldrunarfræðum.
Í ljósi þess að þjóðin eldist hratt er mikilvægt að horfa til margbreytilegra aðstæðna þess fjölbreytta hóps sem eldra fólk er. Á málþinginu verður litið yfir stöðu og þróun aðstæðna hjá eldra fólki á Íslandi síðustu ár ásamt því að tengja saman lýðfræðilegar breytingar og heilbrigða öldrun við þær áskoranir sem fylgja breyttu heilsufarsástandi á efri árum.
Dagskrá
- Kolbeinn H. Stefánsson, dósent við Félagsráðgjafardeild – Lýðfræði og tekjur: Er fátækt hverfandi meðal eldra fólks?
- Halldór S. Guðmundsson, dósent við Félagsráðgjafardeild – Velferð og vinna eldra fólks
- Anna Björg Jónsdóttir, yfirlæknir öldrunarlækninga – Heilbrigð öldrun
- Margrét Guðnadóttir, forstöðumaður Miðstöðvar í öldrunarfræðum og sérfræðingur í heimahjúkrun – Að eldast heima og aðlagast heilsumissi.Fundarstjóri er María Heimisdóttir, landlæknirUm Heilsuna okkar
Funda- og viðburðaröðin Heilsan okkar er hugsuð sem samtal almennings, fagfólks og fræðafólks um heilsutengd málefni og verða viðburðir öllum opnir og þeim verður einnig streymt beint á netinu. Hlekkur á streymi kemur hér inn á viðburðinn og á viðburðasíðu á hi.is.
Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinu streymi sem auðvelt er að tengjast inn á vefsíðunni: https://hi.is/vidburdir/heilsan_okkar_ad_eldast_a_islandi