Að eiga fjölskyldusögu um hjartasjúkdóma

„Sökum algengis hjartasjúkdóma, leynast hjartasjúkdómar í fjölskyldusögu margra og því mikilvægt fyrir hvern og einn að vera meðvitaður um fjölskyldusögu sína með tilliti til þessara sjúkdóma.“ Þannig hefst grein á vefnum Hjartalíf, en hún er eftir Mjöll Jónsdóttur sálfræðing.

Mjöll segir í greininni að hluti þeirra sem veikist telji fjölskyldusögu sína eiga stóran þátt í veikindunum og finnist þeir jafnvel ekki geta haft stjórn á örlögum sínum. En svo einfalt sé málið ekki. Það sé vissulega ekkert hægt að gera við genunum sem við erfum og við getum ekki breytt því ef við erum viðkvæm fyrir ákveðnum sjúkdómum, hvort sem það eru hjartasjúkdómar eða aðrir sjúkdómar.

En erum við hjálparlaus gagnvart örlögum okkar? Ef hjartasjúkdómar eru algengir í fjölskyldu okkar, erum við þá bara út á Guð og gaddinn sett á meðan við bíðum þess sem verða vill? Þannig spyr Mjöll í greininni og segir meðal annars að það sé sérstaklega mikilvægt að vera meðvitaður um fjölskyldusögu sína. Margt fólk með fjölskyldusögu leiti til hjartasérfræðinga án nokkurra einkenna til að kanna sögu sína og fái stundum lyf til að halda sjúkdómnum í skefjum. Síðar í greininni segir:

„Vitneskja um fjölskyldusögu gagnast hins vegar ekki einungis sem læknisfræðilegt vopn þar sem hægt er að bregðast við með lyfjagjöf í tíma. Enn betra er ef hægt er að koma í veg fyrir lyfjagjöf með öllu og líka losna við að veikjast. Það mun ekki verða mögulegt í öllum tilfellum. En það mun vera staðreyndin með marga.“

Ef þú hefur mikla sögu um hjartasjúkdóma í fjölskyldu þinni, lifðu þá öðruvísi en fjölskylda þín!

Skoðaðu söguna þín. Skoðaðu fólkið þitt. Hvað einkennir lífsstíl þeirra sem veiktust? Líkur eru á að þeir sem bera fjölskyldusögu hjartasjúkdómanna séu af eldri kynslóð en þú ert af. Líkur eru á að á þeirra tíma hafi vitneskja um mikilvægi lífsstíls verið minni ásamt því að áherslur í mat, hreyfingu, reykingum og áfengi hafi verið á annan hátt en þær eru í dag. Líkur eru á að þú getir fundið eitthvað í þeirra lífsstíl sem betur hefði mátt fara miðað við þekkingu og venjur í dag.

Við erum oft mjög mótuð af þeim lífsstíl sem við erum alin upp við. Við lærum að næra okkur eins og við vorum nærð, við erum mótuð af þeim normum sem giltu í fjölskyldu okkar. Ef þú veist að þú mögulega hefur meðfædda viðkvæmni fyrir hjartasjúkdómum, þá stendur þú betur en þeir fjölskyldumeðlimir sem ekki bjuggu við þá þekkingu sem við búum við í dag. Við getum með mjög nákvæmum hætti fengið líkamlegt ástand okkar metið og við getum fylgst mjög náið með heilsufarslegri þróun líkama okkar.

Aftur: ef þú hefur sögu um hjartasjúkdóma í fjölskyldu þinni, gerðu þá eitthvað öðruvísi en þeir gerðu sem veiktust. Reyktu þeir? Ekki reykja. Hreyfðu þeir sig? Hreyfðu þig meira eða markvissara. Drukku þeir áfengi? Drekktu minna eða skynsamlegar. Kláruðu þeir alltaf af disknum sínum og borðuðu reglulega bjúgu og soðnar kjötbollur í kálbögglum með bræddu smjöri? Borðaðu meðvitað og hollara.

Það getur vel verið að þrátt fyrir allt munir þú á einhverjum tímapunkti þjást af hjartasjúkdómi. En væri það ekki þess virði ef þú slyppir?

Meira um lífið og hjartasjúkdóma á vefnum hjartalif.is.

Ritstjórn október 12, 2021 13:24