Er hægt að fyrirgefa deyjandi manneskju allt?

Getur maður fyrirgefið fólki sem er að deyja allt? Það er spurning sem Sella Páls  vekur í leikriti sínu Fyrirgefningin, sem verður leiklesið í Iðnó klukkan 16 á sunnudaginn og klukkan 20 á mánudagskvöld.  Í kynningu á verkinu segir:

Á dánarbeðinu ætlast eiginmaðurinn til þess að eiginkonan sem ætíð hefur verið honum svo góð, fyrirgefi sér. En þegar hún kemst að því hvað það er sem hún á að fyrirgefa, er það ekki sjálfgefið.

Misjafnt hvernig menn líta á fyrirgefninguna

Þetta er annað leikverk Sellu Páls sem Leikhúslistakonurnar 50+ leiklesa, en í fyrra tók hópurinn fyrir verkið Erfðagóssið eftir hana, en það fjallaði um ekkju og samband hennar við dóttur sína og tengdason. Tælensk kona sem var húshjálp hjá henni fléttaðist einnig inní verkið. Sellu er í mun að skrifa verk fyrir eldri leikkonur. Hún segir að í Fyrirgefningunni séu einungis þrjár persónur. Það er eiginkona mannsins sem liggur banaleguna, dóttir hennar og dóttursonur. Hún segir misjafnt hvernig fólk sjái fyrirgefninuna fyrir sér. Þeir sem eru kristnir sjái hana öðruvísi en þeir sem eru það ekki. En hún segir verkið vekja upp ýmsar spurningar um það hvernig við lifum oft í blekkingu og afneitun sem við skynjum sem raunveruleika. Þegar okkur sé bent á að menn og atburðir séu ekki eins og við héldum, verðum við gjarnan reið eða þunglynd.

Sella ásamt fjölskyldu sinni. Hún situr við hlið móður sinnar og heldur á yngsta bróður sínum

Sella ásamt fjölskyldu sinni. Hún situr við hlið móður sinnar og heldur á yngsta bróður sínum

Bjó í Bandaríkjunum í 40 ár

Sella Páls, ólst upp á Kvisthaga og í Skerjafirði í átta systkina hópi. Foreldrar hennar voru Páll S. Pálsson hæstaréttarlögmaður og Guðrún Stephensen. Hún flutti ung til Bandaríkjanna þar sem hún hafði stundað nám, og bjó þar í 40 ár. Hún giftist Bandaríkjamanni og þau eiga einn son. Lengst af bjó Sella í New York, þar sem hún rak veitingastaðinn Palssons og framleiddi söngleikinn Forbidden Broadway í New York, Boston og víðar. Síðar bjó hún í Salt Lake City þar sem hún stofnaði og rak netfyrirtækið SeniorShops.com. Hún seldi það 2007 og flutti til Íslands fyrir fjórum árum. Undanfarin þrjú ár hefur Sella verið að skrifa bókina Girndarráð sem gerist um aldamótin 1000. Hún býst við að bókin komi út fyrir næst jól.

Sella Páls

Sella Páls

Yndislegt að vera komin heim

Hún segir að það sé yndislegt að vera komin heim. „Ég á svo góða fjölskyldu, við erum náin systkinin“, segir hún en viðurkennir að margt sé breytt. Þegar hún bjó erlendis hafi hún tapað sambandi við flesta skólafélaga en nú hittir hún reglulega gamla félaga og kynnist fleirum smátt og smátt. Það sé einstaklega gaman að vera í félaginu Leikhúslistakonur 50+. „Þetta eru svo skapandi, skemmtilegar og þaulvanar konur“, segir hún. Þórunn Magnea Magnúsdóttir leikstýrir leiklestrinum á Fyrirgefningunni og Ragnheiður Steinþórsdóttir fer með hlutverk eiginkonunnar. Rósa Guðný Þórsdóttir leikur dóttur hennar og Haukur Valdimar Pálsson dóttursoninn. Verkið er rúm klukkustund og ekkert hlé. Aðgangseyrir er 1500 kr.

Ritstjórn apríl 15, 2016 12:18