Hampjurtir eða kannabisjurtir hafa verið ræktaðar og nýttar af mannkyninu frá örófi alda. Lækningamáttur þeirra hefur lengi verið þekktur en jurtir af þessari ættkvísl fengu nokkuð óorð á sig eftir að afurðir þeirra urðu vinsælir vímugjafar. Nú færist hins vegar í vöxt að menn nýti sér hina fjölmörgu góðu eiginleika hampsins og Hampfélagið hélt nýlega ráðstefnu um stöðu iðnaðar- og lyfjahampsræktunar hér á landi ásamt tækifærum til framtíðar. Sigurður Hólmar Jóhannesson er formaður Hampfélagsins og þekkir vel kosti þessarar jurtar.
Hampfélagið var stofnað árið 2019 af fólki sem á það sameiginlegt að hafa áhuga á hampi og nýtingu hans. Iðnaðar- og lyfjahampur eru ekki sömu jurtirnar en þær eru náskyldar og hafa að mörgu leyti sömu eiginleika. Hvers vegna er svo eftirsóknarvert að rækta hamp til lækninga og iðnaðar?
„Það er auðvelt og ódýrt að rækta hamp og hann vex vel á Íslandi eins og sýnt hefur verið fram á síðustu árin,“ segir Sigurður. „Svo er hægt að vinna úr honum svo ótrúlega mikið að listinn er nánast ótæmandi. Hampurinn hefur verið með manninum í tugþúsundir ára og er planta sem maðurinn hefur ræktað og notað í iðnaði með því að gera föt, reipi, segl og nota sem einangrun í hús til að nefna eitthvað. En við höfum í gegnum aldirnar líka notað hampinn til lækninga eins og til dæmis til að verkjastilla, til að sótthreinsa og til að minnka bólgur og tíðarverki líkt og Victoria Englandsdrottning gerði í kringum 1840.
Það er skemmtilegt að segja frá því að hempan sem prestar klæðast var áður fyrr gerð úr hampi og þaðan kemur nafnið. Íslendingar fluttu mikið inn af hampfræjum gegnum aldirnar og hafa fundist hampklæði sem víkingar klæddust þegar að þeir komu til Íslands. Í kringum 1760 ræktaði Skúli Magnússon hamp í Viðey og einnig voru gerðar tilraunir til að rækta hamp við Bessastaði.“
Stillir verki og kvíða og bætir svefn
Það er sennilega velþekkt að hampur hefur yfirleitt róandi áhrif á fólk. Hann slær einnig á ógleði hjá fólki í erfiðri lyfjameðferð en hvernig nýtist hampur til verkjastillingar, sérstaklega ef nota þarf hann daglega?
„Hampur (Cannabis sativa) hefur efni sem kallast kannabínóíðar, þar á meðal CBD (cannabidiol).“ segir Sigurður, „CBD er sérstaklega vinsælt til lækninga vegna bólgueyðandi og verkjastillandi áhrifa sinna, án þess að valda vímuáhrifum. Þetta gerir hamp eftirsóknarverðan fyrir meðhöndlun á ýmsum sjúkdómum, svo sem: Kvíða og þunglyndi, flogaveiki, bólgusjúkdómum, taugaverkjum og krónískum verkjum og svefnvandamálum.
THC er einnig vel þekktur kannabínóíði og þrátt fyrir að THC sé þekktur fyrir vímuáhrif sín hefur hann mikla læknisfræðilega möguleika. Þegar THC er notað á réttan hátt getur það hjálpað til við að meðhöndla ýmsa sjúkdóma og einkenni, þar með talið verkjastillingu, meðferð á ógleði, aukna matarlyst, vöðvaspasma, svefnvanda og PTSD.“
Mjög vel rannsökuð planta
Sigurður og félagar hans í Hampfélaginu draga úr fordómum gagnvart þessari gagnlegu plöntu og afurðum hennar. En eru til rannsóknir sem sýna fram á virknina og er þetta
hættulaust?
„Í dag hafa verið birtar yfir 150.000 rannsóknir á hampinum í vísindatímaritum og í hverri viku bætast við að meðaltali 300 rannsóknir og því er óhætt að segja að plantan sé mjög mikið rannsökuð og sérstaklega varðandi notkun hampsins í lækninga- og heilsueflingartilgangi. Það hafa engin dauðsföll verið skráð af kannabis nema ef tekið er inn í myndina að eiturefnum hafi verið bætt í plöntuna og því er auðvelt að segja að plantan sé mjög örugg.
Rannsóknir hafa sýnt fram á bætt lífsgæði hjá alvarlega flogaveikum börnum líkt og Dravet og Lennox-Gastraut heilkennin og hefur verið samþykkt lyf fyrir einstaklinga með þessa sjúkdóma en lyfið heitir Epidiolex og inniheldur hreint CBD. Það hefur líka verið samþykkt lyf sem inniheldur CBD og THC fyrir MS sjúklinga en það lyf heitir Sativex og það lyf hefur verið á lyfjaskrá á Íslandi síðan 2013 en mér skilst að það sé ekki mikið verið að láta sjúklinga vita af þessu lyfi.
Rannsóknir hafa sýnt að bæði CBD og THC geta hjálpað til við að draga úr krónískum verkjum og bólgu. Þetta hefur reynst gagnlegt fyrir fólk með gigt, taugaverki, vöðvakrampa og aðra langvinna verki.
Það eru vísbendingar um að CBD geti hjálpað við að draga úr einkennum kvíða og þunglyndis. Nokkrar rannsóknir benda til að það geti haft róandi áhrif án þess að valda ávanabindingu, sem gerir CBD áhugavert sem meðferð við kvíða og streitu.
CBD hefur einnig verið rannsakað fyrir getu sína til að bæta svefngæði hjá þeim sem þjást af svefnleysi eða öðrum svefnröskunum en CBD getur aukið lengd djúpsvefns.,“ segir Sigurður með áherslu.
Flogaköstin hættu
Hver er þín reynsla af hampi eða CBD?
„Mín reynsla kemur frá dóttur minni sem er með afar sjaldgæfan taugasjúkdóm. Sjúkdóm sem hefur öll einkenni allra annara taugasjúkdóma. Árið 2017 var hún orðin mjög þjökuð af flogaveikiköstum sem komu ofan á lömunar og vöðvakrampaköstin en hún var nánast alla daga ársins í einhverskonar köstum og var orðin mjög máttvana. Ég hafði í nokkur ár rekist á CBD í birtum rannsóknum þegar ég var að reyna að finna eitthvað lyf sem gæti hjálpað henni. Ég talaði við fyrirtæki í Boulder, Colorado sem var og er eitt af stæðstu CBD framleiðendum í Bandaríkjunum og fékk að fara í heimsókn. Mér leist mjög vel á framleiðsluna og kom heim með nokkur glös sem ég byrjaði að gefa dóttir minni árið 2017. Við byrjuðum mjög rólega en eftir um þrjár vikur þá sáum við mikla breytingu á henni, hún byrjaði að fá meiri kraft, hætti að fá flogaköst og fór að vera meira með í lífinu, þroskaðist hraðar og leið almennt betur þrátt fyrir að lömunar og vöðvakramparnir hafi ekki minnkað mikið.
Við höfum haldið áfram að gefa henni CBD á hverjum degi og í dag þá hefur hún enn ekki fengið eitt einasta flogakast síðan dainn sem hún byrjaði að taka olíuna árið 2017 en fyrir þann dag fékk hún stórt flogakast einu sinni til tvisvar í mánuði.
Hún stjórnar sjálf inntökunni, biður um CBD, þrátt fyrir að vera mikið þroskaskert þá finnur hún að CBD hjálpar henni. Ég hef sjálfur tekið CBD með dóttir minni frá því 2017 og finn mikinn mun á orku, svefni og almennum lífsgæðum. Ég hefði viljað vita af þessum valkosti fyrr en ég held að ef við hefðum byrjað fyrr að gefa dóttir okkar CBD þá væri hún á betri stað í dag,“ segir Sigurður að lokum en margir eru á því að hampur verði í framtíðinni notaður í mjög auknum mæli bæði til lækninga, sem byggingarefni, í fatnað og snyrtivörur. Hann vex hratt og í stað þess að sjúga öll næringarefni úr jarðveginum bætir hann næringu moldarinnar fyrir aðrar plöntur. Hann er náttúrulega ónæmur fyrir mörgum skordýrum og plöntusjúkdómum svo ekkert þarf að nota af eitri við ræktun hans og hann þarf litla vökvun. Í raun má segja að þessi jurt sé ótrúlega bæði mann- og umhverfisvæn.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.