Tengdar greinar

Ingvi Hrafn Jónsson kominn hringinn

Þau hjónin eru svo heppin að eiga nú 5  barnabörn. Hér heldur Ingvi Hrafn á því yngsta, ungfrú Emmu Dögg.

Ingvi Hrafn Jónsson er kominn heilan hring eftir 40 ár. Hann hætti sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu 1979 og 2019 fékk hann aðstöðu í húsakynnum blaðsins fyrir þátt sinn Hrafnaþing. Á þessum 40 árum hefur Ingvi Hrafn starfað við ýmislegt en alltaf eitthvað fjölmiðlatengt og hann er ánægður með ferilinn. Nú segist hann halda “sellunum” í formi með því að stýra og senda út þátt sinn Hrafnaþingi einu sinni í viku. Til þess þurfi hann að fylgjast vel með því sem er efst á baugi hverju sinni bæði hérlendis og erlendis. Áhorf á þann þátt er töluvert þrátt fyrir mikla samkeppni við risana, svo mikið að ljóst er að Hrafnaþing á sinn trausta áhorfendahóp.

Á Flórída vor og haust

Ingvi Hrafn og Ragnheiður Sara, eiginkona hans, hafa dvalið á Flórída í tvo mánuði í senn, vor og haust, undanfarin 36 ár og komu heim nýverið úr einni ferðinni og

Ingvi Hrafn á nýja golfvellinum við Siglufjörð.

voru send beint í sóttkví þar sem þau dvelja nú í húsi sínu við Langá.

“Við ákváðum fyrir öllum þessum árum að skipta um heimilisfang og loftslag reglulega en héldum áfram að lifa svipuðu lífi þar og hér heima. Við  spilum golf og njótum líðandi stundar og nýtum tæknina við að vinna og vera í sambandi við ástvini.”

Ingvi Hrafn hefur sannarlega nýtt sér tæknina og sent Hrafnaþing beint frá Flórída þegar hann er þar. Þau hjónin hafa bæði náð háum aldri og eru svo gæfusöm að halda heilsu nokkuð vel. Ingvi Hrafn verður 78 ára næst og segist reyndar hafa komið sér upp sykursýki-B fyrir 25 árum og svo tekur hann blóðþrýstingslyf en með því að huga að hreyfingu og mataræði haldi hann sér í góðu formi. Hann hefði samt ekki viljað lenda á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum þar sem þau hjónin voru stödd þegar Corona-veiru faraldurinn byrjaði að geisa þar í mars og er feginn að vera kominn heim.

Ellikerling bankaði upp á

“Ellikerling bankaði upp á fyrir nokkru síðan,” segir Ingvi Hrafn brosandi. “Það er bara ekkert við því að gera annað en taka hana í sátt og vinna með henni,” bætir hann við. “Ég og þessi kerling eigum í svolítið

Með Fernando þjálfaranum sînum í ræktinni à Key Largo.

sérstöku sambandi. Þegar ég er að fara í ræktina segir hún: “Æi verum ekkert að fara í þetta vesen, sitjum frekar hér í sófanum og höfum það notalegt”. En ég dreg hana með mér. Svo þegar ég er að hamast á hjólabrettinu hvíslar hún að mér hvort nú sé ekki nóg komið en af því ég er meðvitaður um þessa kerlingu og hvað hún getur verið grimm veit ég að ég get ráðið við hana svo framarlega sem ég læt hana ekki taka völdin. Ég veit að ég hef það aldrei betra en þegar ég er búin að fara í ræktina og hunsa rödd kerlingarinnar.”

Varð snemma blár

Bláa höndin í fullum skrúða á Sólvangi við Langá.

Þegar Ingvi Hrafn hætti á Morgunblaðinu 1979 eftir 13 ár var hann fenginn til að gerast þingfréttamaður RÚV sem hann sinnti í hálfu starfi í fjögur ár. Það var í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen. “Þetta voru geysilega skemmilegir en sérstakir tímar,” segir Ingvi Hrafn. “Sjálfstæðisflokkurinn var að hálfu leyti í stjórnarandstöðu en sjálfstæðismaður forsætisráðherra. Það gustaði á þingpöllum á þessum árum,” segir hann og brosir og hafði augljóslega gaman af atinu sem þingfréttamennskan fól í sér. Ingvi Hrafn sá um Kastljósþætti einu sinni í mánuði og Þingsjá aðra hverja viku. “Þá var ég með þrjá til fjóra þingmenn í klukkutíma þætti upp úr kl. 10 á kvöldin með 60% áhorf,” segir Ingvi og skellihlær. “Þetta voru gósentímar þáttagerðarfólks því það voru allir að horfa á það sama og gátu ekki annað. Það var ekki um annað talað í þjóðfélaginu en hvað þingmennirnir hefðu sagt í sjónvarpinu. Með því að vera með þingfréttamann í sjónvarpinu færði stofnunin stjórnmálin heim í stofu til landsmanna.” Fram að því höfðu stjórnmálamenn verið skör fyrir ofan aðra landsmenn en Ingva Hrafni tókst að slá á þann ljóma með skemmtilegri og hispurslausri framkomu sinni. En það hefur einmitt verið aðalsmerki þessa skemmtilega fjölmiðlamanns. Landinn fór að horfa á stjórnmálamenn með öðrum augum.

“Menn voru tortryggnir í minn garð þar sem ég hafði verið starfandi á Morgunblaðinu . Þeir sátu með skeiðklukkur og mældu hversu langan tíma hinn og þessi stjórnmálamaðurinn fékk í útsendingu. Ég var aldrei hankaður á því en þetta var mikil jafnvægislist,” segir Ingvi Hrafn og glettnin leynir sér ekki í svip hans. “Þá var ekki aftur snúið og nú eru þættir eins og Kastljósið á hverjum degi og Silfrið vikulega þar sem málin eru reifuð og krufin fyrir utan marga aðra þætti á fleiri stöðvum sem fólk getur horft á.”

Stofnaði fjölmiðlafyrirtæki

Fjölskyldan á jólum 2016.

Þegar Ingvi Hrafn hætti á Morgunblaðinu 1979 stofnaði hann fjölmiðlafyrirtækið Fjölmiðlun og ráðgjöf á sama tíma og hann starfaði sem þingfréttamaður í hálfu starfi. Hann gerðist þá umsvifamikill á vettvangi fjölmiðla um alllangt skeið.

Vorið 1983 hætti Ingvi Hrafn í þingfréttamennsku en var áfram með Kastljósþætti næstu tvö árin en svo kom að því að Emil Björnsson fréttastjóri var kominn á aldur og hvatti Ingva Hrafn til að sækja um starfið. “Ég var tregur til að byrja með en þótti það auðvitað spennandi og endaði með að sækja um. Þannig að haustið 1985 tók ég við fréttastjórastöðu Sjónvarpsins sem ég sinnti þangað til sumarið 1988 þegar ég var rekinn frammi fyrir alþjóð,” segir Ingvi Hrafn og brosir. “Með mér var gífurlega öflugt lið á fréttastofunni á þessum tíma sem vann hreint kraftaverk. Mér var falið að færa sjónvarpsfréttamennsku meira inn í nútímann sem var sannarlega skemmtilegt verkefni. En útvarpsráð var auðvitað pólitískt skipað og ég þótti of sjálfstæður sem fréttastjóri. En þetta var ofsalega skemmtilegur tími. Fyrsta manneskjan sem ég réði var Edda Andrésdóttir og að öðrum ólöstuðum er hún enn þann dag í dag flottasti fréttaþulur landsins, orðin 68 ára gömul. Ég fullyrði til dæmis að það hafi verið einstakt afrek í fréttamennsku á Íslandi hvernig við Edda og aðrir frá sjónvarpinu á þeim tíma, héldum á málum á leiðtogafundi Reagan og Gorbachevs 1986.”

Sneri sér aftur að fjölmiðlafyrirtæki sínu

Þegar Ingvi Hrafn hætti hjá sjónvarpinu 1988 sneri hann sér alfarið að fyrirtæki sínu Fjölmiðlar og ráðgjöf. Í ársbyrjun 1992 fékk hann svo símtal frá Páli Magnússyni, sem þá var á Stöð 2, en þar á bæ vildu menn gera breytingar. „Páll spurði mig hvort ég nennti að koma aftur í bransann og eftir nokkra umhugsun samþykkti ég að ráða mig til þeirra í eitt ár. Þar var ég í rúm tvö ár og tók þá við þættinum Bingó Lottó sem var gífurlega vinsæll skemmtiþáttur að sænskri fyrirmynd. Í því var ég í nokkur ár ásamt því að taka að mér verkefni fyrir utan ýmiss konar ráðgjöf sem ég sinnti“.

Ingvi Hrafn vaxinn yfir afa sinn.

Útvarp Saga stofnuð og Hrafnaþing varð til

Ingvi Hrafn var fenginn til liðs við Útvarp Sögu . “Útvarp Saga var stofnuð af Stöð 2 sem “talstöð” og þau Arnþrúður Karlsdóttir, Sigurður G. Tómasson og Hallgrímur Thorsteinsson voru þar með þætti ásamt Ingva Hrafni. Þá varð til Hrafnaþing sem enn lifir góðu lífi, sem og Útvarp Saga.

“Svo liðu tvö ár en þá var Sigurður G. Guðjónsson tekinn við sem forstjóri Norðurljósa og tók ákvörðun um að slökkva á Útvarpi Sögu. Við vorum auðvitað allsendis ósammála því og ákváðum að reyna að fá Norðurljós til að leyfa okkur að halda Útvarpi Sögu áfram af því við höfðum trú á miðlinum. Við útbjuggum drög að stúdíói á hæðinni þar sem ég hafði verið með skrifstofu í Húsi Verslunarinnar. Þangað bauð ég Sigurði G. og sagði við hann að nú væri Útvarp Saga flutt að heiman og hann sagði þá hátt og snjallt “allt í lagi þá” og við gátum haldið áfram á okkar kostnað. Við vorum tengd Bylgjunni á heila tímanum og útvörpuðum fréttum Bylgjunnar. Þetta gekk svona í svolítinn tíma en þá varð úr að Arnþrúður keypti okkur út að hluta og það endaði með því að hún eignaðist alla hlutina og rekur stöðuna með glæsibrag í dag sem einu útvarpsstöðina sem útvarpar eingöngu talmáli.”

ÍNN rekin á gleðinni einni saman

Hrafnaþing studíó á Key Largo.

Þarna var komið að því að Ingvi Hrafn stofnaði eigin sjónvarpsstöð og 2008 varð ÍNN til. “ÍNN var íslensk sjónvarpsstöð með íslenskt efni og mjög skemmtilegt verkefni en auðvitað alger horrekstur,” segir Ingvi Hrafn. “Við vorum að keppa við risa og stundum áttum við pening til að borga þáttastjórnendum en oftast var þetta sjálfboðavinna og rekið á gleðinni einni saman. Ég var með Hrafnaþing þrisvar í viku og masaði yfir þjóðinni með öfluga hægri slagsíðu,” segir Ingvi Hrafn og hlær.

Þáttastjórnendur voru fulltrúar allra flokka. Þar á meðal var t.d.Björn Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Illugi Gunnarsson, Ármann Kr. Ólafsson, Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Alfreðs, Þórhildur Sunna, Einar K. Guðfinnsson, Svavar Gestsson, og Jón Baldvin Hannibalsson svo nokkrir séu nefndir. “Þetta voru þáttastjórnendur úr öllum áttum og úr varð mjög skemmtilegt lítið samfélag öflugs fólks, sem var hvert á sínu sviði.”

Reksturinn varð erfiður

Svo kom að því að rekstur ÍNN var orðinn of erfiður en þá keypti Vefpressan ehf. stöðina með Björn Inga Hrafnsson í forsvari. „Um það leyti var fjölmiðlaveldi Björns Inga að hrynja svo þar með fór ÍNN í þrot. Jón Kristinn Snæhólm hafði verið fastagestur hjá mér í Hrafnaþingi og við tveir ákváðum í janúar í fyrra að leita upp í Hádegismóa og Morgunblaðsmenn voru svo vinsamlegir að lána okkur aðstöðu í myndveri þeirra vikulega. Þá var ég kominn heilan hring,” segir Ingvi Hrafn og er ánægður með vegferðina frá því hann hætti á Morgunblaðinu 1979, 40 árum áður. “Við bjuggum til flottan bakgrunn í bláum lit að sjálfsögðu og þar höfum við verið með vikulegan Hrafnaþingsþátt í vel á annað ár. Ef farið er inn á hrafnathing.is á sjónvarpi MBL má þar finna Hrafnaþing kl. 20 á föstudögum.  Við erum að fá 5-6000 smelli á okkur þar sem við tökum áhugavert fólk tali um það sem er að gerast í samfélaginu,” segir Ingvi Hrafn. “Þetta spjall okkar á greinilega stóran hóp áhangenda enn þá,” segir hann ánægður.

Heldur hausnum virkum

“Það gleður mig óumræðilega að heyra að vinstri menn úti í bæ kalli okkur íhaldskurfa og þaðan af elskulegri orð. Við leggjum metnað okkar í að fylgjast vel með líðandi stund og vera alltaf með það nýjasta sem er á döfinni í þjóðfélaginu. Það heldur hausnum á mér vel virkum,” segir Ingvi Hrafn og er hvergi nærri hættur að láta fyrir sér fara þrátt fyrir háan aldur. “Og nú gæti ég hugsað mér ýmislegt verra en að vera hér á Langárbökkum í sóttkví að bíða eftir vorinu.”

Í einverunni í sóttkvínni nýta þau hjónin tæknina og halda áfram að spila við vinahjón sem stödd eru niðri á Flórída  “Við spilum reglulega Sequence yfir Atlantsála, konur á móti körlum. Við sitjum við okkar borð, alveg eins og við værum stödd í sama herbergi en ekki í 4000 mílna fjarlægð. Svo nú ætlum við að spila tvisvar í viku og höldum fyrsta Sequence mót sem haldið er í tveimur heimsálfum samtímis,” segir Ingvi Hrafn alsæll í einverunni við Langárbakka.

Ritstjórn apríl 24, 2020 08:31