Feðgin á skólabekk

Jóhannes og Snædís bíða eftir kennaranum.

Feðginin Jóhannes Vilhjálmsson og Snædís sitja nú saman í leiðsögumannanámi Háskóla Íslands. Hann er fæddur 1955 og hún 1998. Það sem tengir þessi feðgin rækilega, fyrir utan að vera svona náskyld, er áhugi á ferðamennsku. Jóhannes hefur alla tíð haft geysilegan áhuga á jeppaferðalögum, alveg frá því hann fékk bílpróf, sem hann segir hlæjandi frá að hafi verið fyrir næstum hálfri öld. Hann hefur gert mikið af því í gegnum tíðina að fara upp fjöll og firnindi og með í þeim ferðum var auðvitað Snædís. Hún segir frá því að hún hafi ung fengið að sitja með pabba og taka í stýrið á jeppanum uppi á jöklum þar sem engin hætta var. Það var því ekki nema von að ferðabakterían hafi tekið sér bólfestu í barninu.

Langaði í meira ævintýri

Snædís er nýútskrifuð frá náttúrufræðibraut Menntaskólans í Reykjavík þar sem hún tók auka jarðfræðiáfanga af áhuga á landinu

Í ferð sem farin var nýlega að Seljalandsfossi í tengslum við námið.

okkar og náttúrunni. Hún segist snemma hafa áttað sig á að hana langaði ekki að mennta sig til að sitja kyrr inni á skrifstofu einhvers staðar. Fyrst segist hún hafa séð flugmannsstarfið í hillingum en þegar hún áttaði sig á að það starf útheimti að hún sæti hreyfingarlaus í flugstjórnarklefa í marga klukkutíma á milli staða dvínaði sá áhugi. Snædís vildi meira ævintýri í framtíðarstarfinu og smátt og smátt opnuðust augu hennar fyrir því hvað ferðamennskan hafði margt upp á að bjóða. Og nú hefur hún tekið fyrstu skrefin á þeirri braut og er búin að setja markið hátt. Hún  fann út að leiðsögumennskan heillaði hana en vissi samt að hana langaði ekki til að vera bara hefðbundinn leiðsögumaður. “Ég áttaði mig á að það sem ég þyrfti að gera væri að ná mér í þyrluflugmannsréttindi,” segir þessi glæsilega fyrirmynd ungra kvenna. Snædís setur sér markmið og hættir alveg örugglega ekki fyrr en hún hefur náð þeim.

Pabbinn fylgdist með áhuganum kvikna

Jóhannes hefur fylgst með því hvernig Snædís hefur stefnt markvisst á þá braut sem hún er nú á. “Þetta er búin að vera mjög skemmtileg nálgun hjá henni,” segir hann. “Það er langt síðan hún fór að tala um ævintýraleiðsögn. Þegar ég fór að spyrjast fyrir hjá þeim sem ég þekki og eru starfandi í ferðamennsku, fann ég út að mælt væri með að áður en að ævintýraleiðsögninni kæmi væri nauðsynlegt að fá undirstöðuna í hefðbundnu  leiðsögunámi. Ævintýraleiðsögnin sé nefnilega svolítið annars eðlis en bara leiðsögn.”  Og nú eru feðginin bæði mætt í leiðsögunámið í Háskóla Íslands og þykir báðum óskaplega gaman í skólanum.

Ferðalögin innanlands skemmtilegri 

Hrikaleg náttúra Íslands heillar. Feðginin við Dettifoss.

Jóhannes segist velja ferðalög innanlands umfram sólarlandaferðir þótt þær geti auðvitað verið ágætar þegar það á við. “Annað er slökun en hitt er ævintýri,” eru þau feðgin sammála um. Jóhannes hefur endurbyggt jeppa og breytt þeim í gegnum tíðina og hann hefur ekið nánast alla hálendisvegi sem hægt er að keyra og farið á marga jökla. Þær ferðir hefur hann farið á eigin vegum og er þess vegna orðinn þaulkunnugur landinu okkar. Jóhannes segir að hann hafi alltaf lifað fyrir þessar ferðir en aðalstarf hans er að vera þjónustustjóri í fyrirtækinu Umslagi þar sem hann hefur verið starfandi undanfarin 30 ár. Eðlilega segist hann stundum hafa hugsað að gaman væri að breyta um starfsvettvang en vinnustaðurinn sé búinn að vera góður allan þennan tíma svo tilefnið til að hætta hefur ekki komið upp. Hann er þakklátur fyrir að hafa fengið að þróast í starfi frá því að vera almennur starfsmaður upp í að vera stjórnandi. Hann viti hins vegar ekki hvert þetta nám sem hann fór í með dóttur sinni muni leiða hann, en hann fylgist spenntur með. Hann hafi líka fengið útrás á vinnustaðnum fyrir ferðabakteríuna með því að skipuleggja óvissuferðir fyrir starfsmenn einu sinni á ári í meira en 15 ár. “Þessar ferðir hafa verið geysilega skemmtilegar og allir hafa haft gaman af,” segir Jóhannes.

Upplifir ævintýrið upp á nýtt í gegnum dótturina

Það var í jappaferðunum sem áhugi Snædísar kviknaði og Jóhannes segir að hann sé núna að upplifa ævintýrið allt upp á nýtt. Hann hefur prófað flestar ævintýraferðir sem boðið er upp á hér á landi fyrir utan að hafa ferðast á eigin vegum í öllum veðrum og allt árið um kring. Auk þess hefur hann stundað bæði skotveiði og stangveiði. Nú er allt þetta ævintýri háð því að fólk eigi peninga því þessi ferðalög kosta mjög mikið, enn meira nú en tíðkaðist áður fyrr.

Jóhannes kennir Snædísi að veiða.

Þarf að takast á við það óþekkta

Snædís segir að hún sé pínu skelkuð að fara í ævintýraleiðsögnina því þar þurfi hún að takast á við hluti sem hún kunni ekki. Þar nefnir hún til dæmis skíðaferðir sem séu hluti af náminu. Þar sé hún ekki í góðum málum því hún kunni ekki vel á skíði en ætli að nota námið sem tækifæri að gera það sem hana hafi alltaf dreymt um en ekki getað fram til þessa. “Ég hef til dæmis alltaf öfundað fólk sem hefur getað farið í Silfru að kafa eða fara í ísklifur. Það kostar svo mikið að ég get það ekki núna. En á þennan hátt fæ ég tækifæri til að læra það sem hugurinn stendur til og ef vel gengur að gera það að atvinnu minni.”

Hefur prófað flest 

Jóhannes segist vera búinn að prófa flest í ferðamennskunni á Íslandi og nefnir “river rafting”, ísklifur, jöklaferðir og köfun. “Þessi baktería ágerist með árunum og þess vegna nýt ég þess ríkulega að sjá Snædísi takast á við ævintýrið,” segir Jóhannes og er hæstánægður með að vera sestur á skólabekk með dóttur sinni og það besta er að dóttirin nýtur þess líka að vera með pabba í skóla. Síðan má segja að ferðabakterían hafi tekið sér bólfestu í fleiri börnum Jóhannesar því eldri systir Snædísar, Sóley, er á kafi í vetrarferðamennsku ásamt stórum hópi vina. Jóhannes segist hafa gaman af að fylgjast með ævintýrum þeirra sem séu sér sannarlega að skapi því þau feti brautina ekki ólíkt því sem hann gerði á sama aldri.

Ritstjórn október 19, 2018 10:37