Eru starfslokin handan við hornið?

Þegar líður að miðjum aldri vakna margir upp við vondan draum og átta sig á að eftirlaunaaldurinn er handan við hornið. Þeir forsjálu gerðu sér snemma grein fyrir að til þess að geta átt ánægjuleg efri ár, sem getur verið ansi langur tími, væri  nauðsynlegt að byrja snemma að gera ráðstafanir. Hinir, sem því miður eru fleiri, geta nú brugðist við og gert ráðstafanir þótt það jafnist ekki á við undirbúning þeirra forsjálu. Eitt af því sem hægt er að gera er að fara á námskeið þar sem farið er yfir helstu atriði sem þurfa að vera í lagi þegar að starfslokum kemur.

Eitt af þessum námskeiðum ber heitið: Nýtt líf eftir starfslok” og er umsjónarmaður þess Sigþrúður Guðmundsdóttir, en hún er fyrrum mannauðsstjóri á eftirlaunum.

Breytingarnar eftir starfslok

Sigþrúður er sjálf fædd 1948 og var mannauðsstjóri hjá Landsvirkjun í 12 ár áður en hún hætti að vinna 65 ára gömul. Hún hefur í mörg ár staðið fyrir námskeiðum sem ætlað er að aðstoða þennan hóp en reynslan hefur kennt henni að margir í þessum hópi eiga það sameiginlegt að þekkja réttindi sín ekki nógu vel og sömu spurningarnar og áhyggjuefnin vöknuðu. Námskeiðið er hannað til að aðstoða fólk við að undirbúa sig og njóta þeirra breytinga sem verða eftir starfslok.

Á þeim tíma sem Sigþrúður starfaði sem mannauðsstjóri var hún búin að fylgjast með mjög mörgum fara á eftirlaun.

,,Rúmu ári eftir að ég hætti sjálf að vinna setti ég á laggirnar námskeið með öllum þeim þáttum sem ég vissi að fólk þyrfti að undirbúa sig fyrir þegar að þessu skeiði kæmi. Ég nefndi námskeiðið: ,,Nýtt líf eftir starfslok” og nú eru komin sjö ár síðan fyrsta námskeiðið var haldið.

Helstu áskoranir

Á þessu námskeiði segir Sigþrúður að fjallað hafi verið um allar helstu breytingar sem hafa þurfi í huga við starfslok á gagnlegan og skýran hátt. Þetta eru fyrst og fremst réttindi, tölvukunnátta og -viðmót, fjármál- og húsnæðismál, hvernig fólk ætlar að verja tímanum sem það fær þegar vinnu nýtur ekki lengur við og svo er það heilsan sem er eitt veigamesta atriðið að sé í lagi til að fólk geti notið frítímans sem það öðlast.

Dagskráin er eftirfarandi:

Lífeyrismál

Réttindi og skerðingar hjá Tryggingastofnun Ríkisins

Réttindi hjá Sjúkratryggingum Íslands

Eignastýring og séreignasparnaður

Húsnæðismál

Endurskipulagningu fjármála

Erfðamál og hjúskaparstaða

Áhrif hreyfingar og næringar á heilsufar

Tómstundir, félagslíf og áhugamál

Dvöl/búseta í útlöndum

Áhrifarík markmiðasetning til að tryggja árangur

Þegar upp er staðið geta allir verið sammála um að undirbúningur starfsloka sé verulega áríðandi. Nú er um að gera að hefja hann sem fyrst til að gera efri árin sem skemmtilegust. Sigþrúður heldur námskeiðin sín í samstarfi við fyrirtækið Vinnuvernd. Síðasta námskeið vetrarins hefst 21.mars. Það er þrír morgnar og frekari upplýsingar um það er að finna á vef Vinnuverndar. Sjá hér.

Ritstjórn mars 29, 2022 07:00