Með barnsaugum

Guðfinna Ragnarsdóttir framhaldsskólakennari hóf ævi sína upp á Skólavörðustíg, nánar tiltekið í Tobbukoti. Litla steinbænum sem Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir átti og bjó í og við hana var bærinn eða kotið kennt. Það eitt og sér er merkilegt því Þorbjörg var kjarnakona og Guðfinna heyrði auðvitað af henni og lífi hennar í æsku og að hafa slíka fyrirmynd er gott veganesti.

Þótt Guðfinna sé fyrst og fremst að segja frá sér og fjölskyldu sinni verður tíðarandinn í Reykjavík lifandi í frásögn hennar. Forfeður hennar og -mæður bjuggu í bænum mann fram af manni og segja má að bókin gefi innsýn í lífið í Reykjavík frá aldamótum tuttugustu aldar og fram á vora daga. Sjálf hefur hún sagt að tilgangur hennar með bókinni hafi verið lýsa einmitt þessu umhverfi, vinum sínum, fjölskyldu, vinnunni, náminu og allri þeirri gleði og sorg sem lífið býður upp á þegar börn og ungmenni stíga sín fyrstu skref eða eru á vori lífsins.

Bragð er að þá barnið finnur segir málshátturinn og vísar til þess að þótt börn séu almennt opin og tilbúin til að taka hlutunum eins og þeir birtast eru þau oft glögg og greinandi. Guðfinna upplifir miklar breytingar, frá þrengslunum í litla steinbænum og þar til hún flyst fjögurra ára gömul í Laugarneshverfið. Þar er mikil uppbygging á þessum árum eins og raunar í allri Reykjavík og duglegt fólk hamast við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Guðfinna býr á Hofteigi og gengur í Laugarnesskóla og fer þaðan í menntaskóla. Þetta er fyrsta kynslóðin sem á kost á að læra, láta drauma sína rætast og að baki standa foreldrar sem þráðu einmitt það að fá að mennta sig en gátu ekki. Hún fer til náms í Svíþjóð, lærir jarðfræði og blaðamennsku, kemur síðan heim og kennir við Menntaskólann í Reykjavík alla sína starfsævi. Það sem er sérstakt við bók Guðfinnu er að hún lýsir lífi alþýðunnar fremur en embættismannastéttarinnar. Margir munu án efa kannast við það andrúmsloft sem ríkir í bókinni, sambland af bjartsýni, framsýni og trú á land sitt og þjóð. Hér birtist nýtt lýðveldi í hnotskurn og aldamótakynslóðin sem mótaði börn þess.

Ritstjórn október 11, 2023 13:32