Arnbjörg Högnadóttir hefur lengi verið viðloðandi tísku og er þekkt fyrir töff og smart stíl. Hún var lengst af verslunarstjóri í Kultur og fór mikið á tískusýningar erlendis til að kaupa föt og fylgjast með nýjustu straumum og stefnum. Arnbjörg, eða Adda, eins og hún er alltaf kölluð, hefur gott og listrænt auga eins og þarf til að vera með fallega verslun og hefur það komið fram á samfélagsmiðlum á myndum þar sem hún hefur still upp fötum með fylgihlutum eða sýnt þau á sjálfri sér. Þannig hefur hún gefið konum hugmyndir um hvernig megi setja saman föt og fylgihluti.
Hvað þurfa konur að eiga í fataskápnum? „Konur þurfa að eiga fatnað sem þeim líður vel í og lýsir þeirra týpu eða karakter. Og umfram allt föt í réttum stærðum. Það sem mér finnst ég þurfa að eiga er: Síða ullarkápu og flottar gallabuxur, leðurstígvél, kósí rúllukragapeysu sem passar við allt. Hvíta fallega skyrtu, undir blazer, við gallabuxur og fleira og svo blazer-jakka. Ég er sjálf mikið fyrir svart, það er alltaf klassískt og svo jarðliti. Mér finnst þessi súkkulaðibrúni litur sem er núna mikið í tísku, æðislegur og svo djúpur litur,“ segir hún augljóslega mig hrifin. „Hann er svakalega fallegur og heillar mig mest af þessum litum sem eru núna í tísku. Þetta er litur sem hefur ekki sést í þó nokkurn tíma og það er svo gaman að sjá hann aftur, hann fer eiginlega öllum vel. Hermannagrænn og kamellitur eru orðnir klassískir, svolítið eins og svarti liturinn, mér finnst þeir alltaf vera með og eru líka fallegir.“
Vill líða vel í fatnaði við fín tækifæri
Það hefur færst í aukana að fólk klæði sig ekki upp á eða jafnvel þó að tilefni sé til þess og engin sérstök lína í því í dag.
Að klæða sig eftir tilefni, hvað finnst þér um það, á að fara algjörlega eftir því eða hafa að leiðarljósi? „Ég myndi segja að konur ættu að hafa það til hliðsjónar, en þar sem ég tel að kona ljómi mest þegar hún er sönn sjálfri sér þá eiga konur að vera í því sem þær langar mest og hafa sinn stíl.“
Sjálf segist Adda ekki vera mikið fyrir kjóla við fínni tækifæri þó svo að henni finnst þeir fallegir og gaman að sjá konur í fallegum kjólum. „Ég hef farið á síðkjóladansleik, í síðum kjól og hælaskóm, og mér leið eins og ég væri í grímubúningi. Þetta var bara alls ekki ég eða í mínum anda. Ef ég fer í kjól þá þarf ég að fara í einhverja klossa við. Það skiptir mig gríðarlegu máli þegar ég klæði mig og fer eitthvað að mér líði vel og ég held að margar konur séu þannig, annars er kvöldið ónýtt. Ég mynd frekar fara í hælaskó og flottar buxur en kjól en mér finnst það æðislega á öðrum konum. Ég hef reynt þetta en maður þarf að vera maður sjálfur, þá er maður líka ánægðastur,“ segir Adda.
Rokk og rómantík
Adda velkist ekki í neinum vafa um tískuna sem er núna enda fjölbreytt og allar konur ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Henni finnst tískan töff og flott og litirnir sjúpir og flottir.
Hvernig finnst þér tískan vera núna? „Tískan sem er núna er sko alveg að höfða til mín. Rómantíkin aðeins minna áberandi, þó að blúndur séu í tísku, mér finnst flott að blanda saman rokki og rómantík, blúndutopp eða blúndublússu við til dæmis töff leðurjakka, gallabuxur og kúrekastígvél. Töff fatnaður eins og leðurbuxur og leðurjakkar, hermannajakkar eru mikið núna. Og ég er líka mjög hrifin af litunum. Allir þessir súkkulaðibrúnu og búrgúndi litir eru algjörlega dásamlegir .“
Íslenskar konur hugsa vel um sig, kunna að klæða sig en mættu þora meira
Finnst þér íslenskar konur kunna að klæða sig og hvað finnst þér um stílinn þeirra? „Heilt yfir finnst mér íslenskar konur huga mjög vel um sig og hafa flottan stíl en mættu stundum þora meira. Annars er heill hellingur af konum sem koma upp í hugann sem mér finnst rosalega flottar týpur, Ragga Gísla er alltaf töff, Anna Margrét Jónsdóttir, fyrrverandi fegurðardrottning og Ragnhildur Eiríksdóttir flugfreyja. Mér finnst hún rosalega flott týpa en hún er óhrædd við að vera í alls konar litum og prjónar og saumar á sig og svo verð ég að nefna Magneu Lovísu sem ég vann með í Kúltur. Af þingkonunum vil ég að nefna þegar ég sá Guðrúnu Hafsteins og Rósu Guðbjartsdóttur við þingsetninguna. Rósa var í svakalega flottum dökkbrúnum satínbuxum með svartri rönd á hliðunum og ljósum jakka og Guðrún var í súkkulaðibrúnum kjól, sem var með slaufu og síðum böndum, og í beislituðum peysujakka við. Mér finnst skipta máli hvernig þingkonur og þingmenn eru til fara og ég klæði mig aðeins fínna þegar ég fer til að kjósa. Ég sýni þessu virðingu, annars verður allt hversdagslegt.“
Ilmvatnið má ekki gleymast
Hversu mikið finnst þér klæðnaður, fylgihlutir, hár og förðun spila saman? Fatnaður, förðun og hár er mikilvægt samspil til að ná heildarmynd að mínu áliti. Svo yfirgef ég aldrei heimilið án þess að setja á mig góðan ilm, mér finnst það mjög mikilvægt.“
Notarðu sumar- eða vetrarilm, dag- eða kvöldilm eða bara ilm eftir því hvernig þú ert stemmd, hvernig ilmur höfðar til þín? „Ég nota sumarilm og annan á veturna. Mér finnst skipta máli hvort það er heitt eða kalt úti. Mér finnst sumir ilmir ekki góðir í hita en mjög góðir þegar það er frost. Ég nota frekar kryddaðan ilm, blómailmur höfðar ekki til mín.
Svo finnst mér að konur ættu jafnvel aðeins að lýsa á sér hárið að nota aðeins mildari tóna með aldrinum og ekki nota svartan augnblýant og ekki heldur í augabrúnir, eða vera með of svart hár, það gerir konur grimmari.“
Er eitthvað sem konur t.d. á miðjum aldrei ættu að forðast eða vera duglegar við að vera í, nota? „Ég verð að nefna að þröngu æfingarbuxurnar á bara að nota í ræktinni. Annars hef ég aldrei sett aldurstakmark á föt og konum á að líða vel í því sem þær klæðast. Það er mikilvægt að fötin hreyfist með þér og þess vegna finnst mér finnst að þegar konur eru komnar á miðjan aldur að þær megi leyfa sér aðeins meiri lúxus. Kaupa sér færri en vandaðri föt, velja efni eins og leður, silki og kasmír.“
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna