Bridget Bate Tichenor fæddist með gullskeið í munni en kaus að beygja af leið og gera allt annað en búist var við af henni. Hún gekk eftir sýningarpöllunum hjá Coco Chanel, sat fyrir á ljósmyndum en kaus að gerast myndlistarmaður, setjast að í Mexíkó og mála dásamlegar súrrelískar ævintýramyndir.
Móðir Bridgetar, Vera Nina Arkwright var bresk aðalskona skyld mörgum evrópskum konungsfjölskyldum og pabbi hennar, Fredrik Blantford Bate meðal fyrstu útvarpsmanna í Bandaríkjunum. Þau kynntust þegar hún var sjálfboðaliði við ameríska sjúkrahúsið í París. Bridget fæddist í þar þann 22. nóvember árið 1917. Hjónin skildu árið 1929 og Vera giftist ítölskum riddaraliðsforingja, Alberto Lombardi. Hann var meðlimur í fasistaflokknum og náinn samstarfsmaður Benitos Mussolinis.
Síðar átti Vera eftir að vera handtekin fyrir njósnir af lögreglu fasista þótt hún væri sjálf þá gengin í flokkinn. Þau hjónin bjuggu í stórri höll í ríkismannahverfi í Róm en tíðar heimsóknir hennar í breska sendiráðið og tengsl við ýmsa frammámenn þóttu mjög grunsamlega eftir því sem stríðið varð heiftúðugra. Henni var haldið í viku en þá sleppt að skipun þýsku leyniþjónustunnar. En fulltrúi þaðan reyndi að fá hana til að njósna fyrir Þjóðverja og vildi flytja hana til Parísar til að hitta sína gömlu vinkonu og samstarfkonu Coco Chanel. Vera neitaði og eftir stríðið fordæmdi hún Coco fyrir tengsl hennar við nasista.
Móðir hennar skipulagði hjónaband hennar
Bridget ólst að mestu upp á Englandi en var send í skóla bæði í Frakklandi og á Ítalíu. Sextán ára fór hún til Parísar til að vera með móður sinni og þar sem stúlkan þótti einstaklega falleg fékk tískuhönnuðurinn Coco Chanel hana til að gerast módel. Bridget hafði hins vegar ekki neinn sérstakan áhuga á því starfi og hélt til London aftur og hóf nám í myndlist við Slade School. En hún sat af til fyrir hjá frægum ljósmyndurum og meðal þeirra sem tóku myndir af henni voru Man Rey, Cecil Beaton og Irving Penn. Árið 1939 skipulagði móðir hennar hjónaband hennar og Hugh Joseph Chisholm, ríks Ameríkana, að hluta til að koma henni burtu frá Evrópu þar sem allt stefndi í stríð en einnig til að festa framtíð hennar í sessi. Á þessum árum þótti enn að hagur kvenna væri best tryggður með því að gifta þær. Hugh var góður vinur Cole Porter og Lindu konu hans og það var í gegnum þau sem Vera náði samkomulagi um giftingu dóttur sinnar.
Þau fluttu til Kaliforníu og eignuðust soninn Jeremy. Síðar settust þau í New York. Hún varð strax mjög vinsæl meðal elítu þess tíma og Anaïs Nin skrifaði um hana í dagbók sinni og lýsti því hversu heilluð hún væri af þessari fegurðardís. Hjónabandið fór hins vegar í vaskinn þegar Bridget hitti Jonathan Tichenor árið 1943 í samkvæmi. Þá hafði eiginkonan unga aftur hafið nám í myndlist en jafnframt því gegndi hún starfi tískuritstjóra hjá Vogue á árunum 1945-52. Eftir að ástarsamband hennar og Jonathan hófst flutti Bridget inn á vinkonu sína Peggy Guggenheim í New York. Ári síðar skildi hún við Hugh og giftist Jonathan.
Í kringum Peggy hafði safnast stór klíka listamanna, einkum súrrealistum sem hún studdi með ráðum og dáð. Edward James, frændi Bridgetar, var einnig listaverkasafnari og einstaklega hrifinn af þeirri listastefnu. Hann styrkti tímaritið Minotaure og bauð Bridget að heimsækja sig til Las Pozas í Mexíkó. Þar hafði hann útbúið einstaklega fallegan garð sem var fullur af skúlptúrum eftir súrrealista. Hann var mjög andlega sinnaður og hafði kynnt sér shamanisma mexíkóskra indíána og orðið fyrir andlegri upplyftingu. Hann gekkst fyrir því að frænka hans væri tekin inn í töfrahring Aztec Tonantzin-safnaðarins. Trú þeirra gengur út á að fólk geti kynnst sjálfu sér og náð að uppfylla örlög sín með því að leitast reglulega við að ná sambandi við þá. Einnig telja þeir að allt líf á jörðinni tengist órjúfanlegum böndum.
Með fatlað starfsfólk og ótal dýr
Þetta bókstaflega kúventi lífi hennar og árið 1950 flutti hún til Mexíkó. Þar bjó hún það sem eftir var ævinnar og helgaði sig myndlist. Bridget þróaði tækni sem hún byggði á ítölskum sextándu aldar límlitaraðferðum. Listmálarinn Paul Cadmus kenndi henni grunninn í New York árið 1945. Hún málaði mikið á masonítplötur og notaði gifsgrunn til að ná fram þvi hefur verið eggjaskurnarlokalag eða eggshell finish. Ofan á það málaði hún með hálfgagnsæjum olíulitum og notaði litla pensla. Með þessu tókst henni að ná fram mildum áhrifum og einstökum litbrigðum. Málverk hennar eru einnig auðþekkt því algengt er að þar bregði fyrir margvíslegum töfraverum sem virðast gægjast út úr eggjum eða vaxa út úr eggjaskurn.
Hún keypti í byrjun sjöunda áratugarins búgarðinn Contembo. Hann stendur efst í brattri brekku við Patzcuaro-vatn. Hún réð til sín starfsfólk sem átti það sameiginlegt að vera annað hvort fatlað eða glíma við einhvers konar afbrigðileika er gerði það að verkum að þeim var útskúfað úr samfélagi sínu. Öllum var úthlutað ákveðnum skyldum og meðal annars má nefna að einn fatlaður maður hafði það starf að hleypa út tuttugu og fimm páfagaukum sem höfðu verið vandir á að sofa í skókössum við arininn. Hann sótti þá og kom þeim fyrir hverjum og einum á stöngunum sínum við sólarupprás. Það tók hann venjulega allan morguninn að sækja þá, koma þeim á sinn stað og gefa þeim að borða. Þegar líða tók að sólarlagi sótti hann þá og kom þeim fyrir í sínum kassa til hvíldar.
Hún safnaði einnig í kringum sig dýrum sem aðrir höfðu hafnað eða áttu um sárt að binda. Hún skapaði þarna ævintýralega veröld og endurspeglast hún sannarlega í myndum hennar. Hún taldi að dýr og menn gætu átt samskipti á andlegu plani. Hún var hlédræg og hafði sig lítt í fram. Þess vegna hélt hún fáar sýningar meðan hún lifði en seldi í nokkrum galleríum í Mexíkóborg. Seint á áttunda áratugnum heillaðist hún af grímum og þær fóru að koma fyrir í æ ríkari mæli í myndum hennar. Sennilega hefði hún gleymst og grafist í glatkistuna meðal fjölmargra hæfileikraríkra einstaklinga ef ekki hefði verið fyrir vináttu hennar við Zachary Zelig. Hann var bandarískur listamaður og rithöfundur sem settist að nálægt henni og skrifaði um kynni sín af henni. Tutic Makhlouf gerði um hana heimildamynd árið 1985 en einbeitti sér mest að lífi hennar í Evrópu og fyrirsætuferlinum.
Bridget lést 20. Október árið 1990. Það var svo árið 2012 að haldin var yfirlitssýning á verkum hennar í Mexíkóborg og þá opnuðust augu heimsins fyrir hversu magnaður listamaður hún var.
„Hún réð til sín starfsfólk sem átti það sameiginlegt að vera annað hvort fatlað eða glíma við einhvers konar afbrigðileika er gerði það að verkum að þeim var útskúfað úr samfélagi sínu.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.