Tengdar greinar

Listin að lifa skapandi lífi þrátt fyrir allt

Fjölskyldan á stofutónleikum hjá Kristínu Gunnlaugsdóttur fyrir þremur árum.

Örn Magnússon og Marta Guðrún Halldórsdóttir eru hjón sem oft eru nefnd í sömu andrá. Hann er frá Ólafsfirði en hún úr Reykjavík. Hann er píanóleikari og hún söngkona og þau hafa starfað mikið saman í tónlistinni. Síðar fóru börn þeirra tvö, Halldór Bjarki og Ásta Sigríður, að koma fram með þeim.

Píanóleikur aristokratísk iðja

Örn er upphaflega píanóleikari og var búinn að starfa sem slíkur í 25 ár þegar hann fór að læra organleik og kórstjórn. Áður segist hann hafa æft á píanóið í allt að fimm tíma á dag, en hefur nú gert hlé á því. Í dag starfar Örn sem organisti og kórstjóri í Breiðholtskirkju og segist alveg fá sína útrás með kórnum og við orgelið.

“Það er sko allt öðruvísi að vera gift organista en píanóleikara,” segir Marta brosandi. “Píanóleikarinn má aldrei gera neitt með höndunum annað en spila á píanó. Það fór alveg með fínhreyfingar ef hann þurfti til dæmis að halda á þungum hlut fyrir tónleika. En síðan hann fór að spila á orgelið er hann búinn að gera upp allt húsið, gera við glugga og yfirleitt allt sem aflaga hefur farið á heimilinu,” segir Marta og skellihlær. “Mér þykir ég aftur orðin heimasæta á heimili smiðs eins og þegar ég var yngri,” bætir hún við.

Nýtur þess aftur að taka til hendinni

Ásta leikur á sóprangígju sem Örn smíðaði og gaf henni í jólagjöf 2010. Örn leikur á altgígju og Marta hlustar á.

Örn segir að auðvitað sé Marta að ýkja en viðurkennir þó að hann njóti þess ríkulega að taka til hendinni við smíðar. “Þegar allt kemur til alls nýt ég lífsins enn betur eftir að ég setti kúrsinn upp á nýtt í lífinu og fór íorgelnámið. Pabba mínum fannst þetta nú ekki almennilegt starf sem ég ætlaði að leggja fyrir mig. Að geta aldrei dýft hendinni í kalt vatn og spila bara á píanó gat ekki verið vænlegt til langframa. Pabbi var sjálfur alþýðumaður, fæddur 1906, reri á trillu og stundaði sjóinn sem ungur maður og varð síðar verkstjóri í fiskverkun og loks bókari hjá fyrirtækinu.

Hefur mikla unun af handverki

Örn segir að það hafi í raun verið óþægilegt á meðan hann starfaði sem píanóleikari að geta ekki unnið eitthvað í höndunum. “Það liggur sköpun í handverkinu og ekki síst fyrir okkur sem erum vön að vinna með tímann, þ.e.a.s. tónverkið sem flutt er á tónleikum er horfið þegar þú ert búinn að spila það. Ef ég smíða hlut eða mála vegg er verkið til áfram til marks um það sem ég hef verið að vinna. Ég áttaði mig á að ég hef þörf fyrir að sjá eitthvað eftir mig,” segir Örn og brosir. 

Fékk snemma óstjórnlegan áhuga á píanóleik

Örn á tvo eldri bræður sem báðir eru tónlistarmenn. Foreldrar þeirra voru mjög söngvin og móðir þeirra lærði á harmoníum. Langafi hans var forsöngvari og afi hans kunni á orgel. “Þannig var að aldamótaárið 1900 höfðu nýlega verið byggðar allmargar timburkirkjur á Íslandi. Þetta ár gerði feiknalegt rok á norðurlandi og kirkjurnar fuku unnvörpum af grunnum sínum. Þetta var síðar kallað kirkjurokið mikla. Þá var nýbúið að kaupa lítið orgel í Kvíabekkjarkirkju í Ólafsfirði. Það lá undir skemmdum og var boðið upp. Afi minn keypti þetta orgel og það er upphafið á hljóðfæramenningunni í ættinni. Afi spilaði sjálfur á þetta orgel og kenndi börnum sínum.” Móðurbróðir Arnar var Sigursveinn D. Kristinsson sem stofnaði Tónskóla Sigursveins.

Söngurinn liggur í ætt Mörtu

Feðgarnir á stofutónleikunum. Halldór leikur á gemsuhorn og Örn á altgígju.

Faðir Mörtu hét Halldór Vilhelmsson og lærði upphaflega smíðar. Hann stundaði líka söngnám og varð með tímanum einn af þekktustu söngvurum landsins. Jafnframt söng og söngkennslu stundaði Halldór einnig smíðarnar. Marta segir að lengi vel hafi faðir hennar samt lifað af söng. “Pabbi slær mér alveg við með að lifa af óperusöng,” segir Marta og brosir. “Mamma söng líka mikið en þau kynntust í Pólýfónkórnum. Amma spilaði á píanó og í öllum boðum var mikið sungið, oftast í röddum. Við systkinin erum öll tónlistarmenn, Hildigunnur fiðluleikari og Sigurður sellóleikari. Þegar kom að því að ég veldi mér framtíðarstarf kom ekkert annað til greina en að læra að syngja. “Marta fór ung til Þýskalands að læra söng og hefur síðan starfað við að syngja og kenna söng allt þar til nýlega að hún vatt sínu kvæði í kross og skráði sig í Háskólann.

Greindist með parkinsonsveiki

Marta skráði sig í sagnfræði í Háskóla Íslands nú í haust. “Það gerði ég m.a. til að vinna bug á eigin fordómum um að það væri ekkert til nema tónlist,” segir hún og brosir. “Ég þurfti líka að vinna á bábilju um að ég gæti ekki skrifað íslensku því ég er hræðileg í stafsetningu,” bætir hún hlæjandi við.

Marta greindist með parkinsonsveiki fyrir nokkrum árum og það hefur hamlað henni við tónlistariðkun. Hún hefur tekið á því vandamáli á aðdáunarverðan hátt og ekki látið sjúkdóminn slá sig út af laginu meira en nauðsynlegt er. Hún hefur aftur á móti nýtt tækifærin sem hafa skapast “af því hún fékk sjúkdóminn” til að efla sig og styrkja á öðrum sviðum og komið sjálfri sér á óvart.

“Ég hef tekið þátt í mörgum spennandi verkefnum í gegnum tíðina og finnst ég vera búin að skila ágætis starfi í tónlistinni þótt ég gæti auðvitað hugsað mér að syngja meira, en nú eru kaflaskil. Ég hef kennt söng alla tíð og stjórnað kór. Nú hafa opnast nýjar dyr og ég finn að það er svo margt annað í lífinu en bara tónlist og hef rosalega gaman af því að feta mig inn á þessar nýju brautir. Ég er sem sagt að byrja að leita að því hvar styrkleikar mínir liggja á öðrum sviðum” segir Marta sátt og nýtur tónlistar jafnt sem áður þótt hún flytji hana ekki sjálf og færa má rök fyrir því að þetta viðhorf megi kalla “list að lifa skapandi”. “Ég kann svo mikið að meta það þegar aðrir leggja mikið á sig til að kenna mér,” segir hún því Marta hefur sannarlega reynslu af því að vera hinum megin við borðið.

Frá tónleikum í Danmörku 2007.Halldór heldur á langspili Sigurveins frænda síns, Ásta á gemsuhorni, Marta með lýru og Örn  með gígju.

Á tónleikum með börnunum 

“Ég er alinn upp við kveðskap,” segir Örn. “Pabbi kvað við mig þegar ég var barn og fór með vísur og ýmsan alþýðufróðleik. Hann var 53 ára þegar ég fæddist og ég á albróður sem er 22 árum eldri en en ég, Magnús, en hann varð minn fyrsti tónlistarkennari. Ég er í rauninni einni kynslóð “of seinn”. Þess vegna fékk ég líklega öðruvísi uppeldi en margir jafnaldrar mínir og hef alltaf verið nálægt gamalli menningu. Þegar við Marta fórum að koma fram saman voru oft og tíðum þjóðlög á efnisskránum og þá í útsetningum eftir höfuðtónskáldin okkar. Svo var það 2004 að við fórum ásamt Voces Thules og fleirum til Japan og þar var óskað eftir því að við flyttum tónlist á gömlu íslensku hljóðfærin. Sigursveinn frændi minn átti langspil sem enginn kunni svo sem að fara með. Ég fékk það hlutverk að vera langspilsleikari hópsins og tók nú að æfa mig á hljóðfærið hans frænda míns. Eftir að við lékum saman á langsplið og symfón þeirra Voces Thules manna varð ekki aftur snúið. Hljómurinn sem þá skapaðist snerti mig djúpt og forvitnin var vakin um hvaða hljóðfæri hefðu verið hér fyrr á öldum. Við fengum krakkana okkar til að spila og syngja með okkur þegar við komum heim. Þau urðu fljótlega áhugasöm og ég fékk tengdapabba til að aðstoða mig við smíði langspils og úr varð töluvert hljóðfærasafn af fornum hljóðfærum,” segir Örn. Upp úr þessu stofnuðum við tónlistarhópinn Spilmenn Ríkínís þar sem við flytjum lög úr íslenska tónlistararfinum og leikum á þessi fornu hljóðfæri. Sigursveinn bróðir minn var með okkur fyrstu árin. Ríkíní þessi, sem var ástvinur Jóns Ögmundssonar biskups, var ráðinn söngkennari við Hólaskóla eftir að hann var stofnaður 1106.”

Pabbi ég er svöng

Ásta með symfón og Halldór með trommu á Berjadögum á Ólafsfirði en Örn og Marta stofnuðu þá hátíð 1999.

Ásta Sigríður er nú  að læra söng í LHÍ og Halldór er í Basel í Sviss að læra á sembal. “Þau voru bara 7 og 11 ára þegar þau komu fyrst fram með okkur,” segir Marta. “Það var mjög þægilegt að draga athygli áhorfenda að þeim, því við vorum enn að læra á hljóðfærin“ segir Marta og brosir að þessum fyrstu skrefum þeirra með krökkunum á sviði.

Árið 2007 fóru þau Örn og Marta til Danmerkur með krakkana til dvalar og rannsókna á Melodia handritinu og fleiru. Þar  voru tónleikar í Kongegaarden. “Þetta var meira samvera en tónleikar og fólk spurði mikið um hljóðfærin og tónlistina. Svo var það einhvern tímann þegar ég var kominn af stað með kynningu að Ásta togar í mig og segir “pabbi, ég er svöng”. Svona uppákomur krydduðu bara tónleikana og er erfitt að komast hjá því þegar fjölskyldan er öll að vinna saman,” segir Örn og brosir að minningunni. “Krakkarnir skildu ekki fyrst út á hvað þetta gekk og voru ekki sérlega áhugasöm um æfingamálin. Það gat verið snúið þar sem þá var eftirspurnin eftir þessari syngjandi fjölskyldu orðin töluvert mikil. „En svo kom að þeim punkti að þau áttuðu sig á því hvað við vorum að gera og þá kviknaði áhugi þeirra fyrir alvöru. Þá var þetta ekki lengur mamma og pabbi og börnin heldur fjórir tónlistarmenn að vinna saman.“

Hljómdiskur væntanlegur

“Halldór Bjarki kom heim síðasta vor þegar skólinn lokaði ytra vegna covid. Þá datt okkur í hug að nú væri tækifæri til að klára að taka upp efni sem við höfðum byrjað að vinna 2016,” segir Örn. “Við undirbjuggum okkur vel og hljóðrituðum í Sýrlandi í lok apríl. Eftirvinnslu er að mestu lokið. Næsta vor er því væntanleg ný hljómplata Spilmanna Ríkínís og ber hún nafnið Gullhetta. Textar plötunnar fjalla um vorkomu og sumartíð og ýmiskonar ástarbrall sem  er jú fylgjandi þessum árstíðum.“

Marta segir að nú sé Ásta Sigríður tekin við söngnum að miklu leyti og hún sjálf njóti þess ríkulega að sjá hana taka við keflinu. Við Íslendingar erum rík þjóð að eiga slíka tónlistarfjölskyldu.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 11, 2020 07:16