Femínismi allra hagur

Rúnar Helgi Vignisson stígur fram af fáheyrðri einlægni og miklu hugrekki í bók sinni Þú ringlaði karlmaður, Tilraun til kerfisuppfærslu og opnar á einkalíf sitt og eigin bresti. Hann hefur lagt á sig ómælda vinnu við að kynna sér réttindabaráttu kvenna, kynjafræði og femínisma í bæði sögulegu ljósi og út frá skrifum kvenna sem hafa verið leiðandi í jafnréttisbaráttunni. Upplýsingarnar sem hann aflaði með því móti, nýja þekkingu sína og skilning notar hann síðan til að endurskoða líf sitt og afstöðu til kvenna. Hann kemst að ýmsu óþægilegu um sjálfan sig og skynjar stöðu kvenna í samfélaginu á annan hátt.

Hér er um að ræða sjálfsævisögulegt yfirlit frá nýstárlegu sjónarhorni. Það kemur fram Metoo-byltingin hafi haft djúp áhrif á Rúnar Helga og sömuleiðis fundur sem hann sækir um Klausturmálið svokallaða. Þar stíga á svið hver femínistinn á fætur öðrum og tala um orðræðu þingmannanna sem kusu að tjá sig á Klausturbarnum og hvernig viðhorf þeirra endurspegla samfélag sem fæst okkar vilja tilheyra. Allt þetta vekur Rúnar Helga til umhugsunar um hvernig hann hefur hagað lífi sínu. Gildi sem hann hefur ekki leitt hugann að, ýmislegt sem hann telur sjálfsagt en er það alls ekki og hvernig hann tjáir sig við kvenkyns nemendur sína í ritlist.

Hann kemur reyndar einnig inn á það að í skrifum þeirra endurspeglast oft sár reynsla þeirra af feðraveldinu og því sem kallað hefur verið eitruð karlmennska. Reyndar er Rúnar Helgi óvenjulegur síðmiðaldra karlmaður að því leyti að árum saman var hann heimavinnandi og helsti umönnunaraðili sona sinna. Hann upplifði að konan hans var lengst af tekjuhærri en hann og helsta fyrirvinna heimilisins. Hann taldi sig einnig hafa lagt sig fram um að taka jafnan þátt í heimilisstörfunum og sjá til þess að konan hans fengi einnig að njóta þess sinna sínum áhugamálum og hugðarefnum. Þegar litið er til baka og horft með kynjuðum gleraugum sér hann hins vegar að hugsanlega hefði hann getað gert betur og kannski sumt mátt vera öðruvísi.

Heiðarlegur og einlægur

Hann skoðar einnig samskipti kynjanna frá margvíslegum sjónarhornum og helsti kosturinn er hversu heiðarlegur hann er, einlægur og tilbúinn til að horfast í augu við óþægilegar staðreyndir. Jafnframt er hér um að ræða skarpa greiningu á sambandi hans við sjálfan sig, karlmennskuímyndirnar sem hann ólst upp við og samskipti sín við konuna sína. Það er ekki hægt annað en að dást að hugrekki hans og bókin er einstaklega vel unnin. Þetta er ítarleg og fróðleg samantekt og þarna er að finna ómetanlegar athuganir og upplýsingar. Margt sem meira að segja undirrituð sem taldi sig þokkalega vel lesinn femínista vissi ekki.

En viðhorf okkar til kynhlutverka og stöðu okkar sjálfra mótast ævinlega af eigin reynslu og litar alltaf þá niðurstöðu sem við komumst að þegar kemur að því hvernig mögulegt sé að byggja upp réttlátara og betra samfélag. Ég er sammála Rúnari Helga um mjög margt og held að það sé rétt mat að fólk ætti almennt að hlusta betur hvert á annað og leggja sig fram um að afla sér upplýsinga um það samfélag sem það býr í. Það er aldrei til góðs að fara í vörn og bregðast illa við þegar bent er á að hugsanlega hafi þín gildi og viðhorf eitrað líf annarra. Það er augljóst að við verðum að breyta samfélaginu á þann hátt að það rúmi alla. Rúnar Helgi talar um hversu illa drengir finni sig í skólakerfinu og segir:

„Vonandi úreldist neikvæði hlutinn í þessum kafla sem fyrst. Ég má ekki til þess hugsa að afadrengurinn minn lendi í skólakerfi sem ekki hentar honum.“

Ég er honum fyllilega sammála hvað þetta varðar því jafnréttisbaráttan snýst alltaf um næstu kynslóð. Ég má ekki til þess hugsa að sonardætur mínar lendi í skólakerfi þar sem þeim er ætlað að geta ekki lært raungreinar af því þær eru stelpur. Að þeim verði kennt að körfuboltaliðið þeirra sé lélegra en strákanna og leikir þeirra ekki eins spennandi. Að þær geti ekki verið öruggar um að verða ekki fyrir óumbeðinni áreitni karla í skóla, í vinnu, á götu og á skemmtistöðum. Sú tilhugsun er mér einnig óbærileg að þær geti orðið fyrir árás frá hendi vinar eða manns sem þær treysta og að í framtíðinni sé hugsanlegt að heimili þeirra verði ekki griðastaður heldur hættusvæði. Þannig er engu að síður staðan. En þetta er góð bók og verðugt framlag í umræðuna og það vekur von um að draga megi úr bakslaginu og jafnvel þokast fram á við að karlmaður sé tilbúinn að skrifa bók á borð við, Þú ringlaði karlmaður, Tilraun til kerfisuppfærslu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 3, 2025 07:00