Ferðalok Jónasar

Í Ferðlok fer Arnald Indriðason aðra leið en venjulega í bókum sínum en þetta eru engin gríðarleg umskipti. Hér er allt til staðar sem einkennir þennan góða rithöfund. Góð persónusköpun, mikil færni í að byggja upp umhverfi og aðstæður og ávallt ákveðin spenna hvað varðar örlög þeirra persóna sem hann kynnir. Þetta er ekki fyrsta sögulega skáldsagan Arnaldar, bæði Sigurverkið og Konungsbók voru skáldsögur byggðar í kringum ákveðna sögulega atburði. Núna heimsækjum við Jónas Hallgrímsson á dánarbeði og fylgjumst með honum rifja upp gamalt sakamál úr sveitinni hans í Öxnadal og stærstu ástina í lífinu. Að honum sækja líka efasemdir um eigið erindi og tilgang.

Þegar Jónas kemur heim í sumarfrí eftir fyrsta árið sitt í Lærða skólanum í Reykjavík hverfur ungur smali af nágrannabæ við Steinsstaði í Öxnadal. Þorkell Pálsson hafði verið lánaður að Þverbrekku í sömu sveit vegna fátæktar á heimili hans, Hraunshöfða. Jónas þekkti hann vel og vissi að hann þráði að menntast. Dag nokkur hverfur drengurinn og hvorki finnst tangur né tetur af honum. Orðrómur fer af stað í sveitinni þess efnis að Sigurður bóndi á Þverbrekku, þekktur fyrir ofsafengið skap, hafi drepið hann. Jónas og hans fjölskylda bera blak af fólkinu á Þverbrekku og Jónas yrkir kvæði, ádrepu raunar, sem hann beinir að einum þeirra bænda sem hvað ákafast ber út slúðrið.

En á dánarbeði sækir mynd Kela að Jónasi og hann er ekki viss um að hafa dæmt rétt í það sinn. Hann er líka efins um að rétt hafi verið að birta kvæðið Ferðalok í Fjölni og eins er hann kvalinn af samviskubiti vegna vinar síns Skafta Tímóteusar sem drukknaði í síki í Kaupmannahöfn. Jónas er hins vegar vinsæll maður og vinir hans koma í heimsókn einn af öðrum, reyna að hugga hann og hressa hann við í veikindum hans. Þarna birtast okkur menn á borð við Þorleif Repp, Guðmund Frater, Finn Magnússon og Japetus Steenstrup. Þeir ræða þau mál er hæst eru á baugi á þessum tíma og H.C Andersen og Charles Darwin eru nefndir. En þótt menn reyni að gleðja sjúklinginn og létta honum leguna er Jónas átakanlega einn. Hann er berst við fráhvörf eftir langvarandi misnotkun áfengis og nær ekki hvíld. Skáldið Jónas er í meðförum Arnaldar góður en breyskur maður. Konráð Gíslason vinur hans, mun harðari í lund og á auðveldara með að höndla heiminn.

Lesendur fá einnig að stökkva aftur í tímann og rifja upp dagana í sveitinni þegar leitin að Kela stóð sem hæst og getgátur um hvarfið risu hvað hæst. Arnaldur er ákaflega næmur mismunandi tíðaranda og nær að draga fram aldarfar nítjándu aldar á Íslandi, bæði í sveitinni og meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn. Frásögnin af dauða smalans unga er öll byggð á raunverulegum atburðum. Hins vegar var aldrei fullsannað hvað hefði gerst og Arnaldur byggir í kringum þetta gamla mál trúverðuga atburðarrás. Þar kemur vel í ljós harka hins gamla íslenska bændasamfélags og hvernig á öllum tímum menn reyna að forðast að taka afleiðingum gerða sinna. Arnaldi hefur tekist fádæma vel upp og náð að skapa áhugaverða og áhrifamikla sögu. Ferðalok kemur til með að rata í hóp uppáhaldsbóka undirritaðrar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 15, 2024 07:00