Ferðataskan og skartið í snjallsímann

Ferðalangar hafa sumir hverjir orðið fyrir því að ferðataskan fylgir þeim ekki á leiðarenda og þurfa þá að lýsa henni í smáatriðum fyrir flugvallarstarfsmönnum. Til að auðvelda þeim leitina og fyrirbyggja óþarfa málalengingar getur komið sér vel að taka einfaldlega mynd af töskunni með snjallsímanum. Smáatriðin eru enda oft fremur óljós í minningunni, t.d. ef taskan er svört með rennilás eins og flestar hinar á færiböndunum. Einnig getur flýtt fyrir ef taskan er skreytt litríkum borða eða lítilsháttar dinglumdangli til auðkenningar frá öðrum.

Allur er varinn góður

Með sama hætti er ráðlegt að eiga myndir í snjallsímanum af skartgripum eða öðrum munum, sem fólki eru kærir og það hefur með sér á ferðalögum. Ef þeim er stolið eða þeir glatast af einhverjum ástæðum, verða líkurnar meiri en minni að þeir komi í leitirnar fyrr en seinna – og gildir reyndar jafnt heima sem heiman. Í öryggisskyni hafa margir líka mynd af vegabréfinu í snjallsímanum eða eiga ljósrit af því á vísum stað. Þótt símamynd eða ljósrit af vegabréfi dugi kannski ekki til að flytja fólk um höf og lönd, kann forsjálnin að greiða fyrir útgáfu nýs vegabréfs, eða einhvers konar bráðabirgða skírteinis, a.m.k. er mælt með slíku fyrirkomulagi á gátlista VÍS.

Eins og nú háttar til á þó að vera hægt að komast úr landi án vegabréfs ef ferðinni er heitið til Norðurlandanna eða landa innan Schengen svæðisins. Samt er ekki öruggt að farþegar komist langt án þess því flugfélögin geta krafið þá um framvísun vegabréfs eða skilríkja. Á áfangastað geta vegabréfslausir líka lent í vandræðum því þeim sem ferðast á Schengen svæðinu er ætlað að hafi meðferðis gild persónuskilríki. Þess má geta að samkvæmt vef utanríkisráðuneytisins eru engin raunveruleg persónuskilríki gefin út hér.

 

 

 

Ritstjórn júlí 9, 2014 16:27