Mikilvægt að gera Vestmannaeyjarlögunum skil

Kristín Ástgeirsdóttir

„Ég var beðin um að skrifa bók um hann og mér fannst það virkilega verðugt verkefni. Ég þekkti hann líka persónulega, en hann var besti vinur pabba“, segir Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur og dóttir Ása í Bæ, en bók hennar um Oddgeir Kristjánsson tónskáld úr Vestmannaeyjum, Þeir hreinu tónar, kom út fyrir síðustu jól.  „ Mér fannst mikils virði að gera þessum arfi skil, Vestmannaeyjarlögunum, og þess vegna tók ég þetta að mér“, heldur hún áfram. „Þetta tók miklu lengri tíma en ég bjóst við, en það er gott að hafa góðan tíma því það er margt sem kemur upp í hendurnar á manni, þegar maður fer að leita.  Ýmsar bækur komu sér vel svo sem bók Kjartans Ólafssonar um kommúnistaflokkinn og sósíalistaflokksinn og Saga kaupfélaganna. Fjölskyldan hafði líka verið hirðusöm um gögnin hans og það var til mikið af bréfum til hans, en ég fann hins vegar ekki mörg bréf frá honum.  Fólk er svo mishirðusamt. Það þarf að leggja áherslu á að fólk hendi ekki gömlum sendibréfum. Það er hægt að gefa þau á Landsbókasafnið og ef efnið er viðkvæmt er hægt að kveða á um að þau verði ekki opnuð til dæmis næstu 50 árin“.

Það var erfitt fyrir fátækan pilt úr Vestmannaeyjum að komast í tónlistarnám fyrir 100 árum og frá því greinir í bókinni,  í kaflanum Tónlistarnám í Reykjavík.

 Í gögnum Oddgeirs er að finna texta skrifaðan í minnisbók sem gæti verið hluti af æviminningum. Textinn er merktur „riss, riss, riss“. Ekkert meira er að finna af svipuðum toga. Það sem er athyglisvert við þetta minningabrot er að þar lýsir Oddgeir draumum sínum og vonum, en hann var ekki vanur að lýsa tilfinningum sínum svo opinskátt í orðum. Þarna birtast einnig vonbrigðin sem fylgdu fátæktinni en svo birti til:

Hann var ungur og hugsaði hátt, en feimni hélt honum alltaf frá því að trana sér fram. Hann dreymdi um það að verða frægur fiðluleikari og tónskáld. Fiðlugarmur hafði honum verið gefinn, en enginn í byggðarlagi hans kunni neitt með fiðlu að fara. Í frístundum sínum sat hann og spilaði eftir eyra sínu, fegurstu lögin sem hann kunni.

Hann grét oft yfir því að geta eigi neinnar þekkingar aflað sér á fiðluna. Grét líka yfir því hvað tóninn var ljótur er hann spilaði. Þar vantaði bæði hreinleika í hann og hin guðdómlega hryn og tilbrigði sem hann hafði heyrt í fiðlu þýska snillingsins sem spilaði í byggðarlagi hans fyrir misseri. Það huggaði hann dálítið er honum var sagt, að hreinn og fallegur tónn kæmi ekki fyrr en eftir margra ára æfingu og lærdóm. Hann hafði eigi átt fiðluna nema í eitt ár.

Foreldrar hans voru fátæk og höfðu rétt málungi matar handa sér og börnum sínum. Sjálfur varð hann að vinna baki brotnu, og alla peninga er hann innvann sér fékk hann föður sínum. Oft datt honum í hug að aldrei myndi hann neitt geta lært vegna fjárskorts. Vonin varð þó oftast yfirsterkari. Hann hafði heyrt getið um og lesið um ýmsa mestu og bestu snillinga þjóðar sinnar, hvernig þeir frá bláfátækt hófu sig upp. Hærra og hærra. Hví skyldi hann þá eigi vera vongóður, treysta á Guð og sjálfan sig. Loks hafði hann safnað sér þeirri upphæð að 4 mánuði gat hann verið í höfuðstaðnum við nám.

Innilegur fögnuður gagntók hann er hann lagði af stað til höfuðstaðarins. Þegar þangað kom fór hann á fund besta fiðluleikarans og talaði við hann um nám sitt. Hjá þessum fiðluleikara lærði hann þessa 4 mán. og tók skjótum og góðum framförum. En mikið varð hann á sig að leggja. Sitja inni allan daginn við að æfa sig, en það var honum yndi og ánægja. Gangan að takmarkinu var hafin. Það hillir undir það í fjarska en hægt, ó svo hægt að ekki verður hann þess var, nálgast hann það.

 

Í bréfum til Oddgeirs frá vinum hans og Ólafi bróður hans sem stunduðu nám í Reykjavík undir lok þriðja áratugarins voru þeir sífellt að ýta á hann að drífa sig suður. Haustið 1930 kom tækifærið og eins og fram kemur í texta hans hóf hann nám hjá „besta fiðluleikaranum“, Þórarni Guðmundssyni, sem kenndi ótal nemendum og átti stóran þátt í að byggja upp tónlistarlíf í landinu. Námsdvölin hjá honum var Oddgeiri ómetanleg.    Lífsbaráttan var hörð í miðri kreppu. Mánuðina sem hann bjó í Reykjavík bjó hann með Árna úr Eyjum og æfði sig meðan hann var í skólanum. Þeir voru báðir staurblankir og þurftu að nýta alla möguleika til að sjá sér farborða og hita upp herbergið.  En grípum örstutt aftur niður í bókina.

Þótt Oddgeir væri duglegur að æfa sig hefur hann eflaust nýtt tímann til að bregða sér á Borgina eða Hótel Ísland til að hlusta á tónlistarmennina sem þar léku listir sínar. En – það voru erfiðir tímar og atvinnuþref. Að sinni gat Oddgeir aðeins dvalið í Reykjavík þennan vetur. Það var ekki nóg með að heimskreppa væri skollin á með verðhruni á fiski og vaxandi atvinnuleysi, heldur var barn á leiðinni. Alvara lífsins blasti við.

 

Ritstjórn mars 3, 2022 13:44