Ferðin sem ekki var farin

Anna og Eyþór, ferðamenn í eigin landi!

Anna Ragnarsdóttir (gælunafn Úgga) varð sjötug seint á síðasta ári og hélt upp á tímamótin með hvelli eins og hennar var von og vísa. En kannski með heldur meiri hvelli en hún hefði kosið en sagan er góð. Anna fékk afmælisgjöf frá börnunum sínum fjórum afhenta í sjötugsafmælisveislunni í október í fyrra. Gjöfin var ferð til New York þar sem fjölskyldan bjó í nokkur ár þegar krakkarnir voru ungir og þar höfðu þau öll átt stórkostlegan tíma. Anna var rosalega ánægð með hugmyndina og þá upphófst mikill undirbúningstími. “Aðdragandi ferða er gjarnan helmingurinn af ferðalaginu því tilhlökkunin og skemmtunin við að undirbúa og er svo mikil,” segir Anna. “Allir voru með sínar óskir um það sem þá langaði að gera og ég var alveg viss um það sem mig langaði að gera. Einn langaði mest í leikhús, annan að sjá “stand up”, þriðja að fara á uppáhaldsveitingastaðinn o.s.frv.

Flugfélag féll

Börnin skipulögðu vel heppnaða ferð um Ísland á mettíma.

“Svo rann brottfarardagurinn upp, sem var fimmtudagur, og allir búnir að pakka. Þá skall fréttin um fall WOW á Íslendingum og enginn trúði sínum eigin eyrum,” segir Anna. “Fréttin reyndist hins vegar vera sönn og þá upphófst mikill eltingaleikur við að komast frá landinu til New York því auðvitað vorum við búin að leggja í mikinn kostnað og undirbúning. Ferðin átti að vera fullkomið ævintýri í tilefni afmælis míns. Þetta var nú bara eins og hvert annað sjötugsafmæli og engin þörf á flugeldasýningu,” segi Anna brosandi. “En þetta afmæli verður sannarlega lengi í minnum haft. Bæði af því að þennan dag féll heilt flugfélag en líka af því að niðurstaðan varð sú að ferðin sem var farin í staðinn reyndist verða algerlega ómetanlega skemmtileg.”

Á þessum degi var Hönnunarmars að byrja í Reykjavík og mikið um að vera. Þau voru öll sammála um að láta fall flugfélags ekki skemma fyrir sér daginn heldur ákváðu þau að fara bara í bæinn þegar búið var að reyna allar leiðir til að komast úr landi. “Hönnunarmars er geysilega skemmtilegur viðburður í Reykjavík svo við gengum á milli staða og upplifðum alls konar ævintýri. Við ákváðum að vera saman alla helgina og fara á skemmtilega staði hérna sunnanlands sem reyndist ekki vera neinum vandkvæðum bundið að finna út úr,” segir Anna kát.

Mikið lífsnautnafólk

Afmælisbarnið naut ferðainnar fullkomlega í faðmi fjölskyldunnar ekki síður en þótt farið hefði verið til útlanda.

Anna og eiginmaður hennar Eyþór Ólafsson eru þekkt fyrir að vera lífsnautnafólk þar sem matur kemur mikið við sögu. Ljóst er að þau hljóta að borða rétt því þau líta bæði út fyrir að vera í kjörþyngd svo mataráhugi þeirra hlýtur því að liggja meira í gæðum en magni. Þau og börnin þeirra hafa ferðast gífurlega mikið saman og eins og eitt þeirra sagði einhvern tímann þá hafa borðað sig í gegnum heilu löndin. Þannig mótuðu þau Anna og Eyþór mataráhuga barna sinna og -smekk. Börnin þeirra eru fædd 1968, ´71, 78 og ´80, svona í tveimur hollum. “Fyrsti daga dagurinn í þessu endurskipulagða ferðalagi okkar endaði á Spánska barnum í Ingólfssræti í dýrlegum tapas réttum,” segir Anna. “Á föstudeginum byrjuðumn við á að fara í langan „brunch“ í Mathöllinni í Höfða sem hafði nýverið opnað. Svo ákváðum við að vera áfram túristar í Reykjavík, skoðuðum alls konar hönnun sem var úti um allt og enduðum á að fara á Matbarinn á Hverfisgötu þar sem við  fengum dýrlegan kvöldverð og vorum þar fram eftir kvöldi. Síðan vill svo til að elsta dóttir okkar á innréttaðan ferðabíl þar sem fer vel um sjö manns í sætum þannig að við komum okkur vel fyrir, fylltum bílinn af alls konar lúxus og héldum af stað. Mér leið eins og við værum táningar að fara í helgarferð saman,” segir Anna hlæjandi. “Við gerum þetta bara með stæl,” sögðu krakkarnir og komu meira að segja með réttu glösin fyrir hvert tilefni. Fyrst ókum við í Friðheima þar sem tekið var á móti okkur með miklum virktum en önnur dóttir okkar starfar í ferðabransanum og var búin að hringja á undan okkur svo móttökurnar voru stórkostlegar. Þaðan fórum við í göngutúr að

Allir saman í einum bíl.

Brúarfossi sem er stórkostlegt náttúruvætti, u.þ.b. klukkustunda gangur. Og af því veðrið var ekkert sérstakt þá vorum við svolítið köld, blaut og hrakin en það gerði ekkert til,” segir Anna hlæjandi. “Á leiðinni hittum við svo marga sem við þekktum sem var mjög sérkennilegt því flestir ferðamennirnir voru kínverskir túristar á ferð. Við vorum auðvitað með veitingar með okkur og gátum boðið með okkur. Að launum fengum við svo  bílferð til baka sem var mjög notalegt af því veðrið hafði versnað og ferðinni var þá heitið í Secret lagoon sem er algerlega heillandi staður. Þar máttum við skála í kampavíni og vorum lengi dags í notalegheitum. Við gistum síðan á Icelandair hótelinu á Flúðum og fengum árbít þar morguninn eftir.  Þá hafði veðrið versnað svolítið svo við fórum í skoðunarferð á Flúðum þar sem er svo mikil ræktun, t.d. svepparæktun og margt fleira. Svo keyrðum við langa leið til baka, m.a. í gegnum Þjórsárdalinn og skoðuðum allt sem við gátum.

Hringnum lokað í Reykjavík

Síðasta stoppið var síðan í Hveragerði þar sem við komum við í sundlauginni áður en við lokuðum hringnum í Reykjavík. Þá vorum við búin að vera saman í bíl frá því á fimmtudegi,” segir Anna og þessi óvænta ferð um íslenska ferðamannastaði reyndist verða stórkostleg í alla staði. Þau ætla reyndar að láta New York ferðina rætast og nýta allan undirbúninginn sem farið hafði fram fyrir fall flugfélagsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn júlí 26, 2019 07:31