Revíur og kaffihúsastemning hjá Félagi eldri borgara

Er ekki kominn tími til að gera sér glaðan dag? er yfirskrift dagskrár sem Félag eldri borgara í Reykjavík efnir til nú í vikunni. Félagið fékk þá Örn Árnason og Jónas Þóri píanóleikara til fara með gestum í skemmtilegt fortíðarflug í tali og tónum. Mörg af þekktum íslenskum dægurlögum eiga uppruna sinn í revíum fyrri tíma, en kapparnir ætla að rifja upp þessar perlur í sal FEB í Stangarhyl 4, fimmtudaginn 14. og föstudaginn 15. október. Lagt er upp með að eiga notalega og skemmtilega stund saman með „kaffihúsastemningu“ þar sem hægt verður að kaupa sér fljótandi veigar. Covid setti stórt strik í félagslíf eldri borgara eins og annarra, en nú er það að fara í gang aftur af krafti og ýmislegt í boði eins og sjá má hér,

Skemmtunin verður báða dagana frá kl. 17.00 til 18.30 og kostar einungis 3.500 kr. inn á gleðina.

Forskráning er nauðsynleg og fer skráningin fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588-2111 eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is.

Ritstjórn október 12, 2021 07:51