Fermingarbarnaferð safnar ekki ryki

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar:

Ég kom við á ferðaskrifstofu eftir vinnu og gekk frá bókun á flugi, lest og hótelum. Fermingargjöfin frá ömmu og afa. Við erum þegar búin að fara fimm fermingarbarnaferðirnar, til Rómar, New York í tvígang, Minneapolis og San Fransico. Nú liggur leiðin til Berlínar og Kaupmannahafnar. Unglingarnir koma með tillögur og svo vinnum við saman að ferðaplani.

Þessar fermingargjafir eru okkur ótrúlega verðmætar. Að eiga tíma á erlendri grund  með unglingi er gefandi. Þar trufla ekki pabbi og mamma, vinir eða i-paddar. Við upplifum ævintýri með þeim sem við myndum aldrei lenda í ef við værum ein á ferð. Dýragarðar, leikrit á Broadway, sigling inn í hellinn fagra á Capri, lífleg messa í Harlem, árabátar í Central Park, leit að fallegum steinum við Lake Superior og gönguferð yfir Golden Gate brúnna. Verkefnin eru endalaus og  öll á forsendum þess nýfermda.

Ég var að lesa í dagblaði viðtöl við fermingarbörn um föt og gjafir. Við hliðina voru auglýsingar um öll heimsins tæki sem hægt væri að gefa fermingarbarninu. Við duttum niður á okkar lausn strax þegar elsta barnabarnið fermdist. Ferð með þeim er eitthvað sem fer ekki upp í hillu og safnar ryki.

Myndir og minningabrot eru óteljandi úr þessum ferðum. Sumt er spaugilegt, annað ekki. Okkur fannst ekki fyndið að vaða upp í hné í úrhelli á Manhattan, eða sannfæra örmagna ungling um að hann kæmist aftur til baka gangandi yfir Golden Gate brúnna. Mér var ekki skemmt þegar eitt þeirra vildi ekki fara úr dýragarðinum í Róm fyrr en búið var að taka mynd af hverju og einasta lifandi kvikindi í dýragarðinum og það í 40 stiga hita!  En að sjá ljómandi augu þegar sýningunni á Mömmu Míu var lokið, sjá róðrarkappa lenda eftir ferð út á Vatnið mikla og fara í kvöldheimsókn niður á torg í Róm, sleikja ís og horfa á mannlífið. Þetta eru minningabrot, sem týnast aldrei.

Ég er ekki kirkjurækin en þökk sé fermingunni þá höfum við fengið að kynnast nýjum hliðum á barnabörnunum okkar og þau nýjum hliðum á okkur.

Enn eru tvö barnabörn á biðlistanum. Við erum strax farin að telja niður. Reyndar munu þeir ekki fermast en fermingin er í raun aukaatriði. Aðalatriðið er að taka frá tíma og fá tækifæri til þess að upplifa saman ævintýri áður en barnsleg gleðin víkur fyrir alvarleika táningsáranna.

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir mars 18, 2019 08:04