Undirbúa línudanskeppni á Kínamúrnum

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Þegar ég segi erlendum ferðamönnum að ég hafi byrjað að vinna fullan vinnudag í frystihúsi þegar ég var tólf ára gömul, sé ég undrunarsvip á þeim og les orðið barnaþrælkun út úr andlitum þeirra. Ég reyni að draga þau upp úr pyttinum strax og útskýri að þetta hafi verið venjan þegar ég var ung. Svo bæti ég við að þetta hafi gert að verkum, að ég var fjárhagslega sjálfstæð, keypti öll föt á mig og skólabækur og lærði það sem var ennþá mikilvægara – ég lærði gildi menntunar. Ég komst þarna að raun um að mig langaði ekki til þess að verja lífi mínu í það að vinna í fiski. Ég lærði líka að bera virðingu fyrir fullorðnu samverkakonunum mínum sem áttu ekkert val um störf vegna skorts á menntun.

Eftir á að hyggja byrjaði vandi minn þarna á blautu frystihúsgólfinu. Eftir það hef ég aldrei kunnað að vera til án vinnu og án þess að vita að það biðu mín verkefni og áskoranir. Þegar stóru tímamótin voru á næsta leiti, sjötugsafmælið, fór ég í leiðsögumannaskólann. Í stað þess að lesa dagblöðin í tætlur og verða veik í maga af kaffidrykkju og tilgangsleysisþunglyndi, fór ég að taka á móti jafnöldrum mínum frá Bandaríkjunum, sýna þeim landið mitt, kynna þá fyrir fólki og miðla því sem ég hef safnað í sarpinn í gegnum langt og tilbreytingaríkt líf.

Ég fræddi þá og þeir fræddu mig líka. Ég komst fljótt að því að okkur bar mikið á milli í sambandi við eftirlaunaárin. Í þeirra augum er það sjálfur tilgangur lífsins að geta hætt að vinna. Því fyrr, því betra, enda hefst sjálft lífið við starfslok.

Ég man að þegar ég var um 35 ára gömul í námi í Bandaríkjunum var fólk að spyrja mig hvað ég ætlaði að gera þegar ég kæmist á eftirlaun. Þá vissi ég varla hvað eftirlaun voru og taldi nær að ég yrði spurð hvað ég ætlaði að gera að námi loknu. En eftirlaunaaldurinn er í þeirra augum bleikur draumur.

Ferðalangarnir mínir skilja ekki hvernig ég nenni að eyða tíma með þeim í rútu með hljóðnema í hönd.  Nú þegar sumartörnin er að baki og ég er komin í smáleyfi til þess að hvíla mig, fór ég að velta þessu fyrir mér. Af hverju er ég svona? Er ég kannski ein um það að þurfa fyllingu í líf mitt eftir sjötugt ? Ég held ekki.

Hvað getum við lært af fólkinu vestanhafs? Auðvitað veit ég að margir Bandaríkjamenn hafa það mun betra fjárhagslega en mörg okkar og að við sitjum uppi með meingallað eftirlauna- og trygginakerfi. En það ekki bara það. Margir af sumargestunum mínum segja mér frá því sem þeir hafa fyrir stafni. Það er allt frá því að vera sjálfboðaliðar í skólum við að kenna erlendum nemendum tungumálið og upp í það að vera að undirbúa línudanskeppni á Kínamúrnum. Aðrir hitta gönguhópinn sinn daglega, aðrir bútasaumsklúbbinn eða eru að læra stjörnufræði. Listinn er endalaus.

Mér er þetta umhugsunarefni. Þetta er ekki bara spurning um eftirlaun heldur um tilgang. Að vakna að morgni og hafa eitthvað skemmtilegt sem bíður. Mín tillaga er sú að við setjumst niður í hverju byggðarlagi  fyrir sig og veltum upp þeirri spurningu hvernig við, 70 ára og eldri, getum orðið virkari í samfélaginu, bæði fyrir okkur sjálf og aðra.

Kynslóðin sem nú er að fara út af vinnumarkaði er betur menntuð, með meiri reynslu og þekkingu en nokkur af fyrri kynslóðum. Við getum lyft fjöllum saman ef við viljum og þá um leið minnkar svarta holan sem svo margir detta ofan í. Það hefur aldrei verið malað undir okkur og því veit ég að þetta gerir enginn fyrir okkur. Við verðum sjálf að taka saman höndum og miðla því sem við eigum – okkur til gleði og öðrum til góða.

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir september 30, 2019 07:09