Gríðarlegt dulið atvinnuleysi hjá miðaldra fólki

Ólafía B Rafnsdóttir

Ólafía B Rafnsdóttir

Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR sagði í morgunþætti rásar eitt, á fimmtudag að fólk eldra en 55 ára , sérstaklega konur, væru í auknum mæli að missa vinnuna. Mörgu af þessu fólki gengi illa að fá vinnu við hæfi aftur og margir gæfust upp á atvinnuleitinni. Hún sagði að þegar rýnt væri í opinberar tölur um vinnumarkaðinn kæmi í ljós að í hópnum  „tilbúinn að vinna en ekki að leita að vinnu“  væru um 8000 manns, þar af  3.300 karlar og 4.700 konur, eða 7,7 prósent af fólki á vinnumarkaði. Flestir þeirra 55 ára og eldri. „Þetta staðfestir að það er eitthvað undirliggjandi á vinnumarkaðnum sem við verðum að skoða betur. Þetta er fólkið sem er búið að vera lengst út á vinnumarkaðnum og með mesta þekkinguna.Við verðum að halda því á vinnumarkaði,“ sagði Ólafía. Hún sagði ennfremur að það væri tilhneiging hjá atvinnurekendum að ýta eldra fóki út af vinnumarkaðnum og ráða í staðinn ódýrara vinnuafl, yngra fólk sem ætti ekki kröfu á jafnháum launum og ætti minni orlofsrétt.  VR telur atvinnuleysi mun meira en Hagstofan sem telur að það sé um 3,2 prósent og Vinnumálastofnum sem telur það 2,6 prósent. Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar var gestur á morgunvakt rásar 2 á fimmtudag. Hann efaðist um tölur VR um dulið atvinnuleysi. „Mér finnst þetta djarfar tölur hjá VR,“ sagði Gissur. Þessa dagana væri mikil eftirspurn eftir fólki.  Hann sagði þó skorta dýpri rannsóknir á vinnumarkaði. „En eins og sakir standa nú geta allir fundið vinnu, kannski ekki draumastarfið, en fólk getur fengið vinnu,“ sagði hann.

Ritstjórn maí 12, 2016 12:39