Fyrir skömmu notaði ung kona orðið ljúflestrarbók til að lýsa nýútkominni bók sinni. Þetta var í fyrsta sinn sem undirrituð heyrði þetta orð en það á einkar vel við þá tilteknu bókmenntagrein sem það vísar til og er einstaklega fallegt orð. Þess vegna verður það notað um þær bækur sem hér á eftir verður fjallað um. Þetta er notaleg afþreying þar sem ganga má að því vísu að allt fari vel og þess vegna henta þessar bækur einstaklega vel sem lesefni í fríi.
Sólardagar og Sjávargola
Jodie Jackson stefnir hraðbyri í kulnun. Hún hefur grun um að eiginmaður hennar sé að halda framhjá henni og í langan tíma hefur hún unnið alltof mikið. Hún flýr þess vegna frá London, frá vandamálum sínum og fær lánaðan nýuppgerðan húsbát bróður síns á eynni Wight. Helst af öllu þráir hún einveru, þögn og hvíld en hún er varla komin um borð í bátinn þegar hávaðsöm, skvaldrandi kona í skræpóttum fötum birtist. Í ljós kemur að Bill bróðir hennar hefur beðið Marylyn að líta til með henni og brátt kemst Jodie að því að fleiri eyjarskeggjar eru áhugaverðir og kannski ekki alveg eins góð hugmynd og hún hélt í byrjun að halda sig frá öllu mannlegum samneyti.
Hún er vissulega á flótta frá vandamálum sínum í stað þess að horfast í augu við þau en Jodie er mjög viðfelldin persóna og lesandinn hefur mikla samúð með henni.Carole Matthews er skemmtilegur penni. Það er kímni í skrifum hennar og henni er lagið að lýsa umhverfinu á áhugaverðan hátt. Til dæmis var ekki hægt annað en gúgla Isle of Wight að lestri loknum og skoða, the Needles og fleiri ferðamannastaði. Þetta eru einmitt helstu kostir ljúflestrarbóka og Jodie nær aftur ljóma og lit í andlitið, byrjar að borða og finnur út hvað hún vill í lífinu.
P.S. Ég elska þig
Fyrir unnendur ljúflestarbóka er mikill fengur að fá þessa einstaklega fallegu ástarsögu Ceceliu Ahern á íslensku. Margir muna eftir kvikmyndinni sem gerð var eftir sögunni með Gerald Butler, Hilary Swank og Jeffrey Dean Morgan í aðalhlutverkum. Sagan segir frá ekkjunni Holly sem er þess fullviss að hún geti ekki lifað án eiginmanns síns, Gerry. Það er þó engu að síður staðan og hún verður að halda áfram sama hversu ómögulegt það virðist.
Þegar hún finnur bréf frá Gerry með fyrirmælum um að opna eitt í hverjum mánuði ákveður hún að gera eins og hann segir henni í hverju bréfi. Smátt og smátt leiða þessi skilaboð hana í gegnum þoku sorgar og örvæntingar til ofurlítillar vonar um að lífið sé ekki búið og að hún geti eftir allt saman ekki bara tórað heldur raunverulega lifað. Bæði Gerry og Holly eru einkar vel útfærðar persónur og hið sama má segja um vini Hollyjar, Denise, Sharon og John. Fjölskylda hennar er sömuleiðis skemmtilega skrýtin og lifandi. Þetta er áhugaverð stúdía á sorg og sorgarferli þótt á sögunni sé vissulega ævintýrabragur en það er einmitt tilgangur ljúflestrarbóka, að lyfta andanum, gefa von og gera erfiðum málum skil á þann hátt að kveiki bjartsýni með lesandanum.
Lofaðu mér því
Skjótt geta veður skipast í lofti og Lou fær að kynnast því þegar hún missir vinnuna og íbúðina sína í einu vetvangi. Skyndilega þarf hún að endurskoða líf sitt og ákveða hvað hún eigi að gera í raumtíðinni. Lou ákveður að heimsækja vinkonu sína og þar hittir hún Edgar sem verður sannkallaður örlagavaldur í lífi hennar.
Þau hittast þegar Edgar dettur úti á götu og Lou hjálpar honum. Hann verður stórhrifinn af henni og býður henni starf umönnunaraðila síns en Lou er þegar í vinnu og ætlar sér ekki að breyta því. Edgar gefst ekki upp og hann er vellauðugur og til að ná fram vilja sínum lofar hann að arfleiða Lou að eigum sínum. Það að flytja í lítið þorp í Cotswold-héraði á Englandi var sannarlega ekki á dagskrá hjá Lou. né heldur að vinna fyrir hinn áttræða og skapvonda Edgar Allsopp. En allt er hey í harðindum og Edgar á eftir að koma henni á óvart sömuleiðis hversu sjarmerandi Remy, einn þorpsbúanna er.
Þetta er notaleg og skemmtileg saga með mörgum áhugaverðum karakterum en það verður að segjast eins og er að skemmtilegasti karakter þessarar bókar er Edgar. Samskipti hans og Lou er það sem gefur sögunni líf og lit.
Nýtt líf
Darcy Gray er áhrifavaldur. Hún heldur úti bloggi, Gráa svæðið og er með meira en milljón fylgjendur. Að mörgu leyti er hún ánægð með líf sitt, eiginmanninn Charles Gray og tvíburadætur þeirra sem eru báðar fluttar að heiman og farnar að njóta sín hvor á sínum stað. En þegar hún ákveður að fljúga til Rómar og koma manni sínum á óvart á tuttugu ára brúðkaupsafmæli þeirra fær hún mikið áfall og flýr til Parísar. Þar verður hún innlyksa vegna COVID. Hún er einangruð þar til hún kynnist roskinni franskri kvikmyndastjörnu og bandarískum verkfræðingi sem er fastur eins og hún í stórborginni.
Smátt og smátt nær hún áttum og skynjar að lífið er ekki búið þótt allt sem hún trúði og treysti á hafi reynst byggt á sandi. Þetta er falleg saga um þrautseigju og lífsvilja og hvernig hægt er að sjá eitthvað gott í jafnvel vestu aðstæðum sem maður hefði getað hugsað sér. Ekkert er öruggt í þessu lífi og oft þarf fólk að byggja nýtt líf úr rústum þess gamla.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.