Finna fyrst fyrir því að muna ekki nöfn

Ingunn Stefánsdóttir geðhjúkrunarfræðingur heldur fyrirlestra um minnisþjálfun á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, sem hún kallar Gott minni gulli betra.  Hún segir að milli 40 og 50 manns sæki yfirleitt þessa fyrirlestra og þeim þyki þetta áhugavert efni. „Menn ganga ekki út af þeim með betra minni“, segir hún brosandi, en það er búið að vekja athygli þeirra á hversu mikilvægt þetta er og að til eru leiðir til að þjálfa minnið. Það hefur verið sannað að markviss minnisþjálfun dregur úr einkennum heilabilunar, eða frestar minnisglöpum“, segir hún.

Hugsa ekki nóg um minnisþjálfunina

Ingunn segist hafa tekið langt námskeið um minnisþjálfun fyrir 12 árum, en leiðbeinendur komu frá Tekklandi og Þýskalandi. „Það er búið að keyra þetta víða“, segir hún, en hún hannaði uppúr þessu fyrirlestur og kom á laggirnar skipulagðri minnisþjálfun eldri dvalargesta á HNLFI. „Markmiðið er einfalt. Það er að vekja athygli fólks, á mikilvægi þess að þjálfa heilann, alveg eins og líkamann. Ég held að það sé misbrestur á því að fólki hugsi nógu vel um það“.

Þurfum áreiti og örvun

Ingunn segir að þegar hægist um hjá fólki og það hætti að vinna, minnki áreiti á það mikið. „Það þarf mikið áreiti og mikla örvun til að halda sér skörpum. Lítið áreiti og mikil vanafesta eru verstu óvinir minnisins. Það að gera alltaf sama hlutinn eins og vera mikið einn heima og útaf fyrir sig“, segir hún, en á móti komi svo að menn þurfi líka röð og reglu í lífi sínu. „Maður sér þetta best á stofnunum fyir aldraða. Fólk kemur þar inn nokkuð frískt hugrænt séð, en svo sést að það verður aðgerðarlítið og sljóvgast. Það fær svo lítið áreiti. Það þarf að huga að tómstundum og viðfangsefnum fyrir eldra fólkið, ekki bara að sinna grunnþörfum þess“.

Brjóta upp vanann

En hvernig er þá best að þjálfa minnið?  „Það er í fyrsta lagi gert með því að brjóta upp vanann“, segir Ingunn. „Fara ekki alltaf sömu leið í gönguferðinni, fara ekki alltaf í sömu verslun. Það er líka gott að skrifa niður það sem á að kaupa. Við gleymum kannski miðanum heima, en það er allt í lagi, því við munum það sem við skrifuðum á hann. Í öðru lagi skiptir máli að þjálfa einbeitingu og athygli. Breyta einhverju heima hjá sér, til dæmis í fataskápnum, þetta þurfa ekki að vera stórar breytingar. Það er líka mjög gott að pússla, því það þjálfar svo margar minnisstöðvar. Það þarf að glíma við mismunandi form, það þarf að flokka bitana og þeir eru mismunandi á litinn“.  Annað sem Ingunn mælir með til að þjálfa minnið eru krossgátur, sudoku, að segja frá einhverju, eða lesa upphátt en þá man maður textann betur.

Að tengja nöfn og andlit

Að raða saman, flokka, reikna, tungumálið okkar og nöfnin, allt er þetta í vinstra heilahvelinu sem stjórnar hægri helmingi líkamns og svo öfugt með hægra heilahvelið, segir Ingunn. „Þar eru stöðvarnar sem geyma tónlistina, ímyndunaraflið, það að þekkja mynstur, þetta hugræna atferli sem við temjum okkur“, segir hún. „ Minnisstöðvarnar sem gera okkur kleift að tengja saman andlit og nafn, eru í sitt hvoru heilahvelinu og nöfn eru oftast með því fyrsta sem fólk hættir að muna. Flestir eru annað hvort sterkari í vinstra heilahveli eða því hægra. Fæstir jafnsterkir í báðum. Þess vegna notum við oftast þá minnistækni að tengja nafn og andlit við annað sem gott er að muna. Hvar hitti maður viðkomandi, var maður með honum eða henni í skóla eða vann maður með henni einhvers staðar? Ef við tengjum fólk við eitthvað slíkt er auðveldara að þekkja viðkomandi með nafni.

Endalaust hægt að bæta við

„Þetta er allt þarna, það er málið“, segir Ingunn. „Langtímaminnið er þarna og á meðan við verðum ekki fyrir áföllum né fáum heilasjúkdóm getum við endalaust bætt við það. Stundum verður erfitt að muna hlutina, en þá er gott að notfæra sér þessa minnistækni, til dæmis að tengja fólk við staðinn þar sem maður kynntist því. Bjó hún kannski einhverntíma í næstu götu?  Stundum erum við annars hugar þegar við erum kynnt fyrir einhverjum og einbeitum okkur ekki að því að leggja nafn hans á minnið. Við gleymum einnig að einbeita okkur að einhverju til að tengja viðkomandi við, til að muna nafn hans og andlit“.

Skammtímaminni hrakar við ákveðnar aðstæður

Skammtímaminnið virkar öðruvísi. „Ef þú leggst í rúmið á sjúkrahúsi í 3-4 vikur, ert á einbýli og færð kannski engar heimsóknir, finnur þú að skammtímaminninu hrakar. Sama gildir um streitu og spennu. „Fólk með starfskulnun finnur til að mynda fyrir einbeitingarleysi og streituhormón „blokkar“ hæfileikann til að muna. Þetta kemur til af kvíða“, segir Ingunn. Hún segir að þeir sem eldri eru, hætti kannski að nenna að lesa, eins og þeir gerðu áður og  hætti að tileinka sér helstu nýjungar. „Það er algengt. Fólki finnst ekki taka því, nennir því ekki og hefur ekkert við það að gera að eigin mati. Þetta vex því í augum“.

Ingunn mælir jafnframt með því að eldra fólk læri nýtt tungumál. „Það er flott heilaleikfimi. Af hverju ekki að gera það þegar maður er orðinn sjötugur?  Það er orðatiltæki á ensku sem hljómar svona. Use it or loose it.  Eða  Notaðu það, annars glutrast það niður.

Þessi grein er úr safni Lifðu núna og er hér endurbirt örlítð uppfærð.

 

Ritstjórn júlí 26, 2023 07:00