Nægur svefn er nauðsyn fyrir heilabúið

Lítill svefn langtímum saman  getur haft  skaðleg áhrif á heilann auk þess sem fólk verður syfjað á daginn. Það að sofa skemur en sjö til átta tíma á sólarhring er talið tengjast vitglöpum, minnisleysi og jafnvel Alzheimer ef marka má nýjar rannsóknir.

Losar út eiturefni

Flest fólk telur heilann hvílast við svefn en nú er vitað að sumir hlutar heilans eru mun virkari í svefni en vöku. Hluti þessarar starfsemi er hreinsun og losun eiturefna og óæskilegra prótína, meðal annars prótína sem talin eru valda Alzheimer. Það er ekki sannað að umrædd efni valdi sjúkdómnum en vísindamenn telja líkur á að svo sé.

Gerir við daglegt slit

Nýlegar rannsóknir við Pennsylvaníuháskóla benda til þess að viðvarandi svefnleysi geti skaðað heilan varanlega. Við tilraunir á dýrum kom í ljós að óslitin vaka getur skaðað taugaboð með þeim afleiðingum að það dregur úr árverkni og hægir á vitsmunalegri starfsemi. Talið er að skaðinn geti verið varanlegur. Skammur svefn getur einnig tengst rúmmálsminnkunn heilans. Menn vita þó ekki hvort það er lítill svefn sem veldur því að heilinn skreppur saman eða hvort að lítill heili veldur svefnleysi.

Kemur skipulagi á ruglinginn

Í vöku verður heilinn fyrir stöðugu áreiti og tekur inn gífurlegt magn mismunandi upplýsinga. Þetta eru allskonar skilboð,  hlutir sem við sjáum, heyrum, finnum lykt af og svo framvegis. Útilokað er fyrir heilann að vinna úr öllum upplýsingunum samstundis en á meðan við sofum heldur heilinn áfram að vinna. Ekki ósvipað og vinna sem fer fram á bókasafni eftir lokun þegar bókum er aftur raðað í réttar hillur. Fólk sem telur sig komast af með fárra tíma svefn skorar oft lægra á minnisprófum en þeir sem sofa lengur.

Skapar minningar

Eitt af þeim efnasamböndum sem tengist draumum og minningum kallast acetylcholine. Eitt af einkennum Alzheimer sjúkdómsins er að heilafrumurnar sem vinna efnið eyðileggjast og því eru draumfarir Alzheimerssjúklinga minni en annara. Athyglisvert er að eitt af þeim lyfjum sem algengt er að meðhöndla Alzheimerssjúklinga með er lyfið Aricept en það er einnig þekkt fyrir að valda miklum draumförum.

 

Ritstjórn febrúar 17, 2015 15:19