Vísindamenn skilgreina fjórar gerðir öldrunar

Vísindamenn við Stanford-háskóla í Kaliforníu í Bandaríkjunum, sem rannsakað hafa mismunandi „öldrunarferli“ fólks, hafa komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að skilgreina fjögur mismunandi slík ferli. Þessar fjórar aðgreinanlegu gerðir öldrunar („ageotypes“ á ensku) valda því að fólk eldist misvel – eða öllu heldur: eldist eftir mismunandi ferlum, eftir því hvaða öldrunargerð er ríkjandi hjá hverjum einstaklingi. Þetta gerir að verkum, að hafi einu sinni verið greint í hvaða öldrunargerðarflokk einhver fellur, þá kvað vera hægt að sjá að miklu leyti fyrir hvernig líkami viðkomandi mun breytast eftir því sem árin færast yfir.

Með þessum upplýsingum á þar með líka að vera hægt að veita viðkomandi klæðskerasaumaða ráðgjöf um hvað hann/hún getur gert til að hægja á eða vinna á móti hrörnun líkamans, s.s. með lífsstílsbreytingum eða lyfjameðferð. Þetta er það atriði sem vekur mestar vonir varðandi það hvernig hagnýta megi rannsóknarniðurstöðurnar.

Líffærin eldast mishratt í líkama hvers og eins

Líkami fólks eldist/hrörnar mishratt, en sú staðreynd hefur leitt lækna til að tala annars vegar um líffræðilegan aldur og hins vegar aldur talinn í árum. Þannig getur einstaklingur sem hefur lifað í 45 ár frá fæðingu, svo dæmi sé tekið, samkvæmt þessu verið með líffræðilega 55 ára gamla lifur en 35 ára gamla húð. Nánar tiltekið: þótt viðkomandi hafi nýlega fagnað 45 ára afmælisdegi sínum líkist lifrin í honum meira lifrinni eins og hún er að meðaltali í 55 ára gömlum manni, en húð hans húðinni á 35 ára manni.

Dr. Michael Snyder

Þetta misræmi í öldrunareinkennum ólíkra hluta líkamans getur helgast af lífsstílsvali viðkomandi. Þekktustu dæmin eru ef til vill hvernig lungun hrörna hraðar í reykingamönnum eða hjartað í fólki í yfirþyngd.

En öldrunargerðirnar sem hér eru til umræðu ganga út á að hver og einn einstaklingur sé erfðafræðilega „forritaður“ til að eldast líffræðilega eftir tilteknu mynstri. Öldrunargerð manns segir m.ö.o. til um hvernig hann eldist, þ.e. hvernig hin ýmsu líffæri í líkama hans eldast hraðar eða hægar en aðrir.

„Við hugsum þetta svipað og bílgerð“, hefur Boston Globe eftir dr. Michael Snyder, erfðafræðingi við heilbrigðisvísindadeild Stanford-háskóla, og heldur áfram:

„Þú kaupir bíl, og hann slitnar smátt og smátt með notkun, en sumir íhlutir slitna hraðar en aðrir (…). Það er um það bil sambærilegt við það sem við eigum við með ólíkri líffræðilegri öldrun ólíkra hluta líkamans.“

Öldrunargerðirnar fjórar

Frá hausti 2020 hefur rannsóknateymið sem dr. Snyder fer fyrir skilgreint fjórar öldrunargerðir (ageotypes):

  1. Efnaskipta-öldrun, en hún er einkennandi fyrir fólk hvers ónæmiskerfi eldist hraðast
  2. Ónæmis-öldrun
  3. Nýrna-öldrun (sem á ensku er líka vísað til sem „nephrotic“)
  4. Lifrar-öldrun.

Maður sem „ónæmis-öldrun“ er einkennandi fyrir teldist t.d. vera með 42 ára gamalt ónæmiskerfi þegar hann er fertugur, en efnaskipti eins og í 32 ára gömlum manni. Fólk sem þetta á við um mun að öllum líkindum vera grannara þegar fram á elliárin kemur, en mun jafnframt vera líklegra til að eiga í sjúkdómum af völdum efnaskiptatruflana á ákveðnum skeiðum ævinnar. Einstaklingur sem efnaskiptaöldrun er einkennandi fyrir mun aftur á móti geta haldið hraustu ónæmiskerfi, en eiga annars í vaxandi baráttu við ofþyngd og hættuna á sykursýki eftir því sem æviárunum fjölgar.

Öldrunargerðin nýrna-öldrun felur í sér að nýrun eldist hraðar í fólki sem fellur í þennan flokk. Sömuleiðis eldist lifrin hraðar í fólki sem telst til lifrar-öldrunargerðarflokksins.

Snyder leggur áherslu á að rannsóknin standi enn yfir. Honum er líka mikið í mun að einstaklingar geta elst á marga mismunandi vegu, og sýna í mörgum tilvikum blöndu öldrunargerðanna fjögurra sem hingað til hafa verið skilgreindar.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn mars 1, 2022 07:00