Fjallkonan frjáls og hnarreist

Fjallkonan fríð er svo rótgróin ímynd Íslands að við veltum sjaldnast fyrir okkur hvaðan hún er upprunnin. Flest teljum við án efa að um sé að ræða séríslenska hugmynd sem skáldin okkar hafi þróað og skapað mynd af í hugum Íslendinga. En svo er ekki fjallkonan er uphaflega þýsk hugmynd og sá sem teiknaði hana fyrst þýskur myndlistarmaður J. B. Zwecker að nafni. Allt þetta kemur frá stórfínni bók Fjallkonan: „Þú ert móðir vor kær“ sem gefin var út í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins.

Bókin liggur frammi á flestum bókasöfnum og er fáanleg í bókabúð Forlagsins á Fiskislóð. Þetta er vönduð útgáfa og vel unnin. Bjarni Benediktsson skrifar formála, en greinahöfundar eru Guðmundur Oddur Magnússon, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Áslaug Sverrisdóttir og Silja Aðalssteinsdóttir sem jafnframt sá um ritstjórn. Þarna er að finna mikinn fróðleik og mörg skemmtileg atriði tengd fjallkonunni, hlutverki hennar, búningi, kvæðin sem hún flytur og erindi hennar við okkur.

Fjallkona með fannhvítan fald er órjúfanlegur hluti af hátíðahöldunum 17. júní ár hvert og ljóðið sem hún flytur. Stundum hafa skáldin notað tækifærið og talað inn í samtíma sinn, flutt friðarboðskap, beðið þess að meiri mannúð ríki á ísa köldu landi eða minnt á menningararfinn. Konan sem klæðist skautbúningnum sendir líka skilaboð, opnar hugi þeirra sem á horfa. Stundum er hún ung, stundum roskin, stundum ljóshærð, stundum dökkhærð, stundum fagmanneskja í flutningi texta, stundum ekki, stundum þeldökk og stundum ekki. Allt þetta setur svip á þjóðhátíðardaginn, vekur okkur til umhugsunar og leggur grunn að anda næsta árs.

Bókin um fjallkonuna er ókeypis og Lifðu núna hvetur alla til að tryggja sér eintak. Í bókinni er að finna útdrætti úr greinunum á ensku og pólsku svo hún nýtist öllum. Hún er líka prýdd fjölda fallegra mynda, meðal annars af fjölmörgum fjallkonum sem ýmist hafa flutt ávarp eða valdið fjaðrafoki þar sem þær hafa birst.

Steingerður Steinarsdótitr ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn september 23, 2024 07:00