Kerlingarlegt að hafa gleraugun í snúru um hálsinn

Ekki vera sár er bók eftir Kristínu Steinsdóttur, sem kom út um síðustu jól. Þar segir frá hjónunum Imbu og Jónasi sem bæði standa frammi fyrir því að vera komin á eftirlaun. Margir sem eru í svipuðum sporum, kannast  ugglaust við  margt í þessari bók.

Imba sem hefur verið á þönum að sjá um fjölskylduna allt sitt líf, sér nú fram á að hafa nægan tíma til að láta drauma sína rætast. Inní frásögnina blandast einnig vinir og ættingjar. Hun veltir vöngum yfir ýmsu. Það er nýtt fyrir henni að fara í verslanir og fá eldri borgara afslátt og mannbroddar eru ekki fyrir hana, finnst henni, heldur fyrir gamalt fólk.

Ég var alltaf að týna gleraugunum. Mér fannst svo kerlingarlegt að hafa þau í snúru um hálsinn. Ég reyndi að stinga þeim í vasann en vissi svo aldrei í hvaða vasa þau voru. Þetta hafði hríðversnað. Ætli það endaði ekki með að ég yrði að kaupa bölvaða snúruna. Ég hét því samt að fara aldrei með hana út úr húsi.

Eiginmaðurinn Jónas hefur ekki alls kostar sömu sýn á lífið framundan og Imba. Hann vill öfugt við hana, selja íbúðina þeirra í Reykjavík og hefja búskap í sumarbústað þeirra hjóna í Hvalfirði.

Ég bjó til kaffi og settist. Þegar ég fann að Jónas var byrjaður að stjákla í kringum mig ákvað ég að vera á undan honum.

-Jónas, ég get ekki með nokkru móti samþykkt að selja, sagði ég róleg. Ég sá út undan mér að honum hnykkti við.

– Og af hverju ekki, ef ég má spyrja?

– Þetta er heimili mitt.

– Þú átt annað í Hvalfirðinum.

– Nei, þar á ég sumarbústað og ég ætla ekki að búa í honum allt árið, svaraði ég, alltaf jafnróleg. Ég var ánægð með hvað ég var yfirveguð.

Jónas færðist allur í aukana. Sagði að þetta væri fínt heilsárshús og við gætum gert svo margt ef við seldum. Farið til útlanda og keypt heitan pott ef mig langaði í hann. Nei, mig langaði ekki í heitan pott. Ég færi í hann í Vesturbæjarlauginni. Hann hefði heldur ekki viljað fara í neitt ferðalag með mér lengi, hvorki innanlands né utan. Hann sagði að ég gæti líka haft bílinn eins oft og ég vildi og skotist í bæinn. Nú var bensínið ekki fyrirstaða lengur. Jónas talaði í sig hita, hafði ekki talað svona mikið árum saman. Hann útmálaði fyrir mér hvernig lífið gæti orðið. Snöggvast brá fyrir ákafamanninum sem ég giftist. Og í huganum var ég komin í kjallaraíbúðina okkar gömlu. En þegar ég var búin að fá nóg sagði ég stuttlega.

-Hættu þessu Jónas. Ég flyt aldrei í Hvalfjörðinn.

Þetta er uppgjör konu sem stendur á krossgötum, hún rifjar upp líf sitt og það er spennandi að vita hver niðurstaða hennar verður að lokum.

Ritstjórn apríl 24, 2018 09:42