Lánsveð til íbúðakaupa tíðkast ekki lengur

Svokölluð lánsveð, hafa verið í umræðunni undanfarin ár í tengslum við skuldamál heimilanna. Slík veð tíðkuðust um árabil, sérstaklega að foreldrar lánuðu börnum sínum veð fyrir lánum til fyrstu íbúðakaupa. Sú ákvörðun að lána uppkomnu barni veð, varð þá að byggjast á getu foreldra til að borga af láninu eða greiða það upp, ef aðstæður breyttust hjá barninu. Annars gat illa farið og dæmi eru um að foreldrar hafi þurft að borga slík lán, án þess að ráða vel við það.

Samkvæmt lauslegri könnun hjá nokkrum fjármálafyrirtækjum, hafa lánsveð nánast lagst af eftir hrunið. Hjá Íslandsbanka og Landsbanka er það meginregla að ekki er lánað útá veð sem fengið er að láni hjá þriðja aðila, til dæmis foreldrum. Sömu sögu er að segja í stærstu lífeyrissjóðunum. Hildur Kristmundsdóttir verkefnisstjóri hjá Íslandsbanka segir að vilji foreldrar aðstoða börn sín í fasteignakaupum þurfi þeir því sjálfir að taka lán út á eigin eign og lána áfram til barnsins. Það kalli á mikið traust, ef barnið eigi að greiða af láninu án þess að vera lántaki. Þótt veðrými skapist með tímanum hjá barninu, sé ekki hægt að flytja lánið af eign foreldranna nema lánið fari á nafn barnsins sem þá þarf að standast greiðslumat.

Fari svo að barnið geti ekki greitt af láninu af einhverjum ástæðum, eru neikvæðu áhrifin þau að sögn Hildar, að þá falli það á foreldrið sem er bæði lántaki og veðhafi. Það geti haft áhrif á alla fjölskylduna til dæmis ef foreldri fellur frá og erfðamál rísa milli systkina. Þá þurfi fyrst að greiða áhvílandi lán á eign foreldrisins og þar með lánið sem var í raun tekið til að aðstoða eitt barnanna.

Upplýsingaskylda fjármálastofnanna hefur aukist mikið í kjölfar upptöku nýrra neytandalánalöggjafar segir Hildur. „Það þýðir að bankinn sem lánveitandi þarf að gæta þess að lántakandi sé vel upplýstur um lántökuna.   Jafnframt þarf  lántaki  að gefa meiri upplýsingar um eigin stöðu og getu til að greiða af láni“.

Kristján Kristjánsson upplýsingafulltrúi Landsbankans segir það þó ekki þannig að ábyrgðir og lánsveð séu bönnuð með fortakslausum hætti á Íslandi. „En samkvæmt núgildandi lögum er þörf á mati á greiðslugetu þess sem lánar veðið og ábyrgðarsamningi sem kveður á um ákveðin lykilatriði í þessu sambandi. Það þýðir að ef uppkomið barn getur ekki greitt lán sem tryggt er með lánsveði hjá foreldri, þarf að vera sannreynt þegar lánveitingin á sér stað, að foreldrið sem lánar veðið geti tekið að sér greiðslu skuldarinnar”.

 

 

 

 

Ritstjórn júní 11, 2014 12:30