Kórónuveirufaraldurinn hefur leitt með áþreifanlegum hætti í ljós hve heilbrigðisþjónusta er eftir sem áður háð mannlegri snertingu. Liður í því að stemma stigu við útbreiðslu Covid-19 hefur víða verið að hætta við að framkvæma fjöldan allan af skurðaðgerðum. Með þessu hafa biðlistar eftir slíkum aðgerðum lengst, en frestun þeirra veldur umtalsverðum líkamlegum, andlegum og efnahagslegum afleiðingum fyrir sjúklinga, sjúkrahús og samfélög.
Að því er BBC World News greinir frá hafa skurðdeildir sjúkrahúsa, þar sem aðstæður leyfa, í auknum mæli tekið í notkun róbóta – sérhæfðan vélbúnað sem gerir skurðlæknum kleift að framkvæma aðgerðir í öruggri smitfjarlægð frá sjúklingnum. Sérfræðingar vænta þess að þetta – vélar sem umbylti sérhæfðri heilbrigðisþjónustu – sé þróun sem sé rétt að byrja.
Áætlað er að hátt í fimm milljarðar jarðarbúa hafi ekki aðgang að öruggri skurðlæknaþjónustu. Fleira fólk kvað láta lífið af þessum sökum en úr eyðni, malaríu og berklum samanlagt.
Á BBC Reel er hægt að horfa á myndband þar sem bandaríski skurðlæknirinn Nadine Hachach-Haram, sem ættuð er frá Líbanon, útskýrir hvernig tæknin gerir skurðlæknum kleift að fjartengjast inn á nánast hvaða skurðstofu í heiminum sem er, og nota tölvu eða jafnvel bara spjaldtölvu eða snjallsíma til að stýra uppskurði. Hún er sannfærð um að slík fjarstýring uppskurða eigi að geta gert miklum fjölda fólks út um allan heim kleift að fá aðgang að gæða-skurðlæknaþjónustu, sem það hefði annars ekki átt kost á.