Sjálfsmyndin sára

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar  

gudrungs@gmail.com  

Sjálfsmynd fólks er viðkvæm og stundum auðsæranleg. Hún er gjarnan bundin við misjafna hluti, ef svo má segja. Æði margir fá svolítið sár á sjálfsmyndina þegar þeir hætta reglubundinni vinnu. Hverfa af vinnumarkaði eins og það er kallað. Ekki síst þeir sem binda sjálfsmynd sína að verulegu leyti starfi sínu. Þeir eiga oft erfitt með að sætta sig við að vera ekki lengur mikilvægir sem starfsmenn.

Fréttir berast af því að eldra fólk sé haldið þunglyndi í ríkari mæli en áður var talið. Sennilega er flokkunarárátta samfélags nútímans einn þáttur í því.

Sú var tíðin að ekki var til neitt sem skilgreint var sem unglingur. Fólk varð fullorðið um fermingu og fór þá að vinna sem sjálfstæðir einstaklingar, fram að því unnu börn eins og þau höfðu getu til. Á fyrri tíð vann fólk eins lengi og það hafði heilsu til þótt árin færðust yfir. Þetta gerði stöðu samtíðarfólks í raun jafnari og sameinaði fólkið á bæjunum.

Nú er þessu mjög öðruvísi háttað. Fólk sækir vinnu fjarri heimili og sumir verða því eðlilega dálítið vængbrotnir þegar þeir eru skyndilega sviptir þeim hluta tilveru sinnar – ekki síst karlar. Margt er að vísu gert til að bæta þeim upp þennan missi. Haldin eru námskeið af ýmsu tagi sem talin eru höfða til eldri manna, haldið uppi spilamennsku og sumir eru svo vel settir að hafa hús til að dytta að og heilsu til að geta það.

Konur eru að sumu leyti betur settar. Þær eru oft frá upphafi í fyrstu ábyrgð á heimilinu hvað störfin og barnauppeldi snertir. Sem eldri konur eru þær svo oftar en ekki í svipuðu hlutverki og félagsráðgjafar í fyrirtækjum. Til þeirra er gjarnan leitað um ráð og aðstoð ef eitthvað bjátar á hjá hinum yngri sem eru með börn og í fullu starfi að auki.

Jafnaðarlega þarf að ræða við reynsluríka um allskyns uppákomur sem tilheyra hinu lifandi lífi, svo sem ósamkomulag, fjárhagserfiðleika, veikindi, uppeldismál og þar fram eftir götunum. Sem eldri og reyndari manneskjur eru konur þá í hlutverki hlustanda og reyna svo eftir atvikum að ráðleggja.

Vegna þessa breytist sjálfsmynd kvenna stundum minna en karla að því er virðist.

Reyndar er sjálfsmynd eitthvað sem sennilega er best að sækja inn í sjálfan sig en ekki í ytri aðstæður, svo sem starf eða hlutverk í fjölskyldum.

Að sækja sjálfsmynd „inn í sjálfan sig“ er samkvæmt mínum skilningi að gera sitt besta í hverjum kringumstæðum. Þegar fólk veit að það hefur gert eins og það getur er það ánægt með sig. Þá fylgir hugur máli – og það dugar þótt ekki fari allt eins og vonir eru bundnar við hvað verkefnin snertir.

„Vertu heiðarleg, dugleg og reglusöm, þá farnast þér vel,“ sagði amma mín oft við mig þegar ég var að alast upp. Móðuramma mín var á heimili foreldra minna þangað til ég var tólf ára gömul og hún lagði mikla áherslu á þetta heilræði. Hún sagði þetta svo oft að mér skildist að ég yrði að vera minnar eigin gæfu smiður. Aðrir væru ekki líklegir til þess að verða mér gæfusmiðir í sama mæli.

Mér hefur fundist bera á að eldra fólk gjaldfelli sjálft sig. Tali um sig sem „gamlingja“ og missi jafnvel hluta af góðri sjálfsmynd sinni við það eitt að vera ekki lengur úti á vinnumarkaðinum. Þetta er mikill óþarfi samkvæmt heilræði ömmu. Ef maður heldur áfram að vera „heiðarlegur, duglegur og reglusamur“ – þá brenglast ekki sjálfsmyndin. Samkvæmt heilræðinu heldur fólk þá áfram að gera sitt besta í breyttum aðstæðum og það dugar oftast til að viðhalda góðri sjálfsmynd og léttri lund.

Viðhorf manns sjálfs til eigin aðstæðna er það sem mestu skiptir varðandi sjálfsmyndina. Ég vann einu sinni á sjúkrahúsi þar sem margir ungir og lamaðir menn voru í endurhæfingu. Einn þeirra skar sig úr. Hann var raunar meira lamaður en hinir. En sjálfsmynd sinni hélt hann óskertri. Hann leyfði engum að tala niður til sín. Leit á þá sem sögðu: „jæja vinurinn, eigum við nú ekki að bursta í okkur tennurnar“, slíku augnaráði að viðkomandi lét sér ekki slíkt um munn fara framar. Þessum manni farnaðist vel síðar á lífsleiðinni. Hann gerði sér ljósa grein fyrir aðstæðum sínum, valdi sér verkefni sem hentuðu og um fram allt missti ekki trú á sjálfum sér við afleiðingar af því slysi sem olli lömun hans.

Miklu mildari en lömun er aldurinn – þótt hann hafi vissulega í för með sér ýmsa kvilla og vinnumissi. Ef maður hins vegar heldur áfram að reyna sitt besta og vorkennir sér ekki né lætur aðra taka sig niður þá er sigurinn vís. Sjálfsmyndin verður traustari og lífið skemmtilegra.

 

 

Guðrún Guðlaugsdóttir október 8, 2018 10:00