Tengdar greinar

Fjöllyfjameðferð er áhættuþáttur fyrir byltur, minnisleysi og skert lífsgæði

Framfarir og aukin þekking í læknavísindum ásamt nýjum og betri lyfjum eiga stóran þátt í að fólk lifir lengur nú en áður var. Það eru þó margir aldraðir sem eru með fjölþætt vandamál og oft fleiri en einn sjúkdóm sem þeir taka lyf við. Slíkt skapar vanda þar sem lyfin geta verkað illa saman eða hafa aukaverkanir sem eru óhagstæðar. Nú eru klínískir lyfjafræðingar í vaxandi mæli farnir að koma að lyfjamálum eldra fólks á spítölum og er það mjög til góðs. Freyja Jónsdóttir, klínískur lyfjafræðingur á Landspítala og lektor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, segir að þrátt fyrir að lyf bæti verulega líðan og horfur fólks með fjölþætta sjúkdóma þá fylgi fjöllyfjameðferð margvísleg áhætta sem geta verið skert lífsgæði fólks. Þá er lyfjanotkun Íslendinga almennt meiri en hjá nágrannaþjóðum okkar, t.a.m. þegar kemur að svefnlyfjum og sterkum verkjalyfjum sem er áhyggjuefni, ekki síst  vegna þess að þegar við eldumst minnkar geta líkamans til að bregðast við aukaverkunum lyfja, lyf sem áður þoldust vel gera það ekki lengur. Freyja segir því mikilvægt að endurskoða lyfjanotkun eldra fólks reglulega og að klínískir lyfjafræðingar geti með réttum skömmtum hjálpað við að draga úr og fyrirbyggja vandamál og koma í veg fyrir milliverkanir. Hún segir að rannsóknir sýni að þátttaka klínískra lyfjafræðinga í þverfaglegum teymum auki meðferðarheldni og dragi úr innlögnum og endurinnlögnum á sjúkrahús.

 

Fjöllyfjanotkun vaxandi áhyggjuefni

Það eru ýmsar neikvæðar hliðar lyfja og fjöllyfjanotkunar sem geta skert lífsgæði eldra fólks.

Eru margir aldraðir að taka of mörg lyf sem geta haft óhagstæðar aukaverkanir og jafnvel virkað hvert gegn öðru?„Samfélagið er stöðugt að eldast. Þetta hefur í för með sér tilteknar áskoranir þar sem aukin fjölveikindi og tilheyrandi fjöllyfjanotkun verður sífellt meira áhyggjuefni varðandi heilsu almennings. Lyf eru algengasta íhlutun í heilbrigðisþjónustu til að meðhöndla bráða og króníska sjúkdóma. Mikil framþróun í lyfjameðferðum undanfarnar áratugi hefur m.a. stuðlað að því að við lifum lengur og getum núna meðhöndlað sjúkdóma sem jafnvel áður drógu sjúklinga til dauða. Lyf geta því bætt og læknað sjúkdóma, dregið úr einkennum, aukið lífsgæði og lengt líf. En fjölveikindi og tilheyrandi fjöllyfjameðferð eru einnig þekktir áhættuþættir sem getur haft neikvæð áhrif á heilsufar. Rannsóknir hafa sýnt að slík neikvæð áhrif fjöllyfjameðferðar geta falist í skertum lífsgæðum, skertri meðferðarheldni, auknum hrumleika, auknum líkum á byltum og auknum líkum á spítalainnlögn.“

Lyfjameðferð getur orðið neikvæð umfram ávinning

Freyja segir að mikilvægt sé að fara reglulega yfir lyf sem fólk tekur og að lyfjanotkun hér á landi sé meiri en í nágrannalöndunum. Það á meðal annars við um sterk verkjalyf og svefnlyf. Slíkt geti reynst slæmt þegar aldurinn færist yfir einkum vegna þess að geta líkamans minnkar með hækkandi aldri til að bregðast við aukaverkunum af lyfjum.

„Fjöllyfjameðferð er helsti áhættuþátturinn sem leitt getur til mögulegrar óviðeigandi lyfjameðferðar. Möguleg óviðeigandi lyfjameðferð er þegar áhætta lyfjameðferðar er umfram ávinninginn og tengist bæði neikvæðum útkomum í heilsufarslegu- og fjárhagslegu tilliti. Því er mikilvægt að fara yfir lyfin reglulega til að tryggja að þau séu enn þörf og séu ekki að skapa einstaklingum áhættu umfram ávinning.

Lyfjanotkun Íslendinga er almennt meiri en hjá nágrannaþjóðum okkar, sérstaklega þegar kemur að svefnlyfjum og sterkum verkjalyfjum. Rannsóknir hafa sýnt að notkun svefnlyfja á Íslandi er sú mesta meðal Norðurlandanna, og hefur hún haldist stöðug undanfarin ár. Þá hefur einnig verið greint frá því að notkun sterkra verkjalyfja, svokallaðra ópíóíða, hefur aukist verulega hér á landi og er nú meiri en í hinum Norðurlöndunum. Þessi þróun vekur áhyggjur vegna hættu sem fylgir notkun þessara lyfja og sérstakalega eftir því sem aldurinn færist yfir.“

Hver eru helstu áhrif eða afleiðingar af of mikilli lyfjanotkun? „Að nota mörg lyf á sama tíma vegna getur haft neikvæð áhrif á heilsuna. Það eykur líkurnar á aukaverkunum, milliverkunum og getur dregið úr lífsgæðum. Eftir því sem lyfjunum fjölgar þá aukast líkur á því að lyfin virki illa saman, hafi milliverkanir, eða hafi áhættu umfram ávinning. Eftir því sem við eldumst þá hefur líkaminn minni getu til að bregðast við aukaverkunum lyfja og því geta lyf sem áður þoldust vel valdið aukaverkunum og því mikilvægt að endurskoða lyf eldra fólks reglulega.“

Freyja segir að  rannsóknir hafi sýnt að ákveðin lyf líkt og róandi lyf og svefnlyf geti haft mjög neikvæðar aukaverkanir.

„Þau geta til að mynda aukið líkur á byltum, dregið úr einbeitingu, aukið minnisleysi og minnkað viðbragðsgetu. Því er mikilvægt að fylgjast vel með lyfjanotkun og leita ráða hjá lækni eða lyfjafræðingi ef þörf er á.“

Er æskilegt að lyfjafræðingar komi meira inn í meðferð sjúklinga en hefur verið og hvaða þýðingu gæti það haft? „Lyfjafræðingar eru sérfræðingar í lyfjum og eina heilbrigðisstéttin sem hefur lyf sem meginviðfangsefni. Þeir hafa því í aukunum mæli komið til liðs við aðrar heilbrigðisstéttir í að veita heilbrigðisþjónustu. Það eru engar algildar lausnir til að takast á við fjöllyfjanotkun og óviðeigandi lyfjameðferð en aukið samstarf milli heilbrigðisstétta er mikilvægur þáttur í þjóna þessu markmiði,“ segir Freyja.

Klínískir lyfjafræðingar tryggja örugga og árangursríka lyfjanotkun

 Freyja segir að klínískir lyfjafræðingar komi æ meira að lyfjameðferð sjúklinga t.d. hjá Landspítala og að lyfjafræðingar hafi afskipti af meðferð aldraðra. En hvað með aðrar stofnanir, t.d. heilsugæslustöðvar? „Undanfarin áratug hefur stétt klínískra lyfjafræðinga vaxið gífurlega hérlendis. Klínískir lyfjafræðingar hafa til viðbótarmenntun í klínískri lyfjafræði og áherslan þar er tryggja örugga, árangurríka og hagkvæma lyfjanotkun. Núna starfa klínískir lyfjafræðingar inni á fjölda deilda á Landspítala í samstarfi við þverfagleg teymi. Hlutverk þeirra er víðtækt á spítalanum en meðal annars taka þeir þátt í að tryggja að upplýsingar um lyfjanotkun einstaklinga sem leggjast inn á spítala séu réttar en rannsóknir hafa sýnt að töluverð hætta er á að upplýsingar um lyfjanotkun misfarist við innlögn á spítala. Þeir styðja einnig við ákvarðanatöku um lyfjaval, yfirfara skammta, meta hvort taka megi lyfin saman og veita upplýsingar til sjúklinga um lyf. Einnig framkvæma þeir lyfjarýni sem kerfisbundin yfirferð á lyfjameðferð einstaklings.“

Þarf að auka þjónustuna á landsbyggðinni

Freyja Jónsdóttir. Mynd: Kristinn Ingvarsson

Freyja segir að klínískir lyfjafræðingar starfi einnig á heilsugæslustöðvum, heimahjúkrun, hjúkrunarheimilum og í sérhæfðri þjónustu við niðurtröppun ávanabindandi lyfja. „Þjónusta klínískra lyfjafræðinga á heilsugæslu hefur þróast hratt undanfarin ár á höfuðborgarsvæðinu en enn er þörf á að auka þjónustuna á landsbyggðinni. Lyfjafræðingar í heilsugæslu sinna fjölbreyttum verkefnum en rík áhersla er lögð á lyfjarýni. Einnig styðja þeir einstaklinga við niðurtröppun ávanabindandi lyfja, svara almennum fyrirspurnum frá heilbrigðisstarfsfólki og skjólstæðingum heilsugæslunnar auk þess að veita ýmsa fræðslu um lyf og lyfjameðferðir.“

Hvaða þýðingu gæti það haft til langs tíma að lyfjafræðingar hafi þessa aðkomu? „Klínískir lyfjafræðingar gegna mikilvægu hlutverki í þverfaglegum teymum þar sem þeir stuðla að öruggari og árangursríkri lyfjameðferð. Með sérþekkingu sinni geta þeir hjálpað til við að draga úr og fyrirbyggja lyfjatengd vandamál, meðal annars með því að tryggja rétta skammta og koma í veg fyrir milliverkanir. Rannsóknir hafa sýnt að þátttaka klínískra lyfjafræðinga í þverfaglegum teymum eykur meðferðarheldni, dregur úr óþarfa lyfjanotkun og getur minnkað líkur á innlögnum og endurinnlögnum á sjúkrahús.“

Freyja tekur fram að lokum að mikilvægt sé að heilbrigðisstarfsfólk, í samstarfi við þá sem þurfa á lyfjum að halda, sýni varfærna fyrirhyggju þegar ný lyfjameðferð er hafin og skipuleggi viðeigandi endurskoðanir á lyfjameðferðinni.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna

Ritstjórn mars 17, 2025 07:00