Sveitar­stjórn­ar­mað­ur­inn sem fór að keyra rútur

Þegar Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, fyrrverandi sveitarstjóri á Hellu og bæjarstjóri í Grundarfirði, hafði látið af þeim störfum fór hann að starfa hjá Kynnisferðum við akstur ferðamanna og nú hefur hann einnig lokið leiðsögunámi. Hann er því hvergi nærri hættur að „vinna“ þótt hann verði sjötugur á næstu dögum. Hann segir að skerðingar ríkisins á ellilífeyri geri eldri borgurum erfitt fyrir að stunda vinnu og því hafi hann stofnað þrýstihóp á Facebook sem heitir Hópur um leiðréttingu á kjörum eldri borgara og afnám skerðinga. Hópurinn á sér nú hátt í 1100 fylgjendur og fer ört stækkandi.

Tíðindamaður Lifðu núna hitti Guðmund að máli á Kaffi Krús á Selfossi á dögunum og ræddi við hann um aldurinn, baráttumálin og ferðamálaáhugann.

Gullbrúðkaup á sjötugsafmælinu

Hjónin María Busk og Guðmundur Ingi Gunnlaugsson.

Guðmundur fagnar ekki aðeins sjötugsafmæli á þessu ári, eins og kona hans, María Busk sjúkraliði, heldur fögnuðu hjónin gullbrúðkaupi á síðustu jólum. Af þessu tilefni slógu þau saman í veislu í Oddfellowhúsinu á Selfossi fyrr í sumar þar sem mætti fjölmenni. „Við ákváðum bæði að við ætluðum ekki að halda upp á þessi tímamót nema við næðum öll að vera saman, fjölskyldan.“ Tvö af börnum þeirra hjóna búa erlendis og þegar ljóst var að þau yrðu á landinu í sumar var ákveðið að blása til þessarar veislu þó að afmælisdagurinn væri ekki fyrr en í haust. „Þetta var mjög gaman. Þarna voru einnig systkini okkar og frændfólk. Það var dýrmætt að ná að smala öllum hópnum saman við þær aðstæður sem nú eru.“

Sveitarstjórnarmaður í 24 ár

Frá kosningabaráttunni í Rangárþingi ytra 2010.

Guðmundur er Sunnlendingur fram í fingurgóma og hefur búið á Selfossi um langt skeið en þó lengst á Hellu. „Þó að ég sé fæddur í Reykjavík hef ég alltaf litið á mig sem Hvergerðing í raun, af því að þar var ég mín frumbernskuár hjá fósturforeldrum mínum. Ég tengist því Hveragerði til­finn­inga­bönd­um. Á Hellu hef ég þó búið lengst.“

Guðmundur var sveitarstjóri á Hellu í 16 ár, árin 1990 til 2006, en þá var hann ráðinn bæjarstjóri í Grundarfirði. Því starfi gegndi hann í fjögur ár og sneri þá aftur austur fyrir fjall. Hann tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi ytra fyrir sveitar­stjórnar­kosn­ing­arn­ar 2010 og lenti í fyrsta sæti. Hann var því odd­viti sjálf­stæðis­manna í sveitar­stjórn á Hellu árin 2010–2014 og oddviti Rangárþings ytra 2012–2014. Guð­mund­ur hefur verið við­rið­inn sveitar­stjórnar­mál í samtals 24 ár.

Þau hjónin keyptu sér hús á Selfossi árið 2016 þegar þau seldu fasteign sína á Hellu og íbúð sem þau áttu í Reykjavík. Þau höfðu þó búið á bökkum Ölfusár áður. Mörgum er enn í fersku minni þegar Guðmundur rak Fossnesti árin 1981–1986, sem þá var aðalviðkomustaðurinn á Selfossi. Síðar bættist skemmtistaðurinn Inghóll við, en hann var byggður ofan á Fossnesti. Guðmundur var hótelstjóri á Hótel Örk í Hveragerði í nokkra mánuði árið 1986 áður en hann réðst til starfa hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga í Reykjavík. Hjá Sambandinu starfaði hann til ársins 1990 þegar hann sneri sér að sveitarstjórnarmálunum.

Rútuakstur kveikjan að leiðsögunámi

Námshópurinn í ferðamálafræðinni. Guðmundur annar frá vinstri.

„Rútupróf átti ég í pokahorninu,“ segir Guðmundur, „en ég tók meiraprófið fyrir um 10 árum. Þá var ég ekki lengur eftirsóttur á vinnumarkaði í stjórnunarstöður sökum aldurs og þá var gott að geta nýtt ökuréttindin. Það er mjög skemmtileg vinna að aka með ferðamenn í dagsferðum, til og frá Keflavík og í Bláa lónið. Kynnisferðir, þar sem ég starfaði, eru stórt fyrirtæki í ferðaþjónustunni, einkum á Suður- og Vesturlandi og hálendinu.“

Áhugi Guðmundar á ferðamálafræði vaknaði snemma og hefur blundað með honum um langa hríð. „Ég hef alltaf verið fróðleiksfús og haft gaman að því að læra. Ég ætlaði að taka ferðamálafræði í EHÍ en þau fengu ekki nógu marga nemendur haustið 2020 til að halda úti náminu. Ég sótti því um í Ferðamálaskóla Íslands. Námið þar var kvöldskóli og öll námskeið kennd í fjarnámi auk staðnáms og það hentaði mér afar vel. Maður settist bara við tölvuna um sexleytið fram til klukkan tíu á kvöldin.“

Þó að Guðmundur sé nú orðinn leiðsögumaður hefur hann ekki haft tök á að starfa við það enn. „Ég ætlaði að fara af stað með það nú í sumar, að vera leiðsögumaður, en þá kom kóvídið aftur af fullu afli. Ég er með sjúkdóm í lungum og má ekki smitast af kórónuveirunni. Ég varð bara að hlýða eins og aðrir í upphafi og dró mig í hlé í rútukeyrslunni. Þó að hættan í þessum bransa sé ekkert meiri en bara úti í búð, þá vildi ég ekki taka neina áhættu. Ég er alveg vís til þess að byrja aftur á þessu þegar allt er um garð gengið.“

Tedrykkja á Kaffi Krús.

Barist við yfirvöld um afnám skerðinga

En hvað gerir Facebook-hópurinn sem Guðmundur hefur stofnað til höfuðs stjórnvöldum? „Við söfnum upplýsingum frá fólki sem fær ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og fylgjumst með allri umræðu um þessi mál. Baráttumál hópsins er að lífeyririnn hækki og verði ekki lægri en sæmileg mánaðarlaun. Jafnframt berjumst við fyrir því að lífeyrir eldra fólks verði ekki skertur vegna t.d. greiðslna úr lífeyrissjóðum. Við erum því á dálítið þröngu sviði, sinnum eingöngu fjárhagslegum kjörum aldraðra. Taka þarf á fleiri málum eldri borgara og hefur LEB birt helstu stefnumál sín í sumar og er þar tekið á mörgum nauðsynlegum úrbótum sem mikil þörf er fyrir.“

Guðmundur segir að ellilífeyrir sinn sé skertur umtalsvert af því að hann fái smávegis greiðslur úr lífeyrissjóði. Það finnst honum hrópandi óréttlæti. „Þær greiðslur eru uppsafnaður sparnaður sem ég lagði til sjálfur á starfsævinni. Þetta eru ekki tekjur í skilningi þess orðs, aðeins uppsafnaður sparnaður frá mér sjálfum. En af því að ég átti þessa inneign í lífeyrissjóði, þá er ellilífeyririnn skertur um nærri 80% og svo greiddur fullur skattur af afganginum. Fyrir utan hvað þetta er óréttlátt, þá er framkoman gagnvart þessum hópi sem kallast eldri borgarar, sem nú er um 50.000 manns, fyrir neðan allar hellur. Í fjárlögum fyrir þetta ár liggur fyrir að almenn launaþróun á síðasta ári var á bilinu 6–7% til hækkunar, en ellilífeyrir var hækkaður um rúmlega 3% frá síðustu áramótum. Stjórnvöld ansa engu þegar á þetta er bent. Þau þegja bara þunnu hljóði.“

Mikilvægt að brjótast úr viðjum vanans fyrir kosningar

Ung­ur upp­reisn­ar­mað­ur.

Guðmundur er ómyrkur í máli um ábyrgð stjórnmálamanna í málefnum eldra fólks. Hann segist hafa áhuga á því að eldri borgarar kjósi ekki af gömlum vana í komandi alþingiskosningum. „Enginn af þessum 50.000 sem eru eldri borgarar í landinu ætti að gera það. Hve margir munu ekki greiða stjórnarflokkunum atkvæði veit ég ekki. En flokkarnir eiga ekki skilið að hljóta atkvæði okkar eldri borgara. Þeir hafa ekki hlustað á okkur. Aðrir flokkar virðast flestir hafa það á stefnuskránni að bæta kjör eldra fólks, leiðrétta þau og afmá skerðingarnar. En kosningaloforð eru alltaf kosningaloforð og við vitum auðvitað aldrei hvað er að marka þau. Fyrr en eftir á.“

Guðmundur vill að eldra fólk brjótist úr viðjum vanans og greiði ekki sama flokki atkvæði af gömlum vana, flokki sem það kann að hafa haldið tryggð við svo árum skipti. „Við vitum að margir fara á kjörstað af gömlum vana og kjósa alltaf það sama, þó að sami stjórnmálaflokkur sinni lítt úrbótum á kjörum eldri borgara. Ef fólki hugnast hins vegar ekki neinn annar flokkur en það hefur kosið um langan aldur, þá eru sterk skilaboð í því að skila auðu. Farið á kjörstað, en skilið auðu,“ segir Guðmundur.

Erfið ríkisstjórn

„Það er komið fram við eldra fólk eins og vandamál, við erum bara fyrir, liggjum á þjóðfélaginu eins og einhver óværa,“ heldur Guðmundur áfram. „Þetta er sú tilfinning sem maður fær, ekki hvað síst þegar núverandi ráðherrar tala um málefni eldri borgara. Það hefur sjaldan verið við völd ríkisstjórn sem er jafnerfið eldri borgurum og sú sem nú situr. Það er mín upplifun. Reyndar var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur dugleg við að þrengja kjör eldri borgara líka. Ríkisstjórn Jóhönnu hóf að skerða ellilífeyri á þann hátt sem eldra fólk býr enn við. Var það ekki hruninu að kenna? Nei, ekki að öllu leyti, skerðingar voru hafnar fyrr. Ríkisstjórn Jóhönnu notaði hrunið til að skerða enn meir. Svo má segja að þessi ríkisstjórn sem nú situr höggvi í sama knérunn. Við megum ekki sitja með hendur í skauti og láta það líðast.“

Félög eldri borgara máttlítil í kjarabaráttu

Leiðsögunámið í höfn.

Miklar vonir eru bundnar við Landssamband eldri borgara eftir að Helgi Pétursson var kjörinn formaður í vor, segir Guðmundur. „Þetta finnur maður þegar maður talar við eldra fólk. Helgi er einn af frumkvöðlum Gráa hersins sem stendur í málaferlum við ríkið út af þessum skerðingum sem við erum öll að berjast gegn. Vonandi tekur hann þessi mál föstum tökum innan landssambandsins, en fram að aðalfundinum í vor var landssambandið algjörlega máttlaust í þessari baráttu,“ segir Guðmundur.

Guðmundur er ekki sjálfur meðlimur í neinu félagi eldri borgara og segir ástæðuna þá að starfsemin á þeim vettvangi til þessa höfði ekki sterkt til sín. „Félög eldri borgara eru samt allra góðra gjalda verð fyrir þá starfsemi sem þar fer fram, þótt þau hafi ekki verið mikið að sinna kjörum aldraðra. Landssambandið var aðeins farið að skipta sér af búsetuúrræðum og því um líku, skorti á hjúkrunarrýmum o.s.frv., en það fór ekki hátt. Nú hefur sambandið sett fram fimm stefnuatriði sem það heldur stíft að núverandi stjórnarflokkum. En hvert það leiðir vitum við ekki.“

Úreltar hugmyndir um eldra fólk

Guðmundur segir hugmyndir sumra um eldra fólk algjörlega úreltar. „Gamla viðhorfið um „helgisteininn“, að þegar þú verðir 67 ára setjist þú bara í helgan stein, konur fari að prjóna og sitji bara heima og bíði eftir plássi á elliheimilinu, karlar fari bara heim að tálga spýtur; þessar hugmyndir eru löngu úreltar. Það er eins og menn haldi að þessi hópur, eldri borgarar, um 50.000 manns, karlar og konur, eigi ekki að vera þátttakandi í samfélaginu, við eigum bara að vera til hliðar, ekki virk í þjóðfélaginu. Til þess að vera virk þurfum við að hafa tekjur eins og hver annar og fá að halda ævisparnaði okkar óskertum, en það er ekki viðhorfið sem við mætum. Við erum orðin svo gömul að við eigum bara að vera heima hjá okkur. Hvað ættuð þið svo sem að vera að ferðast og sitja á kaffihúsum? Þannig eru eldri borgarar spurðir þó að þeir séu í fullu fjöri og við góða heilsu.“

„Við sem erum núna að verða eldri borgarar — og Sigmundur Ernir Rúnarsson kallaði 68-kynslóðina í nýlegum leiðara Fréttablaðsins — við erum einfaldlega ekki tilbúin að hætta í þjóðfélaginu. Við ætlum að vera hér áfram. Við viljum fá að vinna ef við getum það, og við ástundum allt sem við erum vön, tökum fullan þátt í menningarviðburðum og öllu mögulegu. Við erum ekki einhverjir hlutir sem sitja heima í stofu og bíða þess að tíminn líði. Þannig er viðhorfið gagnvart þessum aldurshópi. Það er hins vegar afar ánægjulegt hve stór hluti af þessum hópi tekur þessu ekki lengur þegjandi, finnst þetta ósanngjarnt, lætur ekki bjóða sér þetta lengur. Lifðu núna er okkar viðkvæði! Um það snýst einmitt barátta eldra fólks,“ segir Guðmundur að skilnaði.

Ritstjórn ágúst 27, 2021 07:00