Fjölskylduhús í vesturbænum

Stórfjölskylduhúsið við Sörlaskjól

Stórfjölskylduhúsið við Sörlaskjól

Öfugt við það sem áður var er stórfjölskyldan jafnan tvístruð út um borg og bý. Því má segja að barnabörnin hafi í tvenns konar skilningi fjarlægst ömmu sína og afa síðustu áratugina. Annað var þó uppi á teningnum á æskuheimili Hönnu Lilju Guðleifsdóttur, eða alveg frá því foreldrar hennar reistu sér hús við Sörlaskjól í Reykjavík árið 1946, en þar leit hún fyrst dagsins ljós fimm árum síðar. Þá voru afi hennar og amma, sem búið höfðu hjá fjölskyldunni, reyndar nýlátin og tvær eldri systur hennar fluttar að heiman, en þær áttu báðar eftir að flytja aftur í húsið með sínar fjölskyldur. Árið 1951 bjuggu því í húsinu hjónin Guðleifur Kristinn Bjarnason og Sigurborg Eyjólfsdóttir ásamt þremur af fimm börnum sínum, níu og sjö ára og örverpinu Hönnu Lilju – sem býr þar enn. Þrátt fyrir að hafa dvalið með eiginmanni sínum, Þorsteini Loftssyni, í útlöndum um stundarsakir fyrstu búskaparárin hefur húsið við Sörlaskjól alltaf verið hennar „heima“.

Sameignin valsar milli hæða

Húsið er sannkallað stórfjölskylduhús, þar sem þrjár kynslóðir hafa nánast alla tíð búið undir sama þaki – og meira að segja einni betur árið 1997 þegar þær voru fjórar. Núna búa Hanna Lilja og Þorsteinn á mið- og efstu hæðinni og Loftur, eldri sonur þeirra, og kona hans, Kristrún Ýr Gísladóttir, og börn þeirra, Karen Lilja, sautján ára, og Þorsteinn, níu ára, í kjallaranum. Á milli hæða valsar svo Mía litla, smátík af Miniatur Pinscher kyni, sem í sjö ár hefur verið sameign fjölskyldunnar.

Gunnar Þór, yngri sonur þeirra hjóna, býr aftur á móti í Hafnarfirði ásamt sambýliskonu sinni, Silju Rut Sigurjónsdóttur, og dætrunum, Söru Björt, sjö ára, og Elíu Nótt, sex mánaða. Vegalengdin kemur ekki að sök því hvorki Sörlaskjólsfjölskyldurnar né sú hafnfirska telja eftir sér að bregða sér bæjarleið til að eiga góðar stundir saman.

„Áður fyrr var föst regla að við borðuðum öll saman kvöldmat á sunnudögum hérna í Sörlaskjólinu og Þorsteinn sá um matseldina. Smám saman hættum við að vera svona formföst, en reynum þó að borða saman að minnsta kosti einu sinni í viku ýmist hér eða hjá annarri hvorri ungu fjölskyldunni,” segir Hanna Lilja og viðurkennir að sér þyki býsna notalegt að vera boðið í mat, enda tengdadæturnar frábærir kokkar.

Börnin hafa aldrei þurft að koma að tómu húsi

Hún kveðst hafa verið heimavinnandi húsmóðir upp á gamla mátann frá árinu 2001, og geti ekki hugsað sér betra líf, umvafin börnum og barnabörnum. „Forréttindi,” segir Hanna Lilja, sem áður var innkaupastjóri hjá Lyfjum og heilsu. ,,Það er mikill samgangur milli fjölskyldnanna, en við virðum einkalíf hvers annars og allt hefur þetta gengið snurðulaust. Við hjálpumst að með allt sem gera þarf. Loftur hefur til að mynda viðhald hússins og garðinn á sinni könnu og ég sinni barnabörnunum eftir þörfum. Þau hafa aldrei þurft að koma að tómu húsi.”

Stundum bregður þó svo við að amma og afi bregði sér af bæ því þau fara nokkrum sinnum á ári til útlanda vegna starfa afans, sem er prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands. „Starfinu fylgja ráðstefnur og fyrirlestrar víðsvegar um heim, sem var reyndar ein af ástæðum þess að ég hætti að vinna úti á sínum tíma,“ útskýrir Hanna Lilja.

Flakk ömmu og afa skapaði til að byrja með mikið uppnám hjá Þorsteini yngri, sem vildi geta gengið að þeim vísum á sama stað og sama tíma – alltaf. Eins og raunar öllu í sínu lífi. Þorsteinn yngri er nefnilega einhverfur og vill hafa hlutina í föstum skorðum. „Smám saman hefur hann róast, hann veit að hann getur treyst því að við snúum aftur heim og þá kemur hann eins og venjulega upp til afa og ömmu í nokkra klukkutíma fyrir háttinn,“ segir Hanna Lilja.

„Alvöru heima“

Á námsárum Þorsteins og fyrstu búskaparárunum bjuggu þau hjónin í Danmörku, síðan eitt ár í kjallaranum í Sörlaskjólinu áður en Þorsteinn hóf þriggja ára framhaldsnám í Kansas í Bandaríkjunum. Í huga Hönnu Lilju var búsetan ytra þó aldrei „alvöru heima“ eins og Sörlaskjólið og þar voru þau líka með annan fótinn allan níunda áratuginn milli þess sem þau dvöldu á Flórída.

„Eftir að faðir minn lést árið 1984 keyptum við miðhæðina í húsinu og móðir mín fluttist á efstu hæðina. Restina af húsinu keyptum við svo eftir andlát hennar 1997, en þá höfðu Loftur og fjölskylda komið sér fyrir í kjallarann. Og hér höfum við búið í sátt og samlyndi allar götur síðan,“ segir Hanna Lilja og vonast til að svo verði áfram. Henni finnst mikil hagræðing af sambýlinu og segir ólíku saman að jafna þegar móðir hennar tók gamla tengdaforeldra sína inn á heimilið auk þess að ala önn fyrir sínum barnahóp. ,,Kannski förum við Þorsteinn á elliheimili þegar fram líða stundir, eða við flytjum okkur á milli hæða eins og tíðkast hefur í þessu húsi um áratugaskeið.”

Margar góðar minningar

Hanna Lilja og systkini hennar eiga margar góðar minningar úr húsinu. Þær rifja þau upp að minnsta kosti einu sinni á ári á haustmánuðum, þegar þau koma saman ásamt mökum til kvöldverðar á æskuheimilinu.

„Mér finnst gott að búa í þessu húsi og þessu umhverfi. Ég tek Míu litlu með mér út að ganga þrisvar til fjórum sinnum á dag, ýmist í langa og stutta göngutúra og sú hreyfing er mér afar mikilvæg. Svo er gaman að geta sagt börnunum mínum og barnabörnum hvernig allt var hér umhorfs innandyra og utan áður fyrr. Og ekki síst að við höfum öll leikið okkur á sömu steinunum í fjörunni hérna beint fyrir neðan.”

 

 

 

Ritstjórn ágúst 13, 2014 16:09